„Kannski er ég eins og Pétur Pan. Ég er alltaf í barnslegum leikjum,“ segir listamaðurinn Snorri Ásmundsson.
„Kannski er ég eins og Pétur Pan. Ég er alltaf í barnslegum leikjum,“ segir listamaðurinn Snorri Ásmundsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stundum er sagt að stærsta fangelsi í heimi sé óttinn við álit annarra. Mér hefur alltaf staðið á sama um álit annarra. Það hefur veitt mér frelsi.

Boðflenna er yfirskrift yfirlitssýningar á verkum Snorra Ásmundssonar í Listasafni Reykjanesbæjar. „Þarna eru 700 fermetrar af Snorra Ásmundssyni og sýningarstjórinn Helga Þórsdóttir valdi það helsta sem ég hef gert á árunum 1997 til 2023,“ segir Snorri, sem verður með listamannsspjall í safninu laugardaginn 30. september klukkan 14.

Segja má að í verkum sínum hafi Snorri gert sjálfan sig að viðfangsefni. „Það er talað um mig sem fjölmiðlalistamann. Ég er útgangspunkturinn í verkunum og þar er mitt sjónarhorn ráðandi. Stundum er ég með ádeilu og stundum er ég að leika mér.“

Snorri hefur vakið athygli fyrir alls kyns uppátæki. Hann hefur farið í forsetaframboð, boðið sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins og tók eitt sinn óumbeðinn að sér hlutverk Fjallkonunnar. Hann gerði sjálfan sig að heiðursborgara í borgum og bæjum og seldi syndaaflausnir og er þá fátt eitt nefnt af umdeildum gjörningum hans.

Hver var hugsunin á bak við þetta? Varstu að vekja fólk til umhugsunar, skemmta þér, skemmta öðrum eða ögra?

„Ég held að það sé allt af þessu. Ég er krónískur óþekktarangi og hef verið það frá barnæsku. Ég hef alltaf haft þörf fyrir að pota í fólk, það stendur í stjórnukorti mínu að það sé mitt fag og ég er góður í því.

Ég er umdeildur listamaður, á aðdáendur en fólk lætur mig líka fara í taugarnar á sér. Ég þurfti snemma að hætta að taka hluti persónulega. Ég varð fyrst var við skítkast þegar ég stofnaði stjórnmálaflokkinn Vinstri hægri snú, sagðist hafa klofið Sjálfstæðisflokkinn og fór í borgarstjórnarframboð árið 2002. Fyrst varð ég hissa á hörkunni sem ég mætti en lærði fljótt að fólkið sem er dómharðast er fólk sem er hrætt eða líður ekki nógu vel. Þannig að ég hætti að taka árásir persónulega. Ég get heldur ekki krafist þess að fólk þoli mig.“

Myndirðu staðsetja þig á vinstri væng stjórnmálanna?

„Það er mikið af sjálfstæðismönnum í minni fjölskyldu. Afi minn var á stofnfundi Heimdallar. Ég er anarkisti og kannski er þunn lína á milli þess að vera anarkisti og vera hægrisinnaður. Sumpart er ég líka sósíalisti. Fyrst og fremst er ég húmanisti. Ég er mjög andlegur og mörg minna verka eru andleg.

Kannski er ég eins og Pétur Pan. Ég er alltaf í barnslegum leikjum. Ég hef aldrei upplifað mig reiðan og pólitískan. Ég spyr spurninga.“

Alltaf verið á skjön

Hafa aðrir listamenn orðið þér innblástur?

„Mér hefur verið líkt við þýska listamanninn Joseph Beuys, sem ég þekkti lítið til. Það eru alls konar listamenn sem ég tengi við. Andy Warhol og fleiri. Ég held að ég fái mestan innblástur frá fólkinu í mínu lífi. Oft er það fólk sem er nokkuð á skjön við aðra. Sjálfur hef ég alltaf verið á skjön og ég tengi við þannig fólk.“

Hefur listaheimurinn tekið þér vel?

„Í byrjun varð ég var við viðhorfið: Hvað er þessi maður að vilja upp á dekk? Ég er sjálfmenntaðir listamaður og hafnaði námi. Eins og Birgir heitinn Andrésson sagði eitt sinn við mig: Þú ert algjörlega út úr kú, það er þinn helsti kostur. Ég er ekki af neinni kynslóð listamanna, það er ekki hægt að flokka mig með neinum.

