Það eina góða við allt fordómafulla fólkið sem kýs að opinbera sig á prenti, er að þrátt fyrir hversu sárt það er fyrir okkur hin að lesa, fer umræðan í gang, sem er öllum til góða.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Í sumarfríinu mínu sem ég kaus að eyða í borg margbreytileikans, New York, hef ég fylgst með öfgakenndri umræðunni hér heima um kynfræðslu í skólum og skoðunum fólks sem er í nöp við hinsegin samfélagið. Hvernig fólk fær þá flugu í höfuðið að aukin kynfræðsla og fræðsla um hinsegin fólk og trans geti skaðað börn skil ég ekki. Illa upplýst og illa innrætt fólk telur nú rétt að láta skoðanir sínar í ljós á samfélagsmiðlum, sem svo eru endurbirtar í fjölmiðlum. Ég hef oft hugsað um hvort við gefum þessu hatursfulla fólki of mikið pláss og athygli, sem ég held að þau þrái. Það er sárt fyrir alla sem láta sig almenn mannréttindi varða að fylgjast með umræðunni og það er sannarlega rétt að enn er langt í land hjá hinsegin samfélaginu sem talar um bakslag í baráttunni. En kannski er ekki bakslag; kannski er nú bara betri vettvangur fyrir fólk sem alltaf hefur haft horn í síðu hinsegin fólks að koma fram úr sínum dimmu hornum og tjá sig.

Það eina góða við allt fordómafulla fólkið sem kýs að opinbera sig á prenti, er að þrátt fyrir hversu sárt það er fyrir okkur hin að lesa, fer umræðan í gang, sem er öllum til góða. Kannski nær hún líka að lokum til fólksins sem þarf að takast á við eigin fordóma og fáfræði.

Sem blaðamaður á Sunnudagsblaðinu hef ég fengið marga frábæra einstaklinga í hinsegin samfélaginu í viðtöl; fólk sem nú stígur fram óhrætt. Sögur þeirra verða að fá að heyrast í Morgunblaðinu, sem og annars staðar. Og þó að fólk skilji ekki alltaf allt sem það les, er að minnsta kosti hægt að vekja fólk til umhugsunar og hvetja til umburðarlyndis. Það er fyrsta skrefið í átt að jafnari heimi þar sem við fáum öll að blómstra, hvernig sem við erum. Að taka þessi viðtöl hefur sannarlega opnað mín augu og vonandi einhverra lesenda í leiðinni. Málið er að við sem erum komin af léttasta skeiði erum ekki alin upp við fjölbreytileikann og þurfum tíma til að skilja og aðlagast. Það þarf að gefa fólki svigrúm til að læra ný orð og hugtök, til að mynda, en þetta kemur allt saman með góðum vilja og tímanum. Vænst hefur mér þótt um að fá viðbrögð frá fólki sem, eftir lestur viðtala við fólk úr hinsegin samfélaginu, segist allt í einu skilja allt miklu betur. Þá er tilganginum náð, ekki fyrir mig persónulega, heldur fyrir hinsegin samfélagið, því dropinn holar steininn. Það tekur þó of langan tíma og kannski er nú mál að nota hamar til verksins!