Garðar Forberg fæddist á Seyðisfirði 9. ágúst 1933. Hann andaðist á Landspítalanum 11. september 2023.

Foreldrar hans voru Ágústa Sveinsdóttir, f. 9. mars 1902, d. 13. apríl 1940, og Kári Forberg, stöðvarstjóri Pósts og síma, f. 14. febrúar 1905, d. 15. mars 1981. Síðari eiginkona Kára og stjúpmóðir Garðars var Vilborg Ásmundsdóttir, f. 21. ágúst 1898, d. 21. febrúar 1994.

Fyrri eiginkona Garðars var Guðrún Á. Símonar óperusöngkona, f. 24. febrúar 1924, d. 28. febrúar 1988, þau skildu. Þeirra sonur er Ludvig Kári Forberg tónlistarmaður og tónskáld, f. 13. febrúar 1961. Ludvig Kári er kvæntur Ásdísi Arnardóttur sellóleikara, f. 28. janúar 1967. Börn Ludvigs Kára og Ásdísar eru Ágústa Jenný Forberg og Agnar Forberg.

Síðari eiginkona Garðars var Elín Hansdóttir, f. 25. desember 1938, d. 8. nóvember 2017. Sonur þeirra er Garðar Forberg, varnarmálafulltrúi í utanríkisráðuneytinu, f. 6. ágúst 1971. Dóttir hans og Juliju Buksa er Katrína Forberg, f. 2. nóvember 2002.

Sonur Elínar frá fyrra hjónabandi sem Garðar gekk í föðurstað frá átta ára aldri er Hans Othar Jóhannsson fiðlusmiður, f. 28. júní 1957. Eiginkona Hans er Fríða Björk Ingvarsdóttir bókmenntafræðingur og fyrrverandi rektor Listaháskóla Íslands, f. 30. maí 1960. Börn Hans og Fríðu eru Elín Hansdóttir myndlistarmaður; hennar synir eru Noé Elínarson Pausz, f. 9. maí 2013, d. 9. maí 2013, og Ari Elínarson Pausz, f. 9. maí 2013, og Úlfur Hansson, tónlistarmaður og tónskáld, f. 30. mars 1988; dætur hans eru Þyrí Úlfsdóttir, f. 26. mars 2013, og Sigurlilja Úlfsdóttir, f. 1. nóvember 2020.

Garðar og Elín tóku einnig í fóstur fimm ára gamla Guðbjörgu Forberg öryggisvörð, f. 15. september 1977.

Bernskuárum sínum varði Garðar á Seyðisfirði þar sem hernám stríðsáranna setti mikinn svip á bæinn og heimilislíf hans enda starfaði faðir hans m.a. við að þjónusta fjarskipti hernámsliðsins. Á Seyðisfirði eignaðist hann í frænda sínum Olav Ellerup ævilangan vin, en þeir fóru saman í gagnfræðanám á heimavistinni á Eiðum eftir að barnaskólanámi lauk. Síðar fóru þeir einnig saman í Verzlunarskólann og deildu herbergi í Reykjavík á námstímanum. Að verslunarprófi loknu lá leið þeirra beggja til Bandaríkjanna, þar sem þeir unnu ýmis störf þar til þeir hófu herþjónustu í bandaríska hernum, sem að herþjónustunni lokinni gerði Garðari kleift að hefja nám í flugvirkjun sem hann starfaði síðan við nánast alla sína ævi. Sem flugvirki vann Garðar fyrst í Bandaríkjunum þar sem þau Elín bjuggu sér heimili í tæpan áratug. Eftir stutt stopp á Íslandi á meðan Garðar vann við uppbyggingu olíuleiðslunnar í Alaska fluttu þau Elín heimili sitt til Lúxemborgar þar sem þau bjuggu mestmegnis frá 1974 til 1989, en þá fluttu þau heimili sitt endanlega til Íslands. Garðar hélt þó áfram að sinna sínum störfum sem flugvirki víða um heim allt þar til hann lét af störfum 75 ára gamall.

Garðar verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag, 22. september 2023. Athöfnin hefst klukkan 13.