Ég hef alltaf verið virkur í myndlistarheiminum, ég stofnaði mitt eigið gallerí og var einn af stofnendum Kling&Bang.

Sýning mín heitir Boðflenna, sem er réttnefni því ég er alltaf að bjóða sjálfan mig velkominn, hvort sem það er í pólitík eða öðru. Ég hef skynjað að ég er ekki alltaf velkominn á þá staði sem ég fer inn á, eins og þegar ég mætti í kirkjuna í Hrísey, íklæddur messuskrúða. Menn vilja heldur ekkert endilega að ég sé í framboði og telja að ég sé að gera lítið úr stjórnmálunum. Þetta hefur aldrei truflað mig. Stundum fæ ég kraft úr mótlætinu. Ég er ekki að þóknast fólki eða ganga í augun á því.“

Tómt vesen

Blaðamaður forvitnast nánar um forsetaframboðið sem Snorri fór í árið 2004 en hætti síðan við. „Ég á fortíð,“ segir Snorri. „Í stað þess að mennta mig sóaði ég þeim árum í neyslu á áfengi og eiturlyfjum. Ég var kominn í tómt vesen.

Ég tilkynnti forsetaframboð árið 2003 í Kastljósþætti ári fyrir kosningar. Þar klæddist ég bláum jakkafötum og var með rautt bindi, þetta var einkennisbúningur minn í framboðinu. Það hitnaði undir mér þegar DV birti frétt undir fyrirsögninni: Dæmdur dópsali í framboð til forseta. Ég var orðinn leiður og þreyttur og dóttir mín fimm ára sagði: Pabbi, ekki vera forseti, vertu bara listamaður. Það hringdi bjöllum. Ég sagði mig frá forsetaframboðinu.“

Sérðu eftir að hafa farið í forsetaframboð?

„Ég held að ég gæti orðið ágætur forseti. Ég var ungur þá, kannski kemst ég í stuð aftur á öðrum forsendum.“

Eins og í Gremlins

Hvernig voru árin sem þú sóaðir í drykkju og dóp?

„Ég var ofvirkt barn og þegar ég fór að nota áfengi upplifði ég andlega vakningu. Þarna var vinur minn áfengið og svo komu eiturlyfin. Ég var á vertíðum og fór í nokkrar meðferðir og átti misgóðar tilraunir til að verða edrú. Nú er ég búinn að vera edrú í tuttugu og tvö ár.

Ég var eins og í myndinni Gremlins. Þegar þeir fengu vatn yfir sig breyttust þeir í óargadýr. Þannig fór áfengi í mig. Ég varð trylltur. Það var mjög góð hugmynd, bæði fyrir umhverfið og mig, að ég myndi hætta að drekka

Ég var í tómu rugli í nokkur ár, ekki búinn að klára nám, búinn að vera á fylliríi með alverstu fyllibyttum og dópistum landsins. Líf mitt í dag er ævintýri líkast. Ég var bláedrú þegar ég gerði öll verkin sem eru á sýningunni. Ég segi stundum að ég geri ýmislegt sem ekki einu sinni drukkið fólk gerir. Fólk er svo oft heft og leyfir sér ekki að gera hlutina heldur dansar í kringum álit annarra. Stundum er sagt að stærsta fangelsi í heimi sé óttinn við álit annarra. Mér hefur alltaf staðið á sama um álit annarra. Það hefur veitt mér frelsi. Ég upplifi mig sem frjálsan listamann. Þorvaldur heitinn Þorsteinsson sagði: Ég öfunda þig vegna þess að ég þarf alltaf að vera formaður nemendafélagsins en þú getur gert allt.

Ég kom ekki með ferilskrá inn í myndlistarheiminn. Ég er sá sem ég er vegna þess að ég fór þessa leið. Þótt ég væri ekki menntaður var ég strax kominn í samtal við þekktustu listamenn þjóðarinnar. Ég áttaði mig á því mjög snemma að það sem ég var búinn að gera jafnaðist á við meistaragráðu. Prófgráður eða aðrar skrautfjaðrir skipta mig engu máli. Ég er alltaf velkominn af því ég býð mig velkominn.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir