Páll Björnsson fæddist 27. júní 1944 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hann lést 6. september 2023 á Landspítalanum.

Foreldrar hans voru Björn Jónsson, f. 18.8. 1910, d. 8.8. 1988, og Jónína Guðmundsdóttir, f. 29.7. 1916, d. 2.7. 2014.

Systur Páls eru Birna, f. 5.4. 1941, d. 27.12. 2007 og Kolbrún, f. 19.6. 1953. Eftirlifandi eiginkona Páls er Jóhanna Björg Ström, f. 2.8. 1948. Börn þeirra eru: 1) Jónína, f.2.9. 1966, maki Jón Arnar Magnússon, f. 18.12. 1964, börn þeirra: Þorkell, Bryndís og Magnús Páll. 2) Viktor Pálsson, f. 15.9. 1968, maki Signý Þöll Kristinsdóttir, f. 16.11. 1973, börn þeirra: Margrét Embla og Auður Alma. Börn Viktors úr fyrri sambúð með Sólveigu Guðnadóttir, f. 17.7. 1967, eru Guðni Páll og Viktoría Kristín. 3) Elva Björg Pálsdóttir, f. 7.3. 1975, maki Finnbogi Helgi Snæbjörnsson, f. 29.7. 1975, börn þeirra: Alexander Almar, Aron Atli og Alvar Auðunn. 4) Birna Pálsdóttir, f. 17.7. 1980, maki Gestur Valur Svansson, f. 17.2. 1975, börn þeirra: Aron Ingi, Andri Blær og Jóhanna Guðrún.

Barnabarnabörnin eru þrjú: Ísak Hrafn, Erna Sól og Klara Sif.

Páll stundaði nám í Barnaskóla Þingeyrar og gagnfræðanám á Núpi. Hann nam skipstjórn við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Palli og Lilla eins og þau voru jafnan kölluð hófu búskap sinn á Fjarðargötu 14 árið 1966 á Þingeyri við Dýrafjörð og giftu sig sama ár, 19. nóvember. Þau byggðu sér hús á Brekkugötu 31 árið 1979 og var það heimili Palla til æviloka. Á Þingeyri leið honum best.

Palli stundaði sjóinn frá unga aldri á bátum frá Þingeyri, fór á síld á Siglufirði og varð skipstjóri á bátum og togurum. Hann hélt mikið upp á bátinn sinn Bibba Jóns sem hann gerði út til fiskveiða til æviloka. Sjómennskan og fjölskyldan var hans líf.

Útför Páls fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 14.

Hjartans þakkir fyrir öll árin okkar elsku Palli minn.

Guð geymi þig.

Þín

Jóhanna (Lilla).

Elsku pabbi minn, sem elskaði fólkið sitt og sjóinn. Pabbi var mikill karakter, alltaf til í spjall við alla um allt, og ekki var verra ef það voru veitingar með. Hann hafði gaman af öllum íþróttum og allir fréttatímar voru teknir mörgum sinnum á dag, og veðrið, verandi sjómaður. Hann samdi vísur, spilaði ólsen-ólsen við barnabörnin og gaf þeim ís.

Komið er að kveðjustund

elsku pabbi minn.

Undir bláhimni siglir þú nú

og ólsen-ólsen spilar þú.

Marga muntu hitta þar

hrókur alls þú verður þar.

Ást og kærleik gafstu mér

besti pabbi varstu mér.

Ást mína áttu alla tíð

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín Nína.

Jónína.

Nú komið er að kveðjustund

þú elsku pabbi ert farinn.

Vildi ég aldrei eiga þennan fund

og sál mín er marin.

Sit ég hér eftir með hjartað fullt

af yndislegum stundum.

Sungið, lifað, leikið sér

með húsið fullt af hundum.

Takk fyrir allan tímann þinn,

sem áttir þú með okkur.

Geymi ég hann enn um sinn

þar til gráu hárin verða nokkur.

Ég veit þú yrðir stoltur af mér,

að yrkja þessar línur.

Er bara alls ekki góð í því

ég er betri með berjatínur.

Ég elska þig ætíð pabbi minn,

í hjarta mínu áttu heima.

Við systur þrjár og strákurinn sá

sem sjóinn reri með þér

munu ætíð mömmu geyma.

Guð geymi þig elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér, ég er þakklát að hafa valið þig sem pabba og minning þín lifir um ókomna tíð.

Þín

Elva Björg (Ella Bogga).

Elsku besti pabbi minn hefur kvatt og eftir stöndum við með sorg en líka gríðarlegt þakklæti í huga.

