Stjórnsýsla matvælaráðherra er hneyksli

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um ólögmæti verktakasamnings Samkeppniseftirlitsins (SKE) við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og ólögmæta beitingu þvingunarúrræða eftirlitsins var einfaldur og afdráttarlaus. Samkeppniseftirlitið ákvað enda að una honum og matvælaráðherra gerði ekki athugasemdir við hann í þinginu.

Vandræði Samkeppniseftirlitsins og yfirstjórnar hennar blasa við, en Svandís virðist ekki hafa áttað sig á því að stórfelldur misbrestur hennar í meðferð valdsins – á svig við landslög, stjórnarskrá og stjórnskipan – er enn alvarlegri.

Þess varð a.m.k. ekki vart af orðum hennar á Alþingi, þar sem hún lét í ljós vonir um miðlægan upplýsingagrunn um eigendur og stjórnendur í atvinnulífinu í rauntíma, fagnaði því að SKE héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist og hvatti þingið til þess að sýna eftirlitinu örlæti við afgreiðslu fjárlaga!

Eins og Morgunblaðið skýrði frá átti matvælaráðherra frumkvæði að umræddum verktakasamningi við SKE um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, en slíka „kortlagningu“ taldi ráðherrann nauðsynlega vegna stefnumótunarvinnu um stjórn fiskveiða. Þær upplýsingar liggja raunar flestar fyrir, enda sjávarútveginum búið mun strangara rekstrarumhverfi samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða en samkeppnislögin kveða á um fyrir atvinnulífið almennt.

Samkeppniseftirlitið býr hins vegar yfir lagaheimildum til athugana á nánast hverju því sem yfirstjórn þess lystir, en umfram allt hefur SKE einstaklega víðtækar rannsóknarheimildir og úrræði til þess að fylgja þeim eftir. Mun víðtækari en matvælaráðherra, ráðuneyti og undirstofnanir búa yfir og það er nú meinið.

Afl ríkisvaldsins er mikið, en vegna þess að breyskir menn fara með valdið er það temprað og því er dreift með þrígreiningu ríkisvaldsins. Framkvæmdavaldinu eru falin tiltekin völd og ábyrgð samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Það getur ekki öðlast völd með neinum öðrum hætti.

Ráðherra hefur tilteknar valdheimildir lögum samkvæmt og aðrar ekki. Þess vegna má ráðherra ekki – með samningum og greiðslum eða öðrum hætti – sækja sér aðrar valdheimildir en honum eru ætlaðar. Það er ástæða fyrir því að hann hefur sínar valdheimildir en ekki aðrar og einungis Alþingi má breyta því. Hafi ráðherra ekki vald til einhvers má hann ekki bara hringja eftir þörfum í lögregluna eða landlækni, sem kunna að hafa slík völd til annarra verkefna.

En það var nákvæmlega það sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra reyndi að gera með ólöglegum samningi sínum við Samkeppniseftirlitið: að greiða SKE fyrir að það notaði sínar sérstöku valdheimildir til þess að komast að einhverju sem ráðherra hefur ekki heimildir til þess að krefja nokkurn um. Og það í pólitískum tilgangi.

Þarna hefur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra orðið svo stórkostlega á í messunni að vandséð er að hún haldi trausti Alþingis.

Er þó ekki allt upp talið, því til þess að greiða SKE fyrir viðvikið fór matvælaráðherra í kringum fjárveitingavald Alþingis. Úr ríkissjóði má ekkert gjald greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Til þess arna var notað fé úr fjárlagaliðnum „Ýmis framlög í sjávarútvegi“ en Samkeppniseftirlitið er ekki í sjávarútvegi, heyrir undir annan ráðherra og á ekki að vera á snærum matvælaráðherra.

Ráðherra hefur vissulega nokkurt svigrúm og sveigjanleika innan rammafjárlaga, en aðeins innan sinna málaflokka. Matvælaráðherra má ekki leggja SKE til fjármuni frekar en þjóðkirkjunni, þó einhverjum þyki málstaðurinn göfugur.

Einnig þarna hefur matvælaráðherra fyrirgert trausti Alþingis til sín.

Ef til vill er það þó afstaða matvælaráðherra til ríkisvaldsins og hins frjálsa þjóðskipulags sem mestar áhyggjur vekur. Í gær áréttuðu Samtök atvinnulífsins mikilvægi meðalhófs í upplýsinga- og gagnaöflun hins opinbera, en þegar mbl.is innti Svandísi álits á því stóð ekki á svörum:

„Ég held að það sé mikilvægt að atvinnustarfsemi í landinu sé þannig að hún hafi ekkert að fela.“

Stasi hefði ekki getað orðað það betur.