Robert Menendez
Robert Menendez
Robert Menendez, öldungadeildarþingmaður demókrata í New Jersey-ríki, var í gær ákærður ásamt Nadine eiginkonu sinni fyrir að hafa þegið mútur. Þetta er í annað sinn á síðasta áratug sem Menendez er ákærður fyrir spillingu, en fyrra málinu gegn…

Robert Menendez, öldungadeildarþingmaður demókrata í New Jersey-ríki, var í gær ákærður ásamt Nadine eiginkonu sinni fyrir að hafa þegið mútur. Þetta er í annað sinn á síðasta áratug sem Menendez er ákærður fyrir spillingu, en fyrra málinu gegn honum lauk árið 2018 með því að kviðdómur gat ekki komið sér saman um hvort hann væri sekur eða saklaus.

Menendez er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar, en málið snýst um að hann hafi þegið mútur frá þremur viðskiptajöfrum í New Jersey-ríki í skiptum fyrir greiða. Er einn þeirra, Wael Hana, af egypskum uppruna, og er Menendez m.a. sakaður um að hafa ljóstrað upp um viðkvæm leyndarmál Bandaríkjastjórnar og tekið „önnur skref sem veittu ríkisstjórn Egyptalands aðstoð“ til þess að aðstoða Hana í viðskiptum sínum.

Damian Williams, alríkissaksóknari í New York-ríki, sagði á blaðamannafundi að útsendarar alríkislögreglunnar hefðu gert húsleit á heimili Menendez-hjónanna, og fundið þar um 500.000 bandaríkjadali í umslögum sem voru í jakkafatavösum, sem og gullstangir sem vógu samtals þrjú kílógrömm.

Menendez neitaði allri sök í gær, en háværar raddir hafa kallað eftir afsögn hans af þingi. Ekki er talið að málið hafi áhrif á meirihluta demókrata í öldungadeildinni, þar sem ríkisstjóri New Jersey er demókrati, og myndi því ávallt skipa annan demókrata í stað Menendez.