Fjölmennt Rætt var um afkomu sveitarfélaga, óvissu í efnahagsmálum og stór verkefni sveitarfélaga á fjármálaráðstefnunni sem 500 manns sitja.
Fjölmennt Rætt var um afkomu sveitarfélaga, óvissu í efnahagsmálum og stór verkefni sveitarfélaga á fjármálaráðstefnunni sem 500 manns sitja. — Morgunblaðið/Arnþór
Sveitarfélögin standa frammi fyrir gríðarlegum fjárhagslegum áskorunum í rekstri sínum sem munu fyrirsjáanlega bara aukast á næstu árum. Þetta kom fram í setningarræðu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst í gær

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Sveitarfélögin standa frammi fyrir gríðarlegum fjárhagslegum áskorunum í rekstri sínum sem munu fyrirsjáanlega bara aukast á næstu árum. Þetta kom fram í setningarræðu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst í gær. Um 500 manns sitja ráðstefnuna sem lýkur í dag.

Heiða Björg sagði að sveitarfélög yrðu að geta treyst fyrirætlunum ríkisins svo sem um framgang samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu. Málflutningur fjármálaráðherra að undanförnu um að tefja framgang sáttmálans, sérstaklega varðandi almenningssamgöngur, væri ekki gott innlegg í málið.

Hún sagði einnig að há verðbólga setti í uppnám fjármögnun sveitarfélaga á uppbyggingu nauðsynlegra innviða. Fjallaði hún um stór verkefni sem hafa færst yfir til sveitarfélaganna en fjármagn sem fylgdi verkefnunum hefði ekki dugað til. Grunnskólinn kostaði í dag langtum stærri hluta af útsvarstekjum en reiknað var með við yfirfærsluna, svo munaði um 30 milljörðum á ári. Fram undan væru gríðarlega kostnaðarsöm verkefni sem lytu að því að tryggja fötluðu fólki íbúðir með þjónustu sem talið er kosta um tíu milljarða króna. Sagði Heiða að krafa sveitarfélaga um fulla fjármögnun þessarar þjónustu skýra og að sveitarfélögin myndu fylgja henni eftir af fullum þunga í viðræðum við ríkið.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði ráðstefnuna og kvað nokkuð við annan tón. Bjarni rifjaði upp að á tíma covid-faraldursins hefðu tekjur sveitarfélaga aukist á meðan tekjur ríkissjóðs lækkuðu um tugi eða hundruð milljarða. Sagði hann að sveitarfélögin væru sjálfstæð, með sjálfstæða tekjustofna og almennt sjálfræði í sínum málum. Sveitarfélög þyrftu að bregðast við ef útgjöld vaxa umfram áætlanir og sá reikningur yrði augljóslega ekki sendur sjálfkrafa á ríkið.

Tímabært að vera raunsær

Bjarni kom einnig að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í ræðu sinni og ítrekaði ummæli sín sem greint hefur verið frá hér í blaðinu um að hann væri vanfjármagnaður. Gert hefði verið ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 120 milljarðar þegar samningurinn var undirritaður 2019 en nú væri sú fjárhæð komin í 160 milljarða og þegar litið væri á öll verkefnin sýndist heildarkostnaðurinn vera kominn í um 300 milljarða. Því til viðbótar óskuðu sveitarfélögin eftir því að ríkið tæki verulegan þátt í að reka almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri um aðra 40 milljarða að ræða.

„Það er kominn tími til að vera aðeins raunsær í þessu máli. Þeir sem halda því fram að við eigum bara að halda okkar striki, hvað eru þeir að segja? Eru þeir að segja að við eigum að setja 30 milljarða [árlega] í útgjöld í þetta mál næstu tíu árin? Gangi ykkur vel. Það er auðvitað útilokað að það takist. Það er enginn möguleiki á því að það verði framkvæmt fyrir 30 milljarða á ári næstu tíu ár. Í fyrsta lagi höfum við ekki peninginn og í öðru lagi er útilokað að það sé hægt að framkvæma fyrir svona mikið. Við erum búin að vera í sjö til átta ár að koma framkvæmdum við Landspítalann yfir 20 milljarða,“ sagði Bjarni.

Ekki leyst með hókus-pókus

Í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra fjallaði hann m.a. um samgöngumál og sagði samgöngusáttmálann vera gríðarstórt verkefni. Vandinn blasti við íbúum höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi. „Það er augljóst að sá vandi verður ekki leystur með hókus-pókus-aðferðum. Verkefnið er stórt og umfangsmikið og það er kostnaðarsamt líkt og aðrar samgönguframkvæmdir hringinn í kringum landið,“ sagði hann m.a. „Við getum ekki frestað vandanum heldur verðum við að horfast í augu við hann. Það kostar líka mikið að loka augunum og bíða eftir einhverjum óskilgreindum tæknilegum töfralausnum,“ sagði Sigurður Ingi.

Höf.: Ómar Friðriksson