Ekki var brennivínið sopið þótt í öskjuna væri komið.
Ekki var brennivínið sopið þótt í öskjuna væri komið. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ætli að eigi að halda lengi áfram hinum hneykslanlegu verslunarháttum í áfengissölu ríkisins hjer í bænum?“ spurði Víkverji í Morgunblaðinu haustið 1943. Honum var býsna heitt í hamsi vegna málsins

Hvað ætli að eigi að halda lengi áfram hinum hneykslanlegu verslunarháttum í áfengissölu ríkisins hjer í bænum?“ spurði Víkverji í Morgunblaðinu haustið 1943.

Honum var býsna heitt í hamsi vegna málsins. „Nú er það ekkert launungarmál lengur, að ríkið vill selja þegnum sínum brennivín og meira að segja þarf ríkissjóður á því að halda að selja sem mest áfengi, til þess að hægt sje að standa við fyrirmæli ríkisstjórnarinnar um að verðbæta mjólkina. Samt er það látið viðgangast, að þeir borgarar, sem kaupa sjer áfengi hjá ríkinu, verða að bera sig að eins og þeir sjeu að versla við leynivínsala.“

Hvað átti Víkverji við með þessu? Þeim fer jú fækkandi sem muna þessa tíma. Við erum að tala um stríðsárin.

Jú, innarlega við Lindargötu stóð víst lágreist hús, þar sem fór fram afhending „bevísa“ upp á brennivín. Húsakynni voru, að sögn Víkverja, svo þröng, að menn, sem komu í erindum þangað, urðu að standa í biðröðum, stundum langt út á götu, og þótti þeim, sem úti stóðu, oft betra þar að vera heldur en inni, vegna hins óhjákvæmilega dauns, sem lagði af mannfjöldanum, sem fyllti alla ganga, herbergi og útskot.

Hvað er að heyra þetta? Brá þessi þjóð sér bara í bað á jólum og páskum á þessum tíma?

Ekki nóg með það, þjónustan var víst ekki upp á marga fiska. „Klukkustundum saman verða menn að bíða þarna eftir afgreiðslu, því afhendingarmenn hafa ekki tíma til að stunda vinnu sína nema 2-3 tíma á dag, og eru þar að auki svo fáliðaðir, að þeir komast ekki yfir að afgreiða alla, sem leita á náðir þeirra.“

Ekki var svo björninn unninn hjá þeim sem nenntu að bíða nógu lengi til að fá úrlausn sinna erinda; þeir höfðu ekki nema hálflokið innkaupum sínum, er þeir komu frá Lindargötunni. Gefum Víkverja aftur orðið:

„Þá er eftir að sækja vöruna, sem er afhent gegnum gat á hurð í birgðaskemmu Áfengisverslunarinnar í Nýborg. Þar tekur svo ný bið við, sem stundum er álíka löng, og þar taka við sömu þrengslin [væntanlega í sama dauninum, innskot blm. 2023]. Undanþágu- eða úthlutunarskrifstofa Áfengisverslunarinnar hefir tekið á leigu íbúðarhúsnæði við Lindargötu. Þar gæti búið að minsta kosti ein húsnæðislaus fjölskylda. Á sama tíma stendur verslunarhúsnæði það, sem Áfengisverslunin hafði við Vesturgötu, autt. Er nú ekki tími til kominn að kippa þessum hneykslanlegu verslunarháttum Áfengisverslunarinnar í lag? Eða er nauðsynlegt að með viðskiftavini ríkisins sje farið eins og rjettlausa dóna?“

Brennivínið var ekki eina mjólkin sem var til vandræða haustið 1943, sú mjólk sem kemur af blessuðum kúnum okkar hafði oft verið betri. Að sögn Víkverja hafði sjaldan eða aldrei ríkt annað eins öngþveiti í mjólkurmálum bæjarins. „En það er eins og allar kvartanir sjeu til einskis, hversu rjettmætar sem þær eru.“

Um langan tíma höfðu bæjarbúar kvartað yfir því, að mjólkin væri óhrein, þunn og að hún súrnaði óeðlilega fljótt. Engin bót fékkst á því. „En nú er lítil sem engin mjólk fáanleg og hefir verið tekið það ráð að skamta mjólkina í mjólkurbúðunum. Sömu sögu er að segja með mjólkurafurðir. Skyr sjest ekki og heldur ekki íslenskt smjör. Það ætti að vera kominn tími til, að yfirvöldin ljetu rannsaka mjólkurmálin og athuga, hvort ekki er hægt að finna einhverja úrlausn. Það er ekki viðunandi, að yfirvöldin skelli stöðugt skollaeyrunum við kvörtunum mjólkurneytenda.“

Ekkert fast undir fótum

Í forystugrein Morgunblaðsins, sem finna mátti á sömu opnunni í blaðinu, voru málefni neytenda einnig til umfjöllunar. „Mönnum hefir orðið tíðrætt um það í seinni tíð, hversu völtum fótum við stæðum enn í þeirri viðleitni að vinna gegn dýrtíðinni. Varið hefir verið miljónum króna úr ríkissjóði til þess að lækka verð á landbúnaðarafurðum, með þeim afleiðingum að vísu, að vísitalan lækkaði, en hin raunverulega dýrtíð jókst. Ljóst er, að aðrar ráðstafanir verða jafnframt að koma til, ef ekki á að stefna í óefni. Fjármálaráðherra komst svo að orði við fyrstu umræðu fjárlaganna, að við hefðum enn „ekkert fast undir fótum í dýrtíðarmálunum“.“

Fjármálaráðherra á þessum tíma var Björn Ólafsson í utanþingsstjórninni svokölluðu sem laut forystu Björns Þórðarsonar.

Leiðarahöfundur benti einnig á, að vísitalan hefði skyndilega hækkað í einu stökki um 15 stig og væri þá komin upp í 262 stig. Hvorki var það þó mjólkinni né brennivíninu að kenna, heldur allt annarri „nauðsynjavöru“. „Sagt er, að þessi stórfelda vísitöluhækkun stafi eingöngu af hinu háa verði á kartöflum, sem hjer var í ágústmánuði, en þá voru kartöflur seldar á kr. 2.50 í búðum. Ekki mun þó hafa selst mikið kartöflumagn við þessu verði.“

Með hliðsjón af því, hvernig þessi nýjasta vísitöluhækkun var til komin, sagði leiðarahöfundur að vænta mætti lækkunar hennar aftur, ef ekki annað kæmi til. „En því ekki að koma í veg fyrir slíka sveiflu vísitölunnar? Það hefir auðvitað stórkostlega þýðingu, hvað sem öðru líður, að vísitalan sveiflist ekki til og frá. Skapar það öryggisleysi og glundroða. Virðist slíkt alveg óverjandi, þegar um minniháttar orsakir er að ræða.“

Eins og gefur að skilja voru hlutir sem okkur þykja sjálfsagðir í dag það alls ekki fyrir réttum áttatíu árum. Það sést vel á þessari klausu frá „frjettaritara vorum“ á Akureyri í þessu sama tölublaði:

„Á fundi bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar í fyrradag var samþykt með öllum atkvæðum svohljóðandi tillaga:

„Bæjarstjórn skorar á póst og samgöngumálastjórn ríkisins að gera nú þegar ráðstafanir til að halda uppi reglubundnum flutningum landleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur á næsta vetri.““