Fernandez safnar íslenskum landslagsmálverkum en þau verða á sýningu í Flórída.
Fernandez safnar íslenskum landslagsmálverkum en þau verða á sýningu í Flórída. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um tuttugu manna hópur bandarískra listunnenda var staddur hér á landi fyrir skömmu á vegum Gadsden Art-safnsins í Quincy í Flórída. Hópurinn ferðaðist um landið, skoðaði myndlistarsöfn og nokkrir mættu á myndlistaruppboð hjá Gallerí Fold

Um tuttugu manna hópur bandarískra listunnenda var staddur hér á landi fyrir skömmu á vegum Gadsden Art-safnsins í Quincy í Flórída. Hópurinn ferðaðist um landið, skoðaði myndlistarsöfn og nokkrir mættu á myndlistaruppboð hjá Gallerí Fold. Í forsvari fyrir hópnum var bandaríski lögfræðingurinn Segundo J. Fernandez sem um áraraðir hefur safnað íslenskri myndlist.

Í byrjun október verður opnuð í Gadsden Art-safninu sýning á Íslandsverkum Fernandez undir yfirskriftinni Twentieth Century Painting in Iceland.

Segundo J. Fernandez hefur komið hingað til lands sex sinnum á átta árum og á um fimmtíu íslensk málverk. Hann segir áhuga sinn á myndlist hafa vaknað snemma. „Þegar ég var sex ára gamall fóru foreldrar mínir með mig á Metropolitan-safnið í New York og eftir tvo tíma vildu þau fara en ég vildi vera áfram. Þarna vaknaði áhuginn sem hefur haldist upp frá því.

Í háskóla lærði ég líffræði og efnafræði og tók gráðu í listasögu þar sem aðaláherslan var á ensk landslagsmálverk. Mig langaði alltaf til að verða lögfræðingur og hef alltaf haft áhuga á náttúruvernd og sérsvið mitt er umhverfislögfræði.

Fyrir átta árum komum við hjónin til Íslands og urðum samstundis ástfangin af landinu og fólkinu. Ég heimsótti Gallerí Fold og hef safnað íslenskri list og notið leiðsagnar starfsfólks gallerísins frá árinu 2015.“

Sjónræn áhrif

Flest íslensku verkanna sem Fernandez á eru landslagsmálverk. „Áhugi minn á umhverfinu endurspeglast í áhuga mínum á landslagsmálverkum,“ segir hann.

Spurður hvað ráði því hvaða verk hann kaupi segir hann: „Það verður að vera ást við fyrstu sýn. Ég get gengið inn í gallerí og séð 150 verk og sum þeirra tala samstundis til mín. Fyrstu hughrifin snúast ekki um verð eða listamanninn sjálfan heldur sjónræn áhrif.

Ég á nokkur verk eftir núlifandi íslenska listamenn en flest eru eftir klassíska íslenska málara, sem fæddust seint á 19. öld og áttu sinn blómatíma á 20. öld.“

Fann Jóhann Eyfells

Af íslenskum málurum heldur hann mest upp á Svein Þórarinsson. „Ég er mjög hrifinn af verkum hans og á sjö málverk eftir hann og eitt verk eftir eiginkonu hans, Karen Agnete. Ég á nokkur Kjarvalsmálverk og nokkur eftir Eyjólf Eyfells.

Þegar ég finn málverk sem ég hrífst af þá leggst ég í rannsóknir. Mig langar til að fræðast um líf og feril listamannsins. Eitt af fyrstu íslensku verkunum sem ég keypti var eftir Eyjólf Eyfells. Þá uppgötvaði ég son hans, Jóhann Eyfells, sem lést árið 2019. Ég komst að því að Jóhann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, varð prófessor við Flórídaháskóla í Orlando en flutti síðan til Texas og bjó þar á búgarði.

Árið 2017 fór ég ásamt tveimur ungum sonum mínum til Texas að leita að Jóhanni Eyfells. Við fundum hann og eyddum nokkrum klukkustundum með honum á búgarði hans þar sem hann sýndi okkur höggmyndir sínar. Kona hans, Kristín Halldórsdóttir, hafði látist nokkrum árum áður. Hann dýrkaði hana og sýndi okkur verk hennar og gaf mér sýningarskrár með verkum hennar.

Hann var mjög sérvitur. Ég bað hann um að selja mér eitthvert verk, hvaða verk sem væri. Hann sagði þvert nei.

Ég á tvö verk eftir Eyjólf, föður hans, og skólateikningu eftir Jóhann. Mig langar mjög til að eiga höggmynd eftir hann, hún mætti alveg vera lítil.“

Nýjasta verkið sem bættist í safn Fernandez er lítil landslagsvatnslitamynd eftir Kristínu Jónsdóttur, keypt á uppboði í Gallerí Fold.

Ísland er toppurinn

Hann safnar ekki einungis íslenskum landslagsverkum heldur einnig enskum landslagsverkum og kúbverskri list, en þangað á hann ættir að rekja.

„Eyjarskeggjar skapa list sem endurspeglar land þeirra. Ég held að landslagið hafi mótað Íslendinga og íslensk list hafi mótast af listamönnum sem voru mótaðir af landslaginu. Ísland er fullt af töfrum. Maður ekur um landið og sér fjöllin, hraunið og jöklana. Maður horfir á landslag sem tekur stöðugum breytingum, vegna þess að skýin hafi færst eða vindáttin breyst.

Ég hef ferðast um allan heiminn, Norður-Afríku, Asíu, Rómönsku Ameríku. Ekkert land býr að jafn stórkostlegu landslagi og Ísland. Mér fannst landslagið á Írlandi stórkostlegt en Ísland toppar það. Fjölskylda mín elskar Ísland. Við munum halda áfram að koma hingað og halda áfram að safna íslenskri myndlist. Og Íslendingar eru dásamlegt fólk. Ég hef aldrei hitt óvingjarnlegan Íslending.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir