Tommy Lee í essinu sínu á málmhátíðinni Copenhell í Danmörku í sumar.
Tommy Lee í essinu sínu á málmhátíðinni Copenhell í Danmörku í sumar. — AFP/Helle Arensbak
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Félaginn var í sjöunda himni enda nýkominn heim af stórri málmhátíð í Evrópu þar sem hann hafði barið augum ekki ómerkari bönd en Pantera, Slipknot, Meshuggah, Gojira og Aborted, með okkar mann Daníel Mána Konráðsson innanborðs

Félaginn var í sjöunda himni enda nýkominn heim af stórri málmhátíð í Evrópu þar sem hann hafði barið augum ekki ómerkari bönd en Pantera, Slipknot, Meshuggah, Gojira og Aborted, með okkar mann Daníel Mána Konráðsson innanborðs. Meira að segja Guns N' Roses voru í þokkalegu lagi. Eitt númer þótti honum þó stinga í stúf í veislunni. „Svo var Mötley Crüe þarna, algjör tímaskekkja,“ sagði hann mæðulega. „Ég meina, við erum að tala um gaurinn með typpið!“

Hér hitti félaginn naglann á höfuðið, leitun er líklega að taktlausara bandi en Mötley Crüe þegar kemur að samfélagslegri rétthugsun. Gaurinn með typpið er auðvitað trymbillinn Tommy Lee sem líklega býr að næstfrægasta typpi mannkynssögunnar – á eftir Davíð Michelangelos. Ekkert jafnast á við typpi í fullri endurreisn! Svo frægt er typpið á Tommy Lee að sérstakan leikara þurfti til að leika það í sjónvarpsþáttunum Pam & Tommy sem sýndir voru á liðnu ári. Jason Mantzoukas heitir sá ágæti maður. Sebastian Stan lék restina af Tommy. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá hverfðust þættirnir um samband Tommys Lees og leikkonunnar og fyrirsætunnar Pamelu Anderson og iðnaðarmanninn sem stal af þeim kynlífsmyndbandi sem þau skötuhjú höfðu gert sér til dægrastyttingar og heimabrúks. Það lak vitaskuld út og skyndilega var typpið á Tommy á allra vörum, ef svo má að orði komast!

Mötley Crüe heyrir til bandarísku glysbylgjunni í rokki sem reis hæst í áttunni. Við erum að tala um bönd eins og Poison, Hanoi Rocks, Twisted Sister, Ratt, Quiet Riot og jafnvel Bon Jovi og Skid Row. Mötley Crüe var þarna í broddi fylkingar. Keyrt var á melódísku rokki, andlitsmálningu, spandexi og almennu glysi og náði stefnan merkilega mikilli lýðhylli – um stund. Oftar en ekki var sungið um sætar stelpur og birtust þær gjarnan fáklæddar í myndböndum sveitanna; nægir í því sambandi að benda á tvö af frægustu lögum Mötley Crüe, Looks That Kill og Girls, Girls, Girls. Karlremba og kvenfyrirlitning? Tja, svari nú hver fyrir sig!

Einnig má benda á kvikmyndina Dirt sem frumsýnd var 2019 en þar er hermt af vægast sagt skrautlegu líferni liðsmanna Mötley Crüe við upphaf ferilsins. Nikki Sixx, bassaleikari og forsprakki bandsins, var spurður að því í viðtali við tímaritið Classic Rock árið 2021 hvort kvenfyrirlitning hefði einkennt framgöngu þeirra á þessum tíma. „Mjög líklega út frá umhverfinu í dag,“ svaraði hann og vék sér hvergi undan. Eða hvað? „Það á líka við um alla aðra. Þegar ég var að vaxa úr grasi í sjöunni voru þetta skilaboðin sem skinu í gegn og maður var bara að herma eftir hetjunum sínum.“

Sumsé aðrir tímar og aðrir siðir.

