Hræðsla Talk to Me er sýnd í Bíó Paradís.
Hræðsla Talk to Me er sýnd í Bíó Paradís. — Ljósmynd/Skjáskot
Undanfarnar vikur hefur það ekki gengið áfallalaust fyrir sig að reyna að komast í kvikmyndahús með góðvini mínum. Báðir erum við hálffertugir með tvö ung börn og því ýmislegt sem getur komið upp á. Vinnuferðir erlendis og stöku kvöldvaktir hjá…

Gunnar Egill Daníelsson

Undanfarnar vikur hefur það ekki gengið áfallalaust fyrir sig að reyna að komast í kvikmyndahús með góðvini mínum. Báðir erum við hálffertugir með tvö ung börn og því ýmislegt sem getur komið upp á.

Vinnuferðir erlendis og stöku kvöldvaktir hjá okkur vinunum og mökum, veikindi hjá afkvæmunum, önnur plön og annað tilfallandi hefur þar komið til.

Báðir erum við hryllingsmyndasjúklingar og höfum nú í að verða þrjár vikur reynt að finna tíma til þess að fara á Talk to Me, hryllingsmynd sem hefur verið í sýningu í Bíó Paradís og Laugarásbíói undanfarið og fengið fyrirtaks dóma.

Ekki hefur það gengið ennþá en við stöndum enn keikir, fullir trúar á að við munum á endanum komast í bíó til þess að sjá góða hryllingsmynd sem vonandi fer langt með að hræða úr okkur líftóruna. Eflaust tengja margir foreldrar ungra barna við þessi vandræði sem geta fylgt því að reyna að koma á hittingi fullorðinna.

Er þetta er ritað virðist sem Talk to Me sé hætt í sýningum í Laugarásbíói en þá leggjum við traust okkar á Bíó Paradís, sem verður í það minnsta áfram með myndina í sýningu í næstu viku. Það er einmitt nýjasta planið, að finna tíma eitthvert kvöldið í næstu viku!