Heimsborgarar er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég minnist tengdaforeldra minna, Elínar Hansdóttur og Garðars Forberg. Hún alin upp á menningarheimili í Reykjavík, þar sem helstu myndlistarmenn þess samtíma voru heimagangar, hann sveitastrákur frá stöndugu heimili á Seyðisfirði, með óbilandi útþrá sem skilaði honum til New York áður en hann varð tvítugur. Nú, að þeim báðum gengnum, stendur eftir minning um fólk sem tók þátt í uppgangi sjöunda og áttunda áratugarins í Bandaríkjunum og lifði því lífi sem fólk hér kynntist helst í sjónvarpsþáttum. Þau áttu einbýlishús í úthverfi New York með lítilli sundlaug; flotta bíla og skemmtibát. Síðar fluttu þau til Lúxemborgar, þar sem þau voru fljót að bæta við sig nýjum háttum, sömdu sig að rótgrónari menningu Mið-Evrópubúa, án þess þó að glata þeim umburðarlyndu og nútímalegu gildum sem Bandaríkin höfðu innrætt þeim ungum.

Ég kom fyrst á heimili þeirra hjóna í Lúxemborg sumarið 1979, þar sem þau bjuggu í glæsilegri íbúð með útsýni yfir skógivaxnar hæðirnar allt um kring. Þar var boðið upp á hanastél fyrir matinn og munnþurrkur úr líni prýddu matborðið alla daga. Húsgögnin voru samansafn úr ýmsum heimshornum og handofnar mottur á gólfum, keyptar á ferðalögum þeirra hjóna m.a. í Austurlöndum. Íslensk samtímalist greip samt augu gesta fyrst, enda mikilvægur þáttur í heimilishaldi þeirra að finna listaverkunum verðugan stað í hvert skipti sem þau fluttu. Og það var oft, því þau voru óhrædd að taka sig upp og flytja landa á milli.

Garðar fann maður gjarnan í bílskúrnum, í skjannahvítum bol með sígarettupakkann nærri. Þar undi hann sér við að setja saman vélar og gera upp eftirtektarverða bíla; Mustang, Camaro, Daimler og auðvitað alla Bensana.

Orðspor Garðars og metnaður sem flugvirki var einstakt, enda bætti hann stöðugt við sig prófum á hverja þá nýju vél sem kom á markaðinn. Þar sem hann var með leyfi til að afgreiða fleiri flugvélar en flestir var hann eftirsóttur starfskraftur og átti feril með mörgum flugfélögum víða um heim. Fyrst og fremst var hann þó Loftleiðamaður.

Garðar var áræðinn og lausnamiðaður; hafði óbilandi trú á tækniframförum og getu hvers og eins til að láta að sér kveða. Eftir fráfall Elínar var hann daglegur gestur á heimili okkar, leit við til að ræða horfna tíma sem og áskoranir hvers dags, sem auðvitað voru margar fyrir mann á hans aldri.

Frá barnsaldri bar Garðar með sér harm móðurmissis er átti án efa ríkan þátt í því hvaða leiðir hann valdi sér í lífinu. Síðustu ár varð honum tíðrætt um hvaða afleiðingar slíkt hefur á barnssálina, enda var hann alla tíð með afbrigðum barngóður og átti auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem minna máttu sín.

Mér, börnum og barnabörnum okkar Hansa hefur Garðar því verið ómetanlegur; fullur áhuga og stuðnings gagnvart hverju því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur. Fyrir örlæti hans og umhyggju gagnvart okkur öllum verð ég honum ævinlega þakklát. Við Hansi kveðjum góðan pabba, tengdapabba, afa og langafa með miklum söknuði.

Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Afi var vanur að segja mér að ég væri svo dugleg að hjálpa honum; með Facebook, við eldamennskuna, eða við snjallsímann hans. Hann sagðist sannarlega kunna að meta það, en í raun var það hann sem alltaf hjálpaði mér svo mikið. Hann var í góðu skapi þegar það þurfti að lyfta andanum, ótrúlega skemmtilegur þegar það þurfti að útrétta, en sérstaklega góður félagsskapur í ævintýraleiðöngrum. Og sama hvað hann sagði, og þrátt fyrir einstaka úrillan dag sem við eigum öll, þá var hann mjög bjartsýnn og hafði hæfileikann til að stappa í mann stálinu og telja manni trú um að allir vegir væru færir þótt maður efaðist sjálfur. Oftast lagði hann mér þó lið við að skutla mér, enda var hann óþreytandi við að taka að sér að vera einkabílstjórinn minn, og hver þarf ekki á slíku að halda?

En án alls gamans, þá tengjast þessum bílferðum svo margar minningar, allt eftir því hvert við vorum að fara, hver tími ársins var, eða hvaða samtal við áttum sem stundum varð til þess að hann missti einbeitinguna við aksturinn. Og minningarnar eru margar nátengdar því sem spilað var í útvarpinu. Ein fyrsta minning mín af afa Santa (gælunafn sem ég gaf honum af því hann var með hvítt skegg eins og jólasveinninn) var þegar ég var lítil og sat ennþá aftur í bílnum. Þá heyrði ég kunnuglegt lag Bobbys McFerrins og fór að syngja með þar til hann söng líka hástöfum með þessu smitandi lagi. Og þótt ég gleymi þessu augnabliki stundum, þá minnti hann mig reglulega á mikilvægan boðskap þessa lags: „Don't worry, be happy.“

Katrina Forberg.

Þá er Garðar Forberg farinn en við systkinin þekktum hann alltaf sem Galla frænda. Við minnumst hans eins langt aftur og við munum, eða frá fyrstu árum bernsku okkar í Bandaríkjunum. Pabbi, Þorgeir Halldórsson, vann hjá Loftleiðum í New York og fljótlega kynntumst við bræður ævintýramanninum Galla. Hann vann sem flugvirki hjá Loftleiðum á Idlewild-flugvelli (síðar JFK-flugvöllur). Hann hafði flust til Ameríku og gengið í landher þess lands, til þess að fá atvinnuleyfi. Við komumst að því síðar að hann hafði gegnt herþjónustu í Þýskalandi, í sömu herdeild og Elvis Presley. Það þótti okkur merkilegt.

Galli kallaði ekki allt ömmu sína og ekki annað hægt en að dást að þori og áræði hjá óhörðnuðum unglingi að leggja land undir fót, fara frá litla Íslandi til Bandaríkjanna. Dirfska og áræði einkenndi líf og starf Galla alla tíð.

Það var okkur mikið gleðiefni þegar Elín, móðursystir okkar, og Galli hófu samband og gengu síðar í hjónaband sem varði þar til Ella lést árið 2017. Ella flutti ásamt Hansa, syni sínum, vestur um haf. Galli gekk Hansa í föðurstað og reyndist honum vel eins og öðrum börnum sínum, Ludvig Kára, Garðari yngri og Guðbjörgu.

Þannig varð Galli að „Galla frænda“ þótt ekki værum við blóðskyld. Það er rétt rúmur mánuður síðan stórfjölskyldan og vinir Galla héldu upp á níræðisafmæli hans með glæsibrag. Galli var hress, skýr og viðræðugóður eins og ævinlega – hann bar aldurinn vel.

Einkennandi fyrir lífshlaup Galla var hve virkur og kvikur hann var alla tíð. Að dútla við og gera upp gamlan bíl, bát eða reiðhjól var meira en bara tómstundaiðja – í slíkum verkefnum fann hann sálarfrið. Hann naut sín við að finna leiðir til að koma einhverju ónýtu í lag á ný. Iðjusemi var Galla eðlislæg.

Galli þótti einkar laginn flugvirki og naut virðingar í starfi. Á löngum ferli starfaði hann fyrir mörg flugfélög; svo sem PanAm, Loftleiðir, Flugleiðir og Air Atlanta. Hann vann líka við lagningu olíuleiðslunnar í North Slope í Alaska og hjá Ratsjárstofnun.

Galli var sannur heimsborgari og bjó á jafnólíkum stöðum og Hackensack og Hafnarfirði, Lúxemborg og Levittown, Hicksville og Sörlaskjóli, Köln og Klapparstíg. Hann bjó líka um stund á fjarlægum stöðum á borð við Mógadisjú og Indónesíu. Hann átti auðvelt með að aðlagast nýju umhverfi þótt stöku sinnum blési hann frá sér orðtaki sem hann hafði lært í Ameríku; „for crying out loud!“ Orðtakið notaði hann til dæmis þegar honum mislíkaði vont stjórnarfar og skriffinnska eða þegar veðrið var sérlega kalt og leiðinlegt – enda þurfa flugvirkjar oftlega að stunda vinnu sína á ísköldum og vindasömum flughlöðum.

Aðalsmerki Galla voru ákveðni, umburðarlyndi, kurteisi og röggsemi. Hann hafði líka svo smitandi og skemmtilegan hlátur, það var gott að vera í návist hans.

Það er skarð fyrir skildi í fjölskyldunni nú þegar við kveðjum Galla í hinsta sinn. Far í friði, elsku Galli, og takk fyrir góð kynni.

Hrafn, Halldór og Arndís.