[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppeldið ræður miklu um lífið og er það sannarlega þannig þegar kemur að mínum bóklestri. Æskuheimilin voru tvö og á báðum voru bækur í hávegum hafðar, foreldrar mínir enduðu öll kvöld á að glugga í bók og amma í sveitinni átti risabókasafn

Uppeldið ræður miklu um lífið og er það sannarlega þannig þegar kemur að mínum bóklestri. Æskuheimilin voru tvö og á báðum voru bækur í hávegum hafðar, foreldrar mínir enduðu öll kvöld á að glugga í bók og amma í sveitinni átti risabókasafn. Eins og mörg ungmenni á seinni hluta síðustu aldar voru afmælis- og jólagjafir mínar oft í formi bóka sem voru hesthúsaðar hratt og örugglega. Á fullorðinsárum hefur aðeins dregið úr en ég passa mig á því að hafa alltaf bók á náttborðinu til að grípa í, enda það að láta hugann reika um ímyndunarafl annarra alveg hrikaleg skemmtilegt. Ég hef enn ekki náð listinni að hlusta á bækur, en þarf að læra það því ég öfunda eiginkonuna töluvert af því bókamagni sem hægt er að ná með þeirri aðferð.

Vinnan hefur líka áhrif á lesturinn, verkefni þar kalla á töluverðan lestur eins og nú þessa daga þegar rýnt er í atriði eins og fjárlög næsta árs eða yfirferð um lífeyriskerfið. Það er þó ekki efnið á náttborðinu og veldur minni gleði en sá lestur sem áður er nefndur! Sennilega hefur þroskaferli einstaklings líka áhrif á bókavalið því þegar ég fell virkilega fyrir bók núna er hún byggð á samskiptum fólks í samhengi við Íslandssöguna hvort sem er sú raunverulega eða með tengingum í hana.

Sveitastrákurinn og sögukennarinn gjörsamlega kolféll fyrir þríleik Jóns Kalmans sem hófst með bókinni Himnaríki og helvíti. Ég bókstaflega skammtaði mér blaðsíður í lokin þegar ég vissi að brátt yrði endir á sögunum þeim og það vill þannig til að bókin á náttborðinu núna er nýjasta bók hans Guli kafbáturinn. Gamli heimabærinn minn Siglufjörður fær veglegan sess í bókum Hallgríms um Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum. Ég treysti á fleiri bækur í þeirri seríu!

Uppáhaldsbókin síðustu misserin er þó klárlega Svar við bréfi Helgu – enda þar að finna ástarsögu úr sveit frá fyrri tíð fulla af breyskleika, mennsku og tilfinningum. Það er uppskriftin besta að góðri bók, því þannig er jú lífið sjálft og það er sú tenging við bók sem ég sæki í!