Ég vildi ekki að þessi dagur kæmi en samt varstu orðinn svo þreyttur undir lokin af eilífri veikindabaráttu. Af eigingirni vildi ég bara hafa þig alltaf hjá mér en veit að núna líður þér betur og ert kominn á góðan stað að spjalla við fullt af skemmtilegu fólki. Á svo ótalmargar minningar sem ylja mér og er ég ótrúlega heppin að hafa fengið að velja þig sem pabba, ég vann svo sannarlega í foreldralottóinu, þið mamma eruð þau allra bestu. Þið eruð einfaldlega gott fólk og frábærar fyrirmyndir í svo mörgu. Þú kenndir mér svo margt, kenndir mér að góðmennska og kurteisi kemur manni langt og að maður uppsker af kærleika. Að dæma ekki fólk eftir útliti og bakgrunni heldur kynnast því og dæma það frá eigin upplifun. Það eru viss forréttindi að vera yngst, systkini mín halda því fram að ég hafi verið dekruðust og held ég að það sé bara satt en á móti tel ég hann hafa dekrað okkur öll á sinn hátt og öll upplifum við okkur sem uppáhald hans, þannig gerði hann ekki upp á milli okkar systkina. Þar sem hann var alla tíð á sjó og ég hef alltaf sagt með stolti að ég sé sjómannsdóttir, þá var hann mikið í burtu, en það var fyrir mína tíð. Hann var kominn á trillubát þegar ég var lítil og man ég t.d. ekki eftir öðru en pabba heima á kvöldin og oftar en ekki að skipuleggja næsta róður og talandi í símann eftir 10-fréttir við trillukarlana. Það var alltaf hægt að leita til pabba með allt og hafði hann ávallt einhver ráð. Hann treysti manni til að velja rétt í lífinu og reyndi ekki að hafa áhrif á ákvarðanir manns, hann virti þær og studdi.

Hann gaf besta knúsið því faðmur hans var svo hlýr og maður fann hversu mikið maður var elskaður.

Börnin mín voru svo ótrúlega heppin með hann sem afa, hann naut sín í því hlutverki enda mjög barngóður. Alltaf voru þau spennt að fara á Þingeyri til afa og ömmu því þar var svo gott að koma. Þegar strákurinn minn var á fermingaraldri fékk hann að fara á sjó með afa yfir sumartímann og lærði hann heilan helling af afa sínum þá. Pabbi var alltaf tilbúinn að hjálpa og með eindæmum gjafmildur og hann er lýsandi dæmi um að sælla er að gefa en þiggja.

Skrítið verður að geta ekki hringt í hann og heyrt í honum og hvað þá að geta ekki spurt hann um veðrið, alltaf var hægt að stóla á að fá stöðu veðursins ef við vorum á leið í ferðalag. Og alveg fram á síðasta þá lét maður pabba vita þegar komið var á áfangastað, hann vildi vita af manni og hvort allt hefði ekki gengið vel. Hann hugsaði svona vel um fólkið sitt.

Elsku besti pabbi, með þessum orðum kveð ég þig með söknuði og ást í hjarta. Takk svo innilega fyrir mig og mína! Elska þig alltaf

Guð geymi þig.

Þín

Birna.

Árið 1998 komst þú inn í mitt líf þegar Birna kynnti mig fyrir ykkur hjónum og var mér tekið vel frá fyrsta degi. Það er sárt að kveðja þig en um leið rifjast upp allar góðu stundirnar sem við áttum með þér. Það var nánast ómennskt að þú hafir staðið uppréttur eftir öll þín veikindi, alltaf komstu til baka klár í næsta slag og þess vegna hélt ég alltaf að þú myndir sigra þessa orrustu en því miður hafðist það ekki. Þú varst einlægur, skemmtilegur og fyrst og fremst góður maður sem setti fjölskylduna í fyrsta sæti. Alltaf var notalegt að heimsækja ykkur hjónin vestur á Þingeyri og leið mér hvergi betur en þar. Mér er svo minnisstætt samtal okkar fyrir tveimur árum þegar við tókum bíltúr á Flateyri og til Bolungarvíkur. Þar varst þú í essinu þínu að sýna mér bátana og sögur af sjónum, samtal okkar var einlægt og þú ræddir um börnin þín og barnabörn, hversu heppinn maður þú værir. Annað sem við ræddum mun ég geyma í hjarta mínu til æviloka. Elsku Palli takk fyrir allar minningarnar, takk fyrir að vera besti afi í heimi, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Þinn tengdasonur,

Gestur V. Svansson.

Elsku tengdapabbi, þar kom að því sem maður var búinn að kvíða fyrir lengi, að þú yfirgæfir þessa jarðvist. En minningarnar lifa og sem betur fer sköpuðum við helling af þeim. Ég var ekki orðinn sextán ára þegar við Elva tókum saman þannig að árin eru orðin allmörg sem við höfum átt saman. Þegar ég kom fyrst og bankaði á hurðina á Brekkugötu tókstu á móti mér með stríðni, og sagðir, þegar þú opnaðir dyrnar og ég fimmtán ára pjakkur stóð þar fyrir utan með töskuna mína, að þú myndir ekki kaupa neitt! En strax frá fyrstu kynnum urðum við miklir vinir og það liðu ekki margir dagar á milli þess sem við heyrðumst.

Þú hafðir alltaf áhuga á því sem ég var að gera, sama hvort það var sjórinn eða að veiða þá vildir þú alltaf fá fréttir af afla, veðri og bara spjalla um daginn og veginn. Ég var líka svo lánsamur að vera með þér til sjós og þá aðallega á Bibba Jóns, en fékk líka að fara með þér á stærri bát þar sem fleiri voru í áhöfn. Mér þótti mjög vænt um að vera tengdasonur þinn þar sem það var alveg sama við hvern maður talaði eða hitti; það báru þér allir vel söguna og sögðu að þú værir einn allra besti skipstjóri sem þeir hefðu verið með, því þú varst ekki bara skipstjórinn þeirra heldur líka vinur.

Sólarlandaferðirnar sem við fórum saman í voru hver annarri betri og varla hægt að hugsa sér betri félaga en þig í þessum hita þar sem það er nauðsynlegt að kæla sig vel og áttum við vinirnir ekkert í erfiðleikum með að skola niður nokkrum kælibaukum saman. Það þurfti að vísu ekki hita til þar sem við gátum setið heilu kvöldin á Brekkugötunni eða í Mosó og skolað nokkrum niður við spjall, og á ég eftir að sakna þessara stunda og símtalanna okkar. Áhuga á mat deildum við og þá helst þessu gamla og góða og notaðir þú t.d. alltaf tækifærið að sjóða svið þegar ég kom vestur, sagðir við Lillu að það yrði að sjóða svið því Finnbogi væri að koma.

Ég gæti setið og skrifað endalausar minningar um tímana okkar saman elsku Palli en þær mun ég varðveita og geyma í hjarta mínu á meðan ég lifi. Það er mér ómetanlega dýrmætt að hafa fengið að vera við hlið þér þegar þú kvaddir okkur.

Þangað til næst, ég elska þig og sakna þín.

Elsku tengdamamma, Viktor, Nína, Elva, Birna og aðrir aðstandendur, megi allar góðar vættir styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Þinn tengdasonur,

Finnbogi Helgi.

Elsku besti afi minn, þín er sárt saknað. Þú varst besti afi sem ég gat einhvern tímann hugsað mér. Þú varst svo ljúfur og góður við alla í kringum þig og allir ættu að eiga allavega einn eins og þig í lífi sínu. Þú varst einstakur maður með hjarta úr gulli. Skemmtilegasta sem ég gerði var að koma á Þingeyri að heimsækja þig og ömmu og spila ólsen-ólsen við þig á meðan við borðuðum kokteilávexti. Þú ert kominn á betri stað núna og ég vona að þér líði betur þarna uppi og sért að fylgjast með okkur. Elska þig svo mikið afi minn.

Hve oft þú huggaðir og þerraðir tárin mín

hve oft þau hughreystu mig orðin þín.

(Stefán Hilmarsson)

Þín afastelpa,

Jóhanna Guðrún.

Langbesti afinn okkar. Við viljum byrja á að þakka þér fyrir að hafa valið að vera afi okkar, það var enginn betri en þú. Óteljandi yndislegar minningar af öllum okkar ferðum vestur og vera á Brekkugötunni að spila ólsen með þér og vaka langt fram eftir. Fara með þér ófáar ferðir á Bibba Jóns. Lífið verður hálftómlegt án þín elsku afi og við söknum og elskum þig að eilífu. Minning þín mun ávallt lifa.

Þínir afadrengir,

Alexander Almar, Aron Atli (Lúlli) og Alvar Auðunn.

Takk elsku Palli afi fyrir allar skemmtilegu minningarnar, alla gleðina og hlýjuna sem þú gafst af þér og ekki síst prakkaraskapinn þinn. Þér þótti svo óendanlega vænt um hópinn þinn sem við vorum svo heppnar að tilheyra. Þú vildir alltaf vita hvað var að gerast í okkar lífi, spurðir og spjallaðir um alla mögulega hluti, gafst okkur heilræði eða gerðir grín að öllu saman. Þú varst sjómaður í húð og hár og báturinn þinn Bibbi mesta ævintýrið okkar. Þú varst líka mesti ískarl í heimi og ófá ísblómin sem þú bauðst upp á. Öll þekkjum við vísurnar þínar og þykir svo vænt um að eiga. Nú siglir þú um aðra veröld og fylgist með hópnum þínum úr fjarlægð.

Þínar afastelpur,

Margrét Embla
og Auður Alma.