Gígja Garðarsdóttir, dagforeldri, Grenigrund 48 Akranesi, fæddist 18. september 1944 á Hríshóli í Reykhólasveit. Hún lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða, Akranesi, 12. september.

Foreldrar hennar voru Garðar Halldórsson, f. 8. september 1924, d. 20. október 2017, og Kristín Sveinsdóttir, f. 9. apríl 1921, d. 18. september 2006.

Eftirlifandi eiginmaður Gígju er Sigurður Guðjónsson, f. 1942.

Þau eignuðust fjögur börn: 1) Inga Dís Sigurðardóttir, f. 1968, eiginmaður hennar er Karvel Líndal Hinriksson, f. 1968. Börn hennar eru Hilmar Þór, f. 1992, Arnór Freyr, f. 1993, og Rebekka Rán, f. 2004. 2) Garðar Björn Sigurðsson, f. 1969, dóttir hans er Keanna Rós, f. 2012. 3) Guðjón Ingi Sigurðsson, f. 1978, börn hans eru Christian Darri, f. 2009, og Gígja Karen, f. 2011. 4) Kristján Óskar Sigurðsson, f. 1981, hann lést af slysförum árið 1999.

Útför Gígju fer fram frá Akraneskirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni á vef Akraneskirkju: https://akraneskirkja.is

Í dag kveð ég elsku systur mína, nú er hún laus úr fjötrum parkinsonsveikinnar sem heft hefur för hennar í mörg ár. Nú er hún frjáls og margir faðmar tekið á móti henni. Nú leiðast þau saman í ferðalagið sem bíður hennar, ég trúi því að hún hafi farið yfir sveitina okkar sem henni þótti svo vænt um. Við áttum góða æsku og frelsi til að leika okkur, við ræddum oft um gömlu dagana og hvað við vorum heppin. Hún elskaði Bjarkalund og Vaðalfjöllin. Hún var með stórt og fallegt hjarta, bakaði ótal smákökusortir fyrir jólin, setti í box og sendi þeim sem minna mega sín. Fannst sjálfsagt að hjálpa þeim sem þurftu. Hún átti fallegt heimili sem bar þess merki, mikil handavinnukona í útsaumi sem og öðru, það var henni erfitt að geta ekki sinnt því. Hún var dagmóðir í fjölda ára, elskaði það starf og öll börnin sem hún sinnti af mikilli umhyggju meðan heilsan leyfði. Það var fjölskyldunni mikill harmur þegar Kristján Óskar sonur þeirra lést af slysförum, blessuð sé minning hans.

Elsku Siggi, missir þinn er mikill. Þú hefur annast systur mína í mörg ár í veikindum hennar, fyrst heima og síðan á Höfða. Fórst til hennar daglega að stytta henni stundir og spjalla og fara út. Svona er ástin og virðingin fyrir makanum falleg. Takk fyrir að vera þú. Samúðarkveðja til fjölskyldunnar, guð gefi ykkur styrk í sorginni. Megi hún hvíla í friði, minning hennar lifir.

Alda Garðarsdóttir.

Á lífsleiðinni verða á vegi okkar margar manneskjur sem hafa mismikil áhrif á líf okkar. Í dag kveðjum við konu sem ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast fyrir rúmum fjórum áratugum. Ég var nýflutt á Akranes og þurfti dagmömmu fyrir átta mánaða dóttur mína. Mér var bent á Gígju. Hringdi og mér boðið í heimsókn. Hún hafði ekki ætlað sér að taka börn í gæslu strax, enda með son á sama aldri og dóttir mín. Lánið lék við okkur mæðgur og upp frá þessu myndaðist falleg vinátta við Gígju, Sigga og börnin.

Gígja var einstök kona. Ekkert haggaði henni. Það var aðdáunarvert að verða vitni að hvernig börnin í daggæslunni hlýddu henni. Allt fór þetta fram í friði og spekt. Ekki skemmdi fyrir að Siggi kom heim í hádeginu og hjálpaði til við að mata litlu krílin.

Gígja elskaði gróður og náttúruna. Þess ber garðurinn á Grenigrundinni og umhverfið við sumarbústaðinn glöggt merki. Allt blómstraði í höndunum á henni.

Þótt við byggjum ekki lengi á sama stað, ég erlendis og síðan á Vestfjörðum, var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Þegar ég kom við að vestan eða á leið til baka var alltaf það fyrsta sem Gígja sagði: Elskan, þú verður í mat og geturðu ekki bara gist?

Elsku Gígja er nú horfin á braut eftir erfiða baráttu við parkinson. Guð blessi minningu góðrar konu. Elsku Siggi, Garðar, Inga Dís, Gaui og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur og megið þið öðlast styrk í sorg ykkar.

Hulda.