Birta böðuð birtu „Aldagömul hefð er fyrir því að fólk haldi veðurdagbækur hér á landi, slíkur er áhuginn á veðri.“
Birta böðuð birtu „Aldagömul hefð er fyrir því að fólk haldi veðurdagbækur hér á landi, slíkur er áhuginn á veðri.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar geta spjallað endalaust um veður, enda sjaldnast tíðindalaust í þeim efnum og svo er alltaf hægt að taka upp tal um veður ef annað þrýtur eða brjóta þarf ís í vandræðalegum aðstæðum,“ segir Birta Líf Kristjánsdóttir veðurfræðingur, …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Íslendingar geta spjallað endalaust um veður, enda sjaldnast tíðindalaust í þeim efnum og svo er alltaf hægt að taka upp tal um veður ef annað þrýtur eða brjóta þarf ís í vandræðalegum aðstæðum,“ segir Birta Líf Kristjánsdóttir veðurfræðingur, en hún ætlar að spjalla um fræðigrein sína og áhuga Íslendinga á veðri á Fræðakaffi í Borgarbókasafninu Spönginni nk. mánudag.

„Ég held að veðuráhuginn sé hluti af þjóðarsálinni, af því að í gegnum aldirnar hefur verið ótrúlegt bras að búa á þessu landi og fólk því mjög upptekið af náttúruöflunum og veðrinu, enda höfum við átt svo mikið undir því. Aldagömul hefð er fyrir því að fólk haldi veðurdagbækur hér á landi, slíkur er áhugi almennings á fyrirbærinu. Með borgarvæðingu finnst mér fólk hafa fjarlægst tilfinninguna fyrir veðri, enda á miklu færra fólk núorðið jafn mikið undir veðri og meirihluti Íslendinga átti hér áður fyrr. Veður hefur eðli málsins samkvæmt ekki mikil áhrif á þá sem starfa á skrifstofu í þéttbýli, nema rétt yfir harðarsta veturinn í ófærð. Fyrir vikið pæla miklu færri núorðið í því hvaða vindátt er, eða hvað felst í því þegar lægð kemur, skil og annað slíkt,“ segir Birta og bætir við að hún finni mikinn mun á því sem veðurfræðingur hvort hún sé að tala við bónda, sjómann, flugmann, fjallafólk og aðra sem eru í tengslum við náttúruna og þurfa að taka tillit til veðurs eða skrifstofufólk sem veður hefur lítil áhrif á, nema þá helst lundarfarið.

Líka menntaður flugmaður

Óneitanlega er það fallegt karma eða skemmtileg tilviljun að veðurfræðingnum hafi verið gefið nafnið Birta þegar hún var barn í vöggu, því bjart veður og hvers konar birta eru jú veðurfræðileg fyrirbæri.

„Ég man eftir að hafa séð einhvers staðar dæmi um fólk sem hefur vaxið inn í nafnið sitt, til dæmis jöklafræðingurinn Jökull, jarðfræðingurinn Bergur og fuglafræðingurinn Þröstur. Kannski er eitthvað ómeðvitað sem á sér stað, en ég ætlaði ekki að verða veðurfræðingur þegar ég var lítil og ég hafði engan sérstakan áhuga á veðri. Ég var ekki alin upp við mikinn veðuráhuga, en reyndar ólst mamma upp í sveit, á Hólabaki í Austur-Húnavatnssýslu, en ég ólst upp í borginni. Þegar ég fór að læra flug þá var hluti af því að læra veðurfræði, og því meira sem ég lærði um það, því meira heillaðist ég af veðurfræði. Þetta snýst ekki aðeins um hvort það sé rigning eða ekki, það er svo rosalega mikið þarna á bak við. Veðurfræðin býr yfir gríðarlegri fjölbreytni,“ segir Birta, sem lauk sínu flugmannsnámi en í kjölfarið var enga vinnu að fá fyrir flugmann, svo hún kenndi til að byrja með bæði flug og veðurfræði fyrir flugmenn. Hún fór síðan í háskólann og lauk meistaranámi í veðurfræði samhliða þeirri vinnu.

Mikil og flókin tækni á bak við

„Ég hef starfað á Veðurstofunni undanfarin 12 ár og kann því vel og mér líkar einnig vel að flytja veðurfréttir í sjónvarpi,“ segir Birta og játar að stundum séu veðurfræðingar álitnir bera persónulega ábyrgð á veðurfarinu.

„Við fáum alveg hringingar hingað inn á veðurstofu með athugasemdum, en það er almennur skilningur á því að við veðurfræðingar erum að gera okkar besta. Stundum hegðar náttúran sér aðeins öðruvísi en við teljum að hún geri. Til dæmis í síðustu viku á Siglufirði, þegar þar fauk hús í aftakaveðri, en þetta var mjög staðbundið vont veður sem hafði ekki komið nógu vel fram í okkar spágögnum. Við skoðum slík tilvik vel, leggjumst yfir þau og reynum að gera betur næst,“ segir Birta og bætir við að sér finnist fyndið að þegar nýir veðurfræðingar byrja í sjónvarpinu fái þeir iðulega að heyra eftir ákveðinn tíma að þeir hafi slæm áhrif á veðrið með nærveru sinni. „Þú verður að fara að hætta að segja veðurfréttir, það hefur verið vont veður síðan þú byrjaðir“ er setning sem margir hafa fengið að heyra.“

Birta segir að tækni í veðurfræði hafi fleygt fram frá því hún hóf störf á Veðurstofunni fyrir rúmum áratug.

„Þau líkön sem við skoðum eru komin með mjög góða upplausn og tölvutæknin er orðin mögnuð, en það nær samt aldrei alveg alla leið. Í framsetningunni hefur líka orðið gríðarleg framför, í gamla daga var bara þessi kassi sem veðurfræðingur í sjónvarpi sneri með föstum myndum. Í dag liggur mikil og flókin tækni að baki því að reikna þessa eðlisfræði sem liggur á bak við að segja fyrir um hvað gerist næst í veðri.“

Sjóveður, flugveður, snjóflóð

Þegar Birta er spurð hvort hún gangist við því að vera veðurfræðinörd játar hún því fúslega.

„Ég er með brennandi áhuga á mínu fagi, rétt eins og hún Elín Björk veðurfræðingur sem er með innslög um veður í Mannlega þættinum á Rás1 og er stolt af því að vera veðurfræðinörd. Hún vekur áhuga almennings á þessum fræðum með ástríðu sinni í þessum innslögum. Það þarf að láta fólk vita hvað veðurfræði er spennandi og fjölbreytt, og ég ætla einmitt í fræðakaffinu á mánudaginn að tala um hvað við veðurfræðingar erum heppnir hér á Íslandi, hversu ótrúlega mikill fjölbreytileiki er í veðrinu. Það er svo margt sem spilar þar inn í, til dæmis lega landsins og sú staðreynd að við erum á mörkum tveggja loftmassa. Eins erum við á lægðabrautinni, með landslag, jökla og fleira sem hefur áhrif á veður. Þar fyrir utan er svo margt sem þarf að líta á og hafa í huga þegar veðurspá er annars vegar; snjóflóð, ofanflóð, aurskriður, almenna veðrið, sjóveður, flugveður, fjallaveður, vegaveður, norðurljósaveður … Við erum með samráðsfund á hverjum degi þar sem veðurfræðingur, ofanflóðasérfræðingur, skjálftavaktin og vatnavaktin hittast og ræða hvað er í gangi og hvernig þetta allt tengist. Til að fá yfirsýn,“ segir Birta og bætir við að þau veðurfræðingarnir fari reglulega á ráðstefnur til að endurmennta sig og halda sér við, enda miklar og örar framfarir í veðurfræðum.

Hvernig er veðrið? er yfirskrift viðburðar Fræðakaffis þar sem Birta ætlar að fjalla um veður og fleira því tengt. Fer fram í Borgarbókasafninu í Spönginni í Grafarvogi í Reykjavík nk. mánudag, 25. september, kl. 16.30-17.30.