Sigur gegn Wales í fyrsta leiknum í hinni nýju Þjóðadeild á Laugardalsvellinum í gærkvöld var það sem íslenska liðið þurfti nauðsynlega á að halda. Í sterkum riðli A-deildar er fyrsta verkefnið að lenda ekki í neðsta sætinu og falla þannig beint…

Sigur gegn Wales í fyrsta leiknum í hinni nýju Þjóðadeild á Laugardalsvellinum í gærkvöld var það sem íslenska liðið þurfti nauðsynlega á að halda.

Í sterkum riðli A-deildar er fyrsta verkefnið að lenda ekki í neðsta sætinu og falla þannig beint niður í B-deildina, og þar munu leikirnir gegn Wales hafa úrslitaþýðingu.

Danmörk vann nokkuð óvæntan sigur á Þýskalandi, 2:0, í hinum leiknum í fyrstu umferð riðilsins í gær og það eru kannski ekkert sérstakar fréttir fyrir íslenska liðið.

Annars vegar gæti Ísland verið í baráttu við Danmörku um annað sæti riðilsins, og hins vegar er ljóst að þýska liðið kemur „bandbrjálað“ til leiks gegn Íslandi í Bochum á þriðjudaginn eftir þennan óvænta ósigur í gær.

Þjóðadeildin tengist beint við næstu undankeppni EM þannig að hver einasti leikur hefur gríðarlega mikla þýðingu, í raun mun meiri en Þjóðadeildin hefur í karlaflokki samkvæmt nýju keppnisfyrirkomulagi.

Ísland þarf að ná öðru sæti riðilsins til að tryggja sér áframhaldandi sæti í A-deild. Liðið sem endar í þriðja sæti fer í umspil við lið úr öðru sæti í B-deild en neðsta liðið fellur. Þar sem leikirnir eru aðeins sex, og allir spilaðir í haust og fram í byrjun desember, getur hvert einasta stig og hvert einasta mark haft úrslitaáhrif.

Íslenska liðið fer til Þýskalands í dag og mætir Þjóðverjum í Bochum á þriðjudaginn.