Sixx fann sig þó knúinn til að bæta við: „Við misnotuðum aldrei vald okkar. Mikilvægt er að því sé til haga haldið. Allt sem við gerðum var með gagnkvæmu samþykki. Þetta var villt og skemmtilegt – ég meina, hvert einasta band var að ganga af göflunum – en eigum við að henda því út vegna þess að það er ekki pólitísk rétthugsun árið 2019 [þegar myndin kom út].“

Síðan gerðist kappinn sögulega samhengislegur á alla kanta. „Væru menn að gera kvikmynd um nýlendutímann og slepptu öllum nornabrennum, hvernig mynd væri það? Það að brenna nornir er augljóslega slæmt árið 2019, en við gerum okkur öll grein fyrir því. Hvað myndina okkar snertir verðum við að átta okkur á því að samfélagið var annað [í áttunni], stelpur og strákar hegðuðu sér með öðrum hætti. Þetta voru aðrir tímar. Við erum vaxnir upp úr þessu núna.“

Gott og vel, nóg um þá málsvörn alla.

Risaeðlur á einni nóttu

Snúum okkur að tónlistinni sem slíkri. Hvernig má það vera að band sem heyrir til stefnu sem sópað var út af borðinu fyrir meira en 30 árum sé allt í einu farið að leikvangatúra heiminn aftur og vera í burðarhlutverki á stórum hátíðum? Réttið upp hönd ef þið treystið ykkur til að svara því!

Um leið og Kurt Cobain strömmaði fyrstu tónana í Smells Like Teen Spirit vissu glysverjarnir að þeirra tími væri liðinn. Þeir voru rangstæðir og úr sér gengnir – höfðu orðið að risaeðlum á einni nóttu. Nægir þar að nefna kostulegt atriði í téðum sjónvarpsmyndaflokki Pam & Tommy. Mötley Crüe er þar snemma í níunni að kynna nýja plötu fyrir utan plötubúð í Los Angeles og tveir eða þrír gruggarar ganga hjá og bókstaflega stara á þá félaga eins og naut á nývirki. Óþægindin og ósigurinn endurspeglast í augunum á Tommy.

Spandex-klæddir og stífmálaðir rokkarar voru einfaldlega ekki lengur kúl, úfnir og úrillir menn í gallabuxum og snjáðum bómullarpeysum voru komnir í staðinn, uppfullir af hugmyndum um hverskyns heimsósóma. Verst hvað söngvurunum leið upp til hópa illa. Flestir sem frontuðu stærstu böndin eru látnir, sumir fyrir margt löngu. Aðeins Eddie Vedder úr Pearl Jam er eftir. Cobain fór fyrstur, síðan Layne Staley úr Alice in Chains, þá Scott Weiland úr Stone Temple Pilots og loks Chris Cornell úr Soundgarden.

Vince Neil í Mötley Crüe og aðrir forsöngvarar helstu glysbandanna eru á hinn bóginn allir sprelllifandi. Og sumir hverjir byrjaðir að túra grimmt á ný. Er engin sanngirni í þessum heimi?

Það var svo sem ekki bara gruggið sem drap glysið, grúvmálmurinn átti líka sitt blómaskeið í níunni, bönd á borð við Pantera, Sepultura, White Zombie, Machine Head og síðar Lamb of God og Five Finger Death Punch. Þá enduruppgötvaði Metallica sig og sótti inn á miðjuna á Svörtu plötunni og Load-plötunum sem stóðu fyrstu plötum bandsins, þrassplötunum, býsna fjarri.

En glysið hefur nú óvænt fengið annað líf. Hversu lengi dugar það?

Yfir 100 milljón seldar plötur

Mötley Crüe var stofnuð í Hollywood í Kaliforníu árið 1981. Nikki Sixx og Tommy Lee voru í upprunalegu útgáfunni en Mick Mars gítarleikari og Vince Neil söngvari bættust skömmu síðar í hópinn. Þannig var bandið skipað þegar fyrsta breiðskífan, Too Fast for Love, kom út 10. nóvember 1981. Frá og með næstu plötu, Shout at the Devil, 1983, var Crüe svo orðið eitt vinsælasta og söluhæsta bandið í málmheimum. Theatre of Pain, Girls, Girls, Girls og Dr. Feelgood gengu líka ljómandi vel, áður en skellurinn kom. Nýjasta plata Crüe, Saints of Los Angeles, er frá 2008. Alls hefur bandið selt yfir 100 milljón plötur á heimsvísu. Lee, Sixx og Neil eru enn á sínum stað en Mars lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrr á þessu ári. Í hans stað kom John nokkur 5.