Færri landsmenn meta andlega heilsu sína góða en áður og einmanaleiki eykst. Hefur þeim sem finna oft eða mjög oft til einmanaleika fjölgað frá ári til árs. Ungu fólki líður almennt verr en eldra fólki

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Færri landsmenn meta andlega heilsu sína góða en áður og einmanaleiki eykst. Hefur þeim sem finna oft eða mjög oft til einmanaleika fjölgað frá ári til árs. Ungu fólki líður almennt verr en eldra fólki. Ungt fólk finnur oftar fyrir einmanaleika, mikilli streitu í daglegu lífi, metur andlega heilsu sína lakari, er síður hamingjusamt og upplifir minni velsæld en þeir sem eldri eru. Ungum konum virðist líða hvað verst andlega en þó hefur dregið saman með kynjunum upp á síðkastið þar sem líðan ungra karla fer versnandi.

Þetta er meðal niðurstaðna úr mælingum Gallup fyrir Embætti landlæknis á andlegri heilsu, streitu, svefni, hamingju, einmanaleika og velsæld fullorðinna landsmanna á seinasta ári. Fjallað er um niðurstöðurnar í nýútkomnum Talnabrunni landlæknis, þar sem höfundarnir bera þær saman við þróunina á umliðnum árum. Sagt er brýnt að bregðast við þróuninni í andlegri heilsu, hamingju og einmanaleika ungs fólks.

Niðurstöðurnar eru um margt sláandi. Enn á ný er staðfest að líðan fólks sem glímir við fjárhagserfiðleika er almennt lakari en þeirra sem gera það ekki. „Einmanaleiki var nær fjórfalt meiri meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman miðað við þau sem eiga auðvelt með það. Árið 2022 sögðust 26% þeirra sem áttu erfitt með að ná endum saman finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika en aðeins 7% þeirra sem áttu auðvelt með að ná endum saman,“ segir í Talnabrunni. Einnig kemur í ljós að þeir sem eiga erfitt með að ná endum saman meta andlega heilsu sína mun lakari en þeir sem eiga auðvelt með það, þeir glíma oftar við mikla streitu, sofa minna og eru síður hamingjusamir og upplifa minni velsæld.

Niðurstöðurnar eru fengnar úr könnun Gallup fyrir landlækni sem gerð var yfir allt seinasta ár og svöruðu tæplega ellefu þúsund Íslendingar, 18 ára og eldri, spurningum í könnuninni. Á seinasta ári mátu 67% fullorðinna landsmanna andlega heilsu sína góða eða mjög góða en hlutfallið hefur lækkað úr 70% á árinu á undan. Er breytingin sögð einkum stafa af lakari andlegri heilsu karla, „en í heild fækkaði körlum sem mátu andlega heilsu sína góða eða mjög góða um sex prósentustig milli ára [...].“

Einnig kemur fram að ungar konur á aldrinum 18-24 ára eru sá hópur sem metur andlega heilsu sína verst. Í fyrra mat tæplega helmingur kvenna á þessum aldri andlega heilsu sína góða eða mjög góða. „Síðastliðin ár hafa ungir karlmenn, á aldrinum 18-24 ára, metið andlega heilsu sína betri en ungar konur á sama aldri en nú hefur dregið saman með kynjunum og er munurinn nú tvö prósentustig. Miklar breytingar voru milli ára hjá ungum körlum, 51% ungra karlmanna (18-24 ára) mátu andlega heilsu sína góða árið 2022 sem er fjórtán prósentustiga lækkun frá fyrra ári þegar 65% ungra karlmanna mátu sig við góða andlega heilsu,“ segir í greininni.

Frá því að Embætti landlæknis hóf þessar mælingar á árinu 2016 hefur sá hópur sem segist finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika stækkað úr sjö prósentum í tólf prósent í fyrra og áfram virðist fjölga í hópi þeirra sem finna oft eða mjög oft fyrr einmanaleika á fyrstu mánuðum yfirstandandi árs. Tæplega fjórðungur ungra kvenna 18-24 ára finnur oft eða mjög oft fyrir einmanaleika.

Streita minnkar með aldrinum

Rúmlega 17% kvenna áttu erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman fjárhagslega í fyrra en tæplega 14% karla. Fólk á erfiðara með að ná endum saman ef börn eru á heimilinu. Í fyrra áttu 19% barnafjölskyldna erfitt með að ná endum saman samanborið við 13% fjölskyldna þar sem ekkert barn var á heimilinu. „Einstæðir foreldrar standa enn hallari fæti og eiga 30% þeirra erfitt með að ná endum saman,“ segir í Talnabrunni. Streita fer minnkandi með aldrinum og mikill munur er á milli kynjanna. 30% kvenna segjast finna oft eða mjög oft fyrir streitu í daglegu lífi samanborið við 22% karla. 40% ungs fólks 18 til 24 ára finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu en aðeins sjö prósent 65 ára og eldri.

Dregið hefur úr hamingju fólks. 35% þeirra sem áttu erfitt með að ná endum saman segjast mjög hamingjusöm samanborið við 63% þeirra sem áttu auðvelt með að ná endum saman.