„Ég held að varnarleikurinn hafi verið það sem gerði gæfumuninn. Við erum með mikið af sterkum varnarmönnum, og auðvitað leikmönnum úti um allan völl

„Ég held að varnarleikurinn hafi verið það sem gerði gæfumuninn. Við erum með mikið af sterkum varnarmönnum, og auðvitað leikmönnum úti um allan völl. Vörn er eitthvað sem Ísland hefur alltaf staðið fyrir og okkur líður alltaf vel í vörn. Það er mikilvægt að við séum samtaka í varnarleiknum. Ef framherjarnir vinna vel þá gerir það vinnuna fyrir okkur auðvelda,“ sagði Guðrún Arnardóttir, varnarmaður í íslenska liðinu, í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Ingibjörg Sigurðardóttir, sem lék með henni í vörninni, tók í sama streng. „Það var mikil varnarvinna bak við þennan sigur, þannig að ég er mjög ánægð. Mikilvægt að fá sigur í fyrsta leik og halda núllinu. Þetta gefur okkur mikið sjálfstraust,“ sagði Ingibjörg.

„Við erum búin að bíða lengi eftir því að fá alvöru keppnisleik og hvað þá þrjú stig á heimavelli fyrir framan okkar bestu áhorfendur. Þetta er ólýsanleg tilfinning,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Hlín Eiríksdóttir var kampakát með sigurinn. „Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur. Ótrúlega sterkt og jákvætt að byrja á sigri á heimavelli,“ sagði hún. Hún er spennt fyrir leiknum erfiða gegn Þýskalandi á þriðjudag. „Það er mjög spennandi. Risaleikur gegn einu besta liði í heimi,“ sagði Hlín.

Ítarlegri viðtöl við leikmennina fjóra og fleiri leikmenn íslenska liðsins er að finna á mbl.is/sport.