Ferðamennskan tekur á sig nýjar og spennandi myndir. Þessir norsku froskmenn spígsporuðu með skutulbyssur í Langadalsá í leit að eldislaxi frá Noregi, sem sloppið hefur í íslenskar ár og gæti úrkynjað íslenska landnámslaxinn.
Ferðamennskan tekur á sig nýjar og spennandi myndir. Þessir norsku froskmenn spígsporuðu með skutulbyssur í Langadalsá í leit að eldislaxi frá Noregi, sem sloppið hefur í íslenskar ár og gæti úrkynjað íslenska landnámslaxinn. — Ljósmynd/Sigurður Þorvaldsson
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lét laga eigin innviði, en hann beið þjáður eftir mjaðmaaðgerð í tvö ár og fór í stutt sjúkraleyfi að aðgerð á Klíníkinni lokinni, sem hann varði að nokkru til þess að þjást yfir þingstörfum í sjónvarpi

16.9.-22.9.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lét laga eigin innviði, en hann beið þjáður eftir mjaðmaaðgerð í tvö ár og fór í stutt sjúkraleyfi að aðgerð á Klíníkinni lokinni, sem hann varði að nokkru til þess að þjást yfir þingstörfum í sjónvarpi.

Þrátt fyrir fjarvistina vantaði ekki mál frá innviðaráðherra á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en þar á meðal má nefna ýmsar tímabundnar undanþágur til þess að geta nýtt atvinnuhúsnæði undir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem mikið hefur fjölgað, og var húsnæði þó af skornum skammti fyrir.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) telur stjórnvöld hækka bifreiðagjald um of en það á að hækka um 3,5% og lágmarksgjaldið hækkar um nánast þriðjung.

Samkvæmt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, eru útgjöld til matvörukaupa heimila í lægra lagi á Íslandi. Af því tilefni fékk blaðamaður sér sviðakjamma með kokteilsósu.

Níu umhverfissinnar komu á Austurvöll til þess að mótmæla hvalveiðum, jarðefnaeldsneyti og fleiru en a.m.k. einn þeirra skrópaði í skóla til þess, að fordæmi Gretu Thunberg.

Búið er að selja 90% íslenskra loðskinna í ár, sem þó eru ekki sérlega góðar fréttir í ljósi þess að söluverðið var undir kostnaðarverði.

Ráðstefna var haldin um læknamistök og öryggi í heilbrigðiskerfinu en hreinskilin umræða um þau efni hefur vaxið síðustu misseri.

Jón Gunnar Ottósson, fv. forstjóri Náttúrufræðistofnunar, lést 72 ára.

Íslenskir bankar greiða 16,5 milljarða króna í sérskatta ofan á aðra skatta sem þeir greiða líkt og önnur fyrirtæki landsins. Þar á ofan greiða fjármálafyrirtækin 19 milljarða kr. fyrir rekstur fjármálaeftirlits og umboðsmanns skuldara, en að lokum bera viðskiptavinirnir auðvitað kostnaðinn.

Lyfjastofnun segir undanþágulyf vaxandi vandamál í landinu en þar ræðir um lyf, sem ekki hafa fengið markaðsleyfi hér á landi en þarf svo að grípa til af ýmsum ástæðum. Lyfjaframleiðendur setja oft fyrir sig kostnað við markaðssetningu á þessum örmarkaði.

Jakob Falur Garðarsson framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda, deilir þeim áhyggjum og tekur undir með Lyfjastofnun að verðlagsákvarðanir stjórnvalda séu hindrun.

Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, hefur áhyggjur af mikilli fjölgun barna á biðlista Geðheilsumiðstöðvarinnar, þó að gott sé að grynnkað hafi á biðlistum Barna- og unglingageðdeildar (BUGL).

Innan kirkjunnar hafa margir áhyggjur af fyrirhugaðri lækkun á sóknargjöldum, einkum á landsbyggðinni.

Ungur Íslendingur hvarf á ferðalagi í Dóminíska lýðveldinu í Karíbahafi og eftirgrennslan hefur ekki borið árangur.

Ríkislögreglustjóri kannar samstarf við Íslenska erfðagreiningu um greiningu lífsýna eftir harðorða tillögu Kára Stefánssonar forstjóra hennar í þá veru. Fyrirtækið hefur ekki tilskilda vottun til slíks.

Alma Möller landlæknir segir mikilvægt að heilbrigðiskerfið læri af mistökum sem þar eigi sér óhjákvæmilega stað. Allt að 10% sjúklinga verða fyrir einhvers konar atviki í innlögn.

Gul viðvörun var gefin út á Austurlandi vegna úrkomu og mögulegra skriðufalla.

Rafbílar rjúka út hjá umboðunum og öðrum bílasölum, enda stefnir í að þeir hækki verulega í verði um áramót þegar skattaívilnanir vegna þeirra renna út. Bílgreinasambandið gagnrýndi stjórnvöld fyrir hringlandastefnu um orkuskipti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kynnti áform um breytta fjármögnun háskóla, þar sem ýta á undir að fólk ljúki áföngum og brautskráist.

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, gagnrýndi Matvælastofnun harðlega fyrir að hafa dregið upp villandi mynd af atviki við hvalveiðar í fyrri viku.

Ríkisendurskoðandi segir vísbendingar um aukið álag, einelti og ofbeldi innan Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þess var getið í framhjáhlaupi að reksturinn væri í molum.

Rússar yfirgáfu Barentsráðið með faxi. Þátttaka þeirra hefur legið niðri frá innrásinni í Úkraínu.

Breiðafjarðarferja kom til landsins og heitir Röst, en siglir að öðru leyti í kjölfar Baldurs.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði að verktakasamningur matvælaráðherra við Samkeppniseftirlitið (SKE) væri ólöglegur og að það hefði beitt valdheimildum sínum með ólögmætum hætti til þess að afla upplýsinga í skýrslu fyrir ráðherrann. SKE ætlar að una úrskurðinum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst leggja mikla áherslu á að stytta málsmeðferðartíma hælisleitenda til muna. Sömuleiðis vill hún koma öllum séríslenskum reglum um það fyrir kattarnef og hafa sama lag og nágrannaþjóðir.

Norskt skemmtiferðaskip við Faxagarð var tengt raftaug og þarf því ekki að keyra ljósavélarnar bundið við bryggju líkt og tíðkast hefur til þessa.

Grannríki Íslands eru meðvituð um að íslenskur útvarpsmaður og meindýraeyðir þóttust sinna kosningaeftirliti með ólöglegum kosningum á hernámssvæðum Rússa í Úkraínu. Íslendingarnir kunna að sæta refsiaðgerðum eða ferðabanni fyrir vikið.

Sorpa lét hjá líða að tilkynna stefnubreytingu í sorpflokkun og -söfnun, svo að Te & kaffi situr uppi með tilgangslausa breytingu á kaffiumbúðum og þrefaldan kostnað.

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og borgarfulltrúi Pírata, sinnir málefnum hælisleitenda í ráðhúsinu en er einnig í launaðri hagsmunagæslu fyrir hælisleitendur utan ráðhússins. Engra hagsmuna hefur verið getið í hagsmunaskrá hans frá 2022.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að bíða þurfi með um 100 milljarða króna framkvæmdir skv. samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en kostnaðarmat framkvæmda hafi meira en tvöfaldast og nemi nú um 300 mö.kr. Hann segir almenningssamgöngubætur mikilvægar en að stofnvegaframkvæmdir geti ekki setið á hakanum á meðan.

Banamaður Guðmundar Kamban rithöfundar var loks nafngreindur opinberlega í frétt í Morgunblaðinu. Egon Alfred Højland, foringi í andspyrnuhreyfingunni, skaut Kamban til bana 5. maí 1945, en hann sat síðar á þingi fyrir klofningsframboð úr Jafnaðarmannaflokknum.

Kvikusöfnun er undir Reykjanesskaga og enn eitt eldgosið líklegt.

Bóndi kærði fréttamenn Kveiks til lögreglu fyrir friðhelgisbrot en þeir flugu myndavélardróna að dyraopi og yfir hrossastóð, svo styggð komst að því.

Til stendur að selja lyf í stað hamborgara í gamalli bensínstöð við Miklubraut.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson strandaði í Tálknafirði.

Sjávarútvegsfyrirtækið G.Run. krafðist þess að Samkeppniseftirlitið skilaði öllum gögnum frá fyrirtækinu og eyddi þeim rafrænt úr kerfum sínum.

Flest sveitarfélög eru rekin með halla og það meiri halla en ráðgert hafði verið. Brá þó svo við að Reykjanesbær var rekinn með afgangi.

Einn maður var ákærður í Ólafsfjarðarmálinu svonefnda en þar var maður drepinn í október í fyrra.