Methafi Hallgrímur Mar skoraði tvö mörk gegn Keflavík.
Methafi Hallgrímur Mar skoraði tvö mörk gegn Keflavík. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Hallgrímur Mar Steingrímsson, kantmaður KA-manna, var besti leikmaðurinn í 23. umferð Bestu deildar karla í fótbolta, að mati Morgunblaðsins. Hallgrímur fékk tvö M í…

Hallgrímur Mar Steingrímsson, kantmaður KA-manna, var besti leikmaðurinn í 23. umferð Bestu deildar karla í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.

Hallgrímur fékk tvö M í einkunnagjöf blaðsins fyrir frammistöðu sína með KA þegar liðið sigraði Keflavík, 4:2, í neðri hluta deildarinnar á Akureyri í fyrradag en hann skoraði tvö marka KA og lagði eitt upp.

Fyrra markið var hans 50. fyrir félagið í efstu deild en hann er markahæstur í sögu þess í deildinni, og jafnframt leikjahæstur með 156 leiki.

Hann náði líka stórum áfanga í 22. umferð deildarinnar með því að spila sinn 155. leik í röð fyrir KA í efstu deild, en Hallgrímur er nú sá leikmaður sem hefur leikið lengst fyrir eitt félag í deildinni án þess að missa úr leik.

Hallgrímur, sem er 32 ára gamall, missti síðast af leik á Íslandsmóti árið 2015 en hann lék með Víkingum í Reykjavík í úrvalsdeildinni það ár. Hann sló þá 40 ára gamalt met Magnúsar Þorvaldssonar sem lék 154 leiki í röð fyrir Víking í deildinni á sínum tíma.

Hann er Húsvíkingur eins og fleiri í liði KA og hóf meistaraflokksferilinn með Völsungi í 2. deildinni árið 2007 en fór til KA 2009 og hefur leikið þar síðan, að undanskilinni stuttri lánsdvöl hjá Völsungi 2010 og einu ári hjá Víkingum. Hann lék með KA í 1. deild til 2016 en í úrvalsdeildinni frá 2017.

Samtals á hann að baki 324 leiki á Íslandsmótinu og hefur skorað í þeim 93 mörk, 55 þeirra í efstu deild.

Hallgrímur er í fimmta skipti í liði umferðarinnar hjá Morgunblaðinu í ár en hann er efstur KA-manna í M-gjöf tímabilsins.

Davíð Snær Jóhannsson, miðjumaður FH, er í liði umferðarinnar í sjötta skipti í ár og Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður KR-inga, í fimmta skipti. Þeir Daði Freyr Arnarsson, markvörður FH, Ahmad Faqa, miðvörður HK, og Jannik Pohl, framherji Fram, eru allir valdir í liðið í fyrsta skipti.