Karitas og Daníel rifu niður veggi í húsinu. Gólfið er sérstaklega fallegt en þau notuðu pallaefni til þess að ná fram gamla stílnum.
Karitas og Daníel rifu niður veggi í húsinu. Gólfið er sérstaklega fallegt en þau notuðu pallaefni til þess að ná fram gamla stílnum. — Ljósmynd/Gunnar Bjarki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karitas Pálsdóttir og Daníel Stefánsson hafa nokkrum sinnum tekið íbúðir og húsnæði í gegn. Í dag búa þau ásamt börnum sínum í raðhúsi í Breiðholti sem þau gerðu að sínu. Skapandi hjónin eru alltaf með hugann við næsta verkefni og þegar byrjuð að velta fyrir sér næstu framkvæmdum

Karitas Pálsdóttir og Daníel Stefánsson hafa nokkrum sinnum tekið íbúðir og húsnæði í gegn. Í dag búa þau ásamt börnum sínum í raðhúsi í Breiðholti sem þau gerðu að sínu. Skapandi hjónin eru alltaf með hugann við næsta verkefni og þegar byrjuð að velta fyrir sér næstu framkvæmdum.

Karitas og Daníel starfa bæði við grafíska hönnun, Karitas er menntaður myndskreytir og Daníel listrænn stjórnandi auglýsinga en listina námu þau í Róm. Þegar þau voru að leita að húsnæði langaði þau í hús með vinnuaðstöðu til að geta skapað meðfram dagvinnu. Karitas starfar í dag hjá IKEA en sá áður fyrr um allt prent á föt frá iglo+indi.

„Húsið er byggt 1974 og er í funkisstíl. Við elskum tekkhúsgögn sem við blöndum með nýrri húsgögnum svo það er stíllinn á heimilinu. Efri hæðin er um 130 fermetrar og svo er kjallari undir húsinu sem við erum búin að vinna smám saman í að gera upp og þar er vinnurými og sjónvarpsrými í dag,“ segir Karitas.

Allt upprunalegt

Það var þó ekki bara kjallarinn sem þarfnaðist endurbóta. „Það var allt upprunalegt þegar við keyptum húsið. Við opnuðum rýmið milli eldhúss og stofu. Það voru rifnir niður þrír veggir. Eldhúsið er á sama stað en við breyttum því aðeins og lengdum það út í borðstofuna.“

Í eldhúsinu er einföld hvít IKEA-innrétting með viðarborðplötu og engum höldum. „IKEA-eldhús eru að mínu mati þær innréttingar þar sem þú færð mestu gæðin fyrir minni pening, við höfum alltaf valið IKEA-eldhús inn í þau húsnæði sem við höfum gert upp. Þar eru líka mjög reynslumiklir teiknarar sem aðstoða við að setja eldhúsið upp nákvæmlega eins og hentar þér og eru oft með sniðugar lausnir sem maður sér ekki sjálfur,“ segir Karitas.

Opna rýmið er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. „Rýmið skiptist í tvær stofur, borðstofu og eldhús. Það sem er svo gott við svona rými er að allir geta verið að gera hver sinn hlutinn en samt erum við í sama rýminu og allir sjá alla.“

Baðherbergið í húsinu var einnig tekið í gegn. „Baðherbergið var allt múrað og svo bættum við smá flísum við seinna. Við erum mjög hrifin af því að heilmúra baðherbergi og ég held að ef við tökum fleiri baðherbergi í gegn í framtíðinni munum við alltaf láta múra þau. Það kemur svo falleg og hlýleg áferð og er mjög endingargott.“

Fann gullmola í Góða hirðinum

Hjónin sníða sér stakk eftir vexti og eru lunkin við að nýta það fjármagn sem þau hafa úr að moða hverju sinni. Karitas segir þau spara mest á því að gera flest allt sjálf. Þau hafa þó einnig farið frumlegar leiðir eins og þegar kom að gólfefnavali. „Þegar við lögðum gólfefnið á hér keyptum við pallaefni sem kemur út eins og gamaldags viðargólf. Við pússuðum það, bæsuðum það hvítt og lökkuðum. Við erum rosalega ánægð með gólfið og okkur finnst það gefa heimilinu mikinn sjarma.“

Fallegt þarf ekki alltaf að vera dýrt og segist Karitas vera dugleg að kaupa notað. Uppáhaldshúsgögn hennar á heimilinu eru tveir gamlir hægindastólar. „Ég fann þá í Góða hirðinum fyrir þó nokkrum árum. Ég keypti þá á 2.000 krónur stykkið. Mér þykir mjög vænt um þá og ég er nýbúin að pússa þá upp og skipta um sessur í þeim. Sessurnar voru orðnar þreyttar og í stað þess að bólstra þær ákvað ég að prófa að kaupa tvo stóra púða í IKEA og lagfæra sjálf teygjurnar í stólunum. Ég fann æfingateygjur í Sportvörum sem ég heftaði með heftibyssu og stólarnir eru eins og nýir.

Annað sem er í uppáhaldi er verk sem ég keypti í IKEA þegar fyrirtækið fór í samstarf við hönnuðinn Virgil Abloh. Samstarfið var vörulína sem kom í takmörkuðu upplagi og þetta verk er endurprentun á Monu Lisu-málverkinu sem ljósabox. Það er alltaf gaman að finna list sem heillar mann og færa inn á heimilið. Það er klárlega eitthvað sem við viljum gera meira af í framtíðinni.“

Langar að einfalda lífið

Þegar tveir listamenn gera upp hús leggjast þeir í mikla rannsóknarvinnu, safna myndum til að leita sér að innblæstri og þegar kom að húsinu í Breiðholtinu horfðu þau mikið til stíls sem kallaður er mid-century modern. Það er þó ekki bara dans á rósum að gera upp eigið húsnæði.

„Það er mjög krefjandi að vera í framkvæmdum. Það liggur á manni að klára verkið, í þessu húsi var það kjallarinn. Það er auðvitað líka gaman en það verður minni tími fyrir listina. Þetta er alltaf togstreita, þegar maður er að gera allt sjálfur þá tekur kannski allt lengri tíma.“

En hvað er best við það?

„Að gera heimilið nákvæmlega eins og maður vill hafa það og þannig að manni líði sem best. Það er alltaf voða auðvelt að fara inn og segja „þetta er allt í lagi“ en það er svo gaman að gera allt nákvæmlega eins og maður vill hafa það.“

Hjónin er farið að klæja í fingurgómana að gera upp enn aðra eign. Þegar það gerist sér Karitas fyrir sér að breyta aðeins um stíl. „Ég held að ég myndi vilja vera aðeins mínímalískari. Ég held að það séu aukin lífsgæði í að hafa minna í kringum sig. Núna er ég með mikið af hansahillum með miklu dóti í sem mér finnst gaman, þetta eru hlutir sem mér þykir vænt um. Þannig að þetta verður alveg erfitt fyrir mig, ég tími ekki að henda öllum hlutum en það hafa allir gott af því að endurhugsa hlutina og breyta til,“ segir Karitas.