Þessar bleiku sjöur kúra nú á ganginum með vinkonum sínum í svörtum lit. Þær eru bara dregnar fram þegar það vantar fleiri stóla. Einu sinni voru þær í aðalhlutverki en núna halda þær uppi stuðinu baksviðs.
Þessar bleiku sjöur kúra nú á ganginum með vinkonum sínum í svörtum lit. Þær eru bara dregnar fram þegar það vantar fleiri stóla. Einu sinni voru þær í aðalhlutverki en núna halda þær uppi stuðinu baksviðs. — Morgunblaðið/Marta María
Það getur verið óttalegt ströggl að vera fagurkeri. Sérstaklega ef fagurkerinn er glundroðakenndur með óljósar hugmyndir um hvernig sé smekklegast að setja saman hina fullkomnu heildarmynd. Til þess að finna út úr hlutunum þarf oft og tíðum að gera nokkrar tilraunir

Það getur verið óttalegt ströggl að vera fagurkeri. Sérstaklega ef fagurkerinn er glundroðakenndur með óljósar hugmyndir um hvernig sé smekklegast að setja saman hina fullkomnu heildarmynd. Til þess að finna út úr hlutunum þarf oft og tíðum að gera nokkrar tilraunir.

Svo bætir ekki ástandið ef fagurkerinn er nískur með dýran smekk. Þessi fagurkeri vill kannski hafa allt ógurlega fínt hjá sér en tímir svo ekki að taka upp veskið þegar á hólminn er komið. Hann getur hins vegar, með útsjónarsemi og nýtni og stundum algerri heppni, gert góð kaup. Ef hann er sniðugur getur hann blandað öllum heimsins stílum saman, gert upp húsgögn og keypt svo eitt og eitt klassískt húsgagn sem lifir af allar helstu hörmungar heimsins.

Eitt sinn var kona sem er nísk með dýran smekk stödd í húsgagnaverslun nokkurri þar sem nokkrar bleikar sjöur eftir Arne Jacobsen heitinn voru falar á niðursettu verði. Vandamálið var bara að konan hafði keypt tvo eða þrjá stóla áður, líka á niðursettu verði, sem voru ekki nákvæmlega í sama lit og þessir sem nú voru í boði. Þá var gott að geta kallað í konung hönnunar á Íslandi, Eyjólf Pálsson, stofnanda Epal, sem samþykkti að þessir tveir bleiku litir færu saman og líklega myndu fáir koma auga á að um örlítinn litamun væri að ræða. Dómur var fallinn og ekki þurfti að úrskurða frekar í málinu. Konan labbaði út með fleiri bleikar sjöur en þegar heim var komið áttaði hún sig á því að þær væru ekki allar í sömu hæð. Hún leit á þennan hæðarmun sem tækifæri. Lágvaxnir gætu fengið hærri stólana og risarnir í fjölskyldunni, sem komu stundum í heimsókn, gátu setið í þeim lægri. Engin vandamál bara lausnir.

Seinna hóf konan með bleiku sjöurnar í tveimur litum í mismunandi hæð sambúð með gáfuðum manni sem átti svartan leðursófa með tungu. Maðurinn vildi geta horft á Netflix án þess að þurfa að setja sig í sérstakar stellingar. Auk þess vildi hann geta borðað súkkulaði í sófanum án þess að áklæðið yrði blettótt. Konan með bleiku sjöurnar hafði aldrei haft sérstakan smekk fyrir leðurhúsgögnum. Og aldrei velt þeim möguleika fyrir sér að það gæti hugsanlega verið sniðugt að eiga húsgögn sem auðvelt væri að þrífa. Það er ástæða fyrir því að húsgagnabólstrun er iðngrein. Það er svo að fagurkerar heimsins geti fengið nýtt áklæði þegar þeir eru búnir að hella óvart rauðvíni og majonessósum í húsgögnin. Í dag ætti ríkið kannski að íhuga að niðurgreiða bólstrun á húsgögnum til að létta aðeins á Góða hirðinum og lengja líf vandaðra gamalla hluta en það er önnur saga.

Aftur að eiganda svarta leðursófans með tungunni. Hann lagði ríka áherslu á að heimilið væri þannig samsett að auðvelt væri að þrífa það. Hann vildi ekki ryk og yfirfullar óhreinatauskörfur.

Lífið hefur farið upp á við því í dag er hann stoltur eigandi lofthreinsitækis sem lætur rykið setjast um leið og það eykur loftgæði heimilisins. Það er reyndar svolítill hávaði í lofthreinsitækinu en konan með bleiku sjöurnar heyrir ekki hávaðann í því. Hennar háværu hugsanir sjá til þess að það þarf að verða jarðskjálfti, helst fimm á richter, til þess að hún taki eftir því að eitthvað hafi gerst en þá verður hún líka logandi hrædd.

Svo er það ryksuguvélmenni heimilisins. Hann hefur umsjón með því og er svo lánsamur að vera sá eini sem hefur aðgang að appinu sem fylgir með. Hann er reyndar líka sá sem sér til þess að allar vélar heimilisins séu helst í gangi fyrir utan eldavél og hrærivél. Það er því ekkert skrýtið að maðurinn sem einu sinni átti svartan leðursófa með tungu verði gramur þegar setningin „þriðja vaktin“ er nefnd. Konan með bleiku sjöurnar gerði þau mistök einu sinni og mun gæta þess að gera það aldrei aftur. Hún lofar.