Ferðalög Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar.
Ferðalög Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar, segist í samtali við Morgunblaðið ítrekað hafa bent á að það skjóti mjög skökku við, og sé ekki skynsamlegt, að ríkið reki ferðaskrifstofu, eins og hún orðar það

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar, segist í samtali við Morgunblaðið ítrekað hafa bent á að það skjóti mjög skökku við, og sé ekki skynsamlegt, að ríkið reki ferðaskrifstofu, eins og hún orðar það.

Þar á hún við að fjöldi ráðuneyta og stofnana hafi verið með sérstakan starfsmann sem sér um að bóka ferðalög starfsmanna. Hún segir það ekki þekkjast erlendis að ríkið reki ferðadeildir. Þar sjái ferðaskrifstofur með tilskilin leyfi og tryggingar um þjónustuna.

Hún bætir við að í ljósi orða fjármálaráðherra um sparnað í ríkisrekstri á næsta ári sé nú lag fyrir ríkið að bæta úr. Ferðaskrifstofur með ferðaskrifstofuleyfi hafi samninga við flest flugfélög um heim allan og séu með bestu yfirsýnina um hagstæðasta verð á hverjum tíma.

Þá segir hún að Reykjavíkurborg sé einnig með marga ferðafulltrúa í fullu starfi.

„Með því að gera þetta sjálfir hver í sínu horni fara opinberir aðilar á mis við bestu kjör sem í boði eru hverju sinni. Þessi vinna verður einsleit þar sem engin þekking eða reynsla er til staðar hjá þessum aðilum,“ segir Þórunn.

Sannaði sig í faraldrinum

Hún segir það hafa sannað sig í faraldrinum að Úrval Útsýn hafi fengið endurgreiðslur fyrir þá sem nýta sér þjónustu ferðaskrifstofunnar. Hún segir málið snúast um betri notkun á opinberu fé.

„Þarna getum við hjálpað til við verulega hagræðingu,“ segir hún.

Þá bendir Þórunn á óeðlilega punktasöfnun opinberra starfsmanna hjá Icelandair.

„Það væri einfalt fyrir þessa aðila að óska eftir fargjöldum sem ekki safna punktum. Það er krafa að starfsmenn njóti ekki velvildar við að versla við eitt félag á markaðnum sem veitir þeim punkta eða bónus fyrir að ferðast með þeim.“

Hún segir fyrirtæki eins og Úrval Útsýn bjóða upp á yfirsýn sem opinberir aðilar hafi ekki.

„Við erum með kerfi sem getur haldið vel utan um ferðir og allt þeim tengt. Við getum skilað ítarlegum skýrslum, haldið utan um kolefnisbókhald og fleira,“ segir Þórunn.

Hún segir að það að láta starfsmenn sjálfa sjá um ferðabókanir geti valdið þeim áhyggjum og streitu. Ennfremur bendir hún á að margir kóngar og drottningar, eins og hún orðar það, séu í vinnu hjá ríkinu og vilji stjórna þessum málum og reka ferðaskrifstofu á vegum hins opinbera. Það sé vandamál.

„Ég hélt að þetta hefði liðið undir lok þegar Ferðaskrifstofa Íslands lagði upp laupana.“

Hún segir það auka gagnsæi og sparnað að fela fagaðilum ferðapantanirnar.

Höf.: Þóroddur Bjarnason