— Morgunblaðið/Eggert
Hver ert þú? Ég heiti Tinna og er eini atvinnuheklari Íslands. Ég hef unnið alfarið við að hekla síðan 2012, í ellefu ár. Ég byrjaði með námskeið 2009 og í framhaldinu gaf ég út þrjár heklbækur og ritstýrði fjórðu

Hver ert þú?

Ég heiti Tinna og er eini atvinnuheklari Íslands. Ég hef unnið alfarið við að hekla síðan 2012, í ellefu ár. Ég byrjaði með námskeið 2009 og í framhaldinu gaf ég út þrjár heklbækur og ritstýrði fjórðu. Svo fór ég að hanna og gefa út uppskriftir erlendis. Síðar opnaði ég youtube-stöðina sem gengur rosalega vel. Youtube-rásin heitir því ótrúlega þjála nafni Tinna Thorudóttir Thorvaldar. Ég byrjaði með hana 2018 en þegar covid byrjaði henti ég inn nokkrum myndböndum og það algjörlega sprakk allt. Ég er með 180 þúsund áskrifendur og eitt myndbandið er með 1,7 milljón áhorf. Svo er ég með stóran hóp á Facebook á síðunni Tinna's Crochet Club sem telur sjötíu þúsund meðlimi.

Fór fólk að hekla í covid?

Í covid varð rosaleg sprengja í hannyrðum. Hekl er handajóga. Þegar hendurnar eru uppteknar er hausinn ekki jafn mikið að atast í manni. Að hekla slær á kvíða og það er hægt að gera miklu verri hluti en að kenna fólki að hekla. Það er gott fyrir sálina.

Hvað er á döfinni?

Ég ætla að fara að byrja með námskeiðin aftur en ég hef ekki kennt hér heima síðan 2019. Ég viðurkenni að ég hef sinnt meira mínum erlendu kúnnum. Þegar covid skall á einbeitti ég mér að youtube-rásinni minni. Ég hef aðeins verið að kenna erlendis og var svo boðið að koma á prjónahátíð á Blönduósi í sumar og það var svo hrikalega gaman að ég ákvað að skella aftur í heklnámskeið hér heima.

Hvernig eru þessi námskeið?

Ég er aðallega að kenna mósaíkhekl sem er ein aðferð í hekli og eru námskeiðin ekki hugsuð fyrir algjöra byrjendur. Fólk þarf að kunna grunninn í hekli. Við gerum annaðhvort teppi eða buddur og svo læt ég þetta flæða.

Er alltaf jafn gaman að hekla?

Já, það er alltaf svo skemmtilegt!

Hægt er að skrá sig á námskeið hjá Tinnu á Heklnámskeið Tinnu á Facebook eða senda fyrirspurn á tinnahekl@gmail.com.