Átök Jóhann Reynir Gunnlaugsson úr Víkingi lætur FH-inginn Jóhannes Berg Haraldsson finna fyrir því í leik liðanna í Kaplakrika í gærkvöldi.
Átök Jóhann Reynir Gunnlaugsson úr Víkingi lætur FH-inginn Jóhannes Berg Haraldsson finna fyrir því í leik liðanna í Kaplakrika í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar ÍBV svöruðu tapinu óvænta gegn nýliðum Víkings í úrvalsdeild karla í handbolta með sterkum 30:26-heimasigri á Haukum í þriðju umferðinni í gærkvöldi. Liðin mættust einmitt í úrslitaeinvíginu á síðustu leiktíð og vann ÍBV þá í oddaleik, eftir magnað einvígi

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslandsmeistarar ÍBV svöruðu tapinu óvænta gegn nýliðum Víkings í úrvalsdeild karla í handbolta með sterkum 30:26-heimasigri á Haukum í þriðju umferðinni í gærkvöldi. Liðin mættust einmitt í úrslitaeinvíginu á síðustu leiktíð og vann ÍBV þá í oddaleik, eftir magnað einvígi.

Staðan var jöfn, 15:15, eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik en Eyjamenn voru sterkari í seinni hálfleik. Elmar Erlingsson átti stóran þátt í sigri ÍBV og skoraði 12 mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Virðist það ekki hafa slæm áhrif á leikstjórnandann að faðir hans, Erlingur Richardsson, sé ekki lengur þjálfari liðsins. Þá hefur Portúgalinn Daniel Vieira komið sterkur inn í lið ÍBV.

Guðmundur Bragi Ástþórsson var langbesti leikmaður Hauka en hann fékk ekki nægilega mikinn stuðning frá liðsfélögum sínum. Eyjamenn geta verið sáttir við svarið í gær, eftir tapið vonda á móti Víkingi, en tvö stig eftir þrjá leiki eru vonbrigði fyrir Hauka.

Valur með fullt hús

Valur er enn eina liðið með fullt hús stiga en Hlíðarendaliðið gerði góða ferð á Selfoss og vann þægilegan 32:19-sigur á Selfyssingum. Valur komst í 10:3 snemma leiks og átti í litlum vandræðum með ungt og reynslulítið lið Selfyssinga eftir það.

Selfoss er án stiga eftir þrjú stór töp og er fátt sem bendir til þess að Selfyssingar safni mörgum stigum á komandi vikum. Stór hluti hópsins hjá Selfyssingum í gær lék með ungmennaliði félagsins í 1. deildinni á síðustu leiktíð og virðist skrefið upp í efstu deild vera of stórt.

Þá er félagið ekki að framleiða sömu stjörnur og áður en í Íslandsmeistaraliði Selfoss árið 2019 voru uppaldir leikmenn á borð við Elvar Örn Jónsson og Hauk Þrastarson í aðalhlutverki. Uppöldu leikmenn liðsins í dag eru ekki í sama gæðaflokki.

Mikið breytt lið Valsmanna hefur farið virkilega vel af stað og er gaman að sjá Úlfar Páll Monsa Þórðarson fá stórt hlutverk með uppeldisfélaginu. Þá voru silfurdrengirnir Alexander Petersson og Björgvin Páll Gústavsson í miklu stuði, þrátt fyrir hækkandi aldur.

Feðgar mættust

Nýliðar Víkings náðu ekki að fylgja eftir sigrinum glæsilega á ÍBV, því liðið fékk skell á útivelli gegn FH, 21:30. FH gat leyft sér að hvíla stjörnumanninn Aron Pálmarsson, eftir tvo Evrópuleiki í Grikklandi. Þrátt fyrir það hafði FH tögl og hagldir allan tímann og var sigurinn aldrei í hættu.

Feðgar áttust við í leiknum því Jóhannes Berg Andrason er í stóru hlutverki hjá FH og faðir hans Andri Berg Haraldsson stóð vörnina hjá Víkingi. Einar Örn Sindrason skoraði sex mörk fyrir FH og Jóhann Reynir Gunnlaugsson fimm fyrir Víking.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson