Hólmfríður Kristjánsdóttir fæddist 1. janúar 1968 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans 6. september í faðmi fjölskyldunnar.

Hólmfríður var dóttir hjónanna Kristjáns Þorkelssonar, f. 26. febrúar 1943, d. 1. mars 2023, og Sigurdísar Sigurðardóttur, f. 30. mars 1944. Systkini Hólmfríðar eru Camilla, f. 24. febrúar 1964, og Bryndís, f. 4. nóvember 1977.

Hólmfríður, eða Fríða eins og hún var alltaf kölluð, gekk í hjónaband 3. júní 1995 með Brynjari Björgvinssyni, eða Binna eins og hann er alltaf kallaður, f. 25. febrúar 1967. Brynjar er sonur þeirra hjóna Björgvins Konráðssonar og Sigurbjargar Árnadóttur.

Fríða og Binni hófu búskap í Reykjavík árið 1988 og bjuggu þar alla tíð. Fríða var menntaður kennari og starfaði við kennslu, lengst af í Sæmundarskóla eða síðan árið 2005. Binni útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1988 og hefur sinnt ýmsum störfum síðan en er nú framkvæmdastjóri heildsölu Opinna kerfa.

Börn þeirra hjóna eru: 1) Tara, f. 19. júlí 1991. Maki: Egill Þormóðsson, f. 26. ágúst 1991. Börn: Aría, f. 13. maí 2015, og Apríl, f. 4. október 2019. 2) Sif, f. 14. júní 2000. Maki: Friðbert Þór Ólafsson, f. 2. apríl 1994.

Útför Fríðu hefur þegar farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mamma mín var ein sú allra fallegasta kona sem ég hef litið á, bæði að innan og utan. Hún var ekki bara mamma mín heldur líka stoð mín og stytta, ein af mínum bestu vinkonum og mín helsta fyrirmynd og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Við erum ansi ólíkar mæðgur og grínaðist hún oft með það að ef hún hefði ekki séð mig fæðast þá væri hún ekki viss um að hún ætti mig. En eins ólíkar og við vorum þá náðum við einstaklega vel saman og skipti hennar skoðun mig miklu máli. Ég gat alltaf treyst á hreinskilnina hennar í einu og öllu og hún talaði aldrei undir rós. Hún studdi mig í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og seinna meir studdi hún okkur fjölskylduna í öllum okkar ævintýrum.

Hún ól okkur systur upp með mikla ást, þolinmæði og gleði að leiðarljósi. Hún dvaldi aldrei í því sem slæmt var og hugsaði alltaf í lausnum. Hún kenndi okkur að gefast aldrei upp, elta drauma okkar, sitja aldrei á skoðunum okkar og sama hvað, alltaf að vera kurteisar! Við fundum það svo sterkt að við vorum alltaf í fyrsta sæti og að við vorum elskaðar skilyrðislaust.

Ég vildi óska að allir væru jafn heppnir og við systur með mömmu því við hefðum í alvöru ekki viljað breyta neinu.

Amma Fríða fæddist svo fyrir átta árum og það varð mjög fljótt ljóst að sá titill færi henni einstaklega vel. Hún sá ekki sólina fyrir ömmustelpunum sínum og þær sáu heldur ekki sólina fyrir ömmu Fríðu. Sambandið sem hún átti við ömmustelpurnar sínar var engu líkt og eiga þær margar minningar með ömmu sinni og afa. Þegar ég spurði stelpurnar út í ömmu sína sögðu þær að amma hefði verið góð amma, skemmtileg og fyndin. Það hefði verið mjög gott að vera með henni og þægilegt að vera hjá henni í rólegheitum að lita eða mála saman og hlusta á sögur. Aría sagði að það hefði alltaf verið hægt að fá ömmu til að lesa fyrir mann, margar sögur, og það hefði líka verið gaman að lesa fyrir hana því hún hefði hlustað svo vel og hjálpað henni að verða betri að lesa. Aría og Apríl sögðu báðar að það hefði verið þægilegt að kúra með henni og að knúsin hennar hefðu verið best.

Mikið er ég sammála elsku dætrum mínum, þú gafst heimsins bestu knúsin og stundum var það það eina sem virkaði til þess að gera allt betra. Það er óbærilegt að hugsa til þess að það verða ekki fleiri knús, engin fleiri samtöl eða samvera með þér elsku besta mamma. Við verðum að sætta okkur við að nú munir þú búa í hjörtum okkar og fylgjast með okkur úr tunglinu eins og Apríl okkar segir.

Við pössum hvert upp á annað mamma mín eins og við lofuðum þér og ætlum að halda áfram að lifa lífinu og búa til skemmtilegar minningar, því ef það er eitthvað sem þú hefur kennt okkur þá er það að lífið er svo sannarlega núna.

Þangað til næst.

Elska þig, alltaf.

Þín

Tara.

Það er komið að kveðjustund. Ég trúi því ekki ennþá að ég þurfi að kveðja hana elsku Fríðu mína. Ég var svo viss um að við ættum eftir að upplifa fleiri góð ár saman, við ætluðum að ferðast meira og halda áfram að hafa gaman, það var engin spurning. Við sem erum búnar að vera samferða í gegnum lífið allt frá fæðingu. Það er svo fjarlægt að ég eigi ekki eftir að koma í Básendann og elsku Fríða tekur á móti mér með bros á vör og mér hlýnar um hjartarætur. Þannig var það alltaf þegar við hittumst. Fallegri manneskju að innan sem utan hef ég ekki kynnst. Við vorum bestu vinkonur og frænkur og áttum svo ótal margt sameiginlegt. Allt okkar líf var samtvinnað á svo marga vegu, fyrsta heimili okkar var í húsinu hjá ömmu og afa á Vesturbrúninni, svo fluttum við báðar sem litlar stelpur í Fossvoginn og ólumst þar upp í næstu götu hvor við aðra, vorum bekkjarsystur, vorum saman í litlum vinkonuhóp, sem síðar stækkaði eftir því sem árin liðu. Við vorum saman í handbolta og badmintoni öll okkar grunnskólaár, fórum í keppnisferðalög, sumarbúðir, ferðalög með fjölskyldum okkar og vorum svo oft í pössun hvor hjá annarri, já við vorum alltaf saman.

Jólin og áramót eru sérstaklega eftirminnileg því ég var alltaf með Fríðu, allt var skemmtilegra því við fengum að vera saman. Allar mínar æskuminningar tengjast Fríðu minni og það eru ljúfar minningar. Mér finnst ég svo heppin að hafa átt hana að og ekki síður þegar við urðum fullorðnar, við héldum áfram að vera samferða allt þar til hún þurfti að kveðja vegna veikindanna. Það sem hún stóð sig vel og persónuleikinn skein í gegn, hún gafst aldrei upp og hún var svo dugleg. Söknuðurinn er sár og ég á erfitt með að ímynda mér lífið án hennar. Vinátta okkar og tengsl voru sterk, og aldrei nokkurn tíman skyggði á. Við áttum svo margt saman, áttum sameiginleg hugðarefni, menntuðum okkur báðar sem kennarar og gátum talað tímunum saman um allt á milli himins og jarðar. Síðustu ár áttum við ófá samtöl um litlu krílin okkar, barnabörnin, sem við elskuðum að deila sögum af og glöddumst svo mikið yfir, okkur fannst við svo heppnar og ríkar.

Fríðu var svo margt til lista lagt, var listamaður í sér, allt fallega handverkið og fallega heimilið þeirra Binna bar þess merki, allt var svo fallegt. En fyrst og fremst var hún svo einstaklega falleg sál, svo hlý og heil í gegn. Rósemin og heilindin höfðu góð áhrif á alla í kringum hana. Ég á eftir að sakna elsku hjartans Fríðu minnar svo óendanlega mikið, ég mun geyma allar góðu minningarnar í hjarta mér og ylja mér við þær. Takk fyrir allt, elsku besta vinkona mín, og sjáumst svo einhvern tíman aftur annars staðar eins og við sögðum þegar við kvöddumst. Þú verður alltaf með mér.

Elsku Binni, Tara, Sif, Dísa, Camilla, Bryndís og fjölskyldur, hugur minn er hjá ykkur og megið þið finna styrk hvert hjá öðru til þess að komast í gegnum sorgina. Ég veit að minningin um fallega engilinn ykkar mun ávallt lifa með ykkur.

Nanna.

Elsku Fríða. Hversu ótímabært og sorglegt það er að þú sért farin frá okkur.

Við kynntumst flestar fyrir 20 árum þegar við hófum nám við list- og verkgreinadeild Kennaraháskólans. Nokkrar okkar höfðu verið saman í bekk árið áður í grunnnáminu en þegar kom að sérgreinavali kynntumst við betur og hefur þessi hópur haldið saman allar götur síðan. Áhuginn á textílmennt sameinaði okkur og við áttum margar góðar stundir í listgreinahúsinu í Skipholti. Eftir útskrift ákváðum við að halda hópinn og í 18 ár höfum við hist nánast í hverjum mánuði, spjallað, borðað, ýmist í heimahúsi eða á veitingastöðum, prjónað og stundum lyft glasi.

Ferðin okkar til Birmingham, á handverkssýningu, var einstaklega skemmtileg. Sýningin stóð ekki alveg undir væntingum en við gerðum gott úr ferðinni. Borðuðum, spjölluðum, röltum um borgina, versluðum og nutum lífsins.

Fríða okkar var einstök. Hún var svo róleg, ljúf og góð. Einstakur fagurkeri. Heimili hennar og Binna er einstaklega hlýlegt og fallegt, skreytt á glæsilegan en látlausan hátt, eins og Fríða sjálf var. Glæsileg, látlaus og falleg, að innan sem utan. Allt sem hún snerti varð fallegt. Hvort sem það kom að heimilinu eða handverkinu hennar. Hún var framúrskarandi prjónakona eins og þeir sem þekktu hana geta vitnað um enda skilur hún eftir sig mikið magn fallegra hluta. Eitt það síðasta sem hún náði að klára, og talaði um á dánarbeðinum, voru peysur á ömmustelpurnar sínar, sem hún dýrkaði og dáði, og voru ætlaðar þeim á brúðkaupsdegi foreldra þeirra.

Hún elskaði fólkið sitt. Hún talaði svo fallega um Binna, Sif, Töru, Egil, Aríu og Apríl sem voru henni svo dýrmæt.

Við sendum þeim sem og móður, systrum og öllum öðrum ástvinum okkar allra dýpstu samúðarkveðjur.

Við munum minnast Fríðu okkar með þakklæti fyrir einlæga og fallega vináttu. Hennar verður sárt saknað.

Ástrós Rún Sigurðardóttir, Fjóla Borg Svavarsdóttir, Freydís Helga Árnadóttir,

Guðrún Einarsdóttir, Gunnhildur Stefánsdóttir, Kristín Helgadóttir,

Kristín Jóhanna Hirst, Lena Dögg Dagbjartsdóttir, Sigríður Rafnsdóttir.

Fríða kom til starfa haustið 2005 á öðru starfsári Sæmundarskóla. Fríða var sannkallaður happafengur fyrir skólann. Hún var nýútskrifuð en umsóknin hennar er mér minnisstæð, ferilskráin var falleg og vönduð og í starfsviðtalinu kom með henni þessi góða nærvera sem einkenndi hana, enda var hún ljúf, kærleiksrík og fylgin sér.

Fríða kenndi á yngsta stigi, hún varð uppáhaldskennari margra barna, endalaust þolinmóð og alltaf góð. Það var notalegt að koma í stofuna hennar Fríðu, gjarnan var þar róleg tónlist og hún hækkaði aldrei róminn. Fríða var mikill fagurkeri og aðstoðaði oft við val á innanstokksmunum. Strax fyrstu dagana hennar í starfi kom þetta í ljós. Í skúrunum fengum við gömul, notuð húsgögn og kom ég að henni þar sem hún var að færa borð á milli skólastofa. Borðin höfðu verið ýmist með hvössum eða mjúkum hornum og var þetta auðvitað stílbrot sem þurfti að leiðrétta. Fríða var ákveðin á sinn yfirvegaða hátt og lét gjarnan vita ef eitthvað mátti betur fara.

Við Fríða vorum á svipuðum aldri og kynntumst vel. Við fylgdumst að sem mömmur og áttum oft spjall um fjölskyldurnar okkar. Hún talaði af virðingu og kærleik um Binna sinn og var stolt af dætrunum, þeim Sif og Töru, enda eru þær báðar atorkusamar og sterkir persónuleikar. Það var gleðiefni þegar Tara fylgdi í fótspor mömmu sinnar og varð kennari, en hún starfaði í Sæmundarskóla á námsárum sínum.

Á átján árum hefur mikið gerst, skólinn hefur stækkað, starfsmönnum fjölgað og útskriftarhóparnir eru orðnir sjö. Það eru ógrynni af hjörtum sem Fríða hefur snortið, huggað og alið upp. Hún lagði sig fram í starfi og valdist til forystu á ýmsan hátt. Lokaverkefnið hennar í Kennaraháskólanum fjallaði um verkmöppur og framkvæmdi hún verkefnið í Sæmundarskóla. Nemendur í 3. bekk fara enn í dag heim með fallegar möppur sem gefa gott yfirlit yfir nám á yngsta stigi og eru varðveittar á mörgum heimilum í Grafarholti. Hún sat í skólabragsteyminu þegar við innleiddum agastjórnunarkerfi skólans og var um langa hríð stigsstjóri yngsta stigs, eða tengill eins og við köllum þetta embætti í Sæmundarskóla. Hún sinnti þessum hlutverkum af alúð eins og öllu sem hún tók sér fyrir hendur.

Fríða hafði unun af starfi sínu, hún neytti allra sinna krafta til að koma til vinnu. Síðustu árin þurfti hún að draga úr en ávallt sinnti hún sínu vel. Síðasta samtalið sem ég átti við hana hér í Sæmundarskóla snerist um að hún vildi koma til baka um leið og hún gæti. Við vorum báðar svo ákveðnar í að sterkur vilji og ný líftæknilyf myndu gera það mögulegt. En þetta gekk ekki eftir, Fríða þurfti að lúta í lægra haldi og kveðja okkur allt of fljótt. Hún var dýrmæt manneskja og kennari sem kenndi okkur að njóta starfsins og lífsins. Við kveðjum hana með þakklæti í huga fyrir allt sem hún gerði fyrir skólann og nemendur. Hennar er sárt saknað.

Ég færi fjölskyldunni hennar Fríðu mínar einlægu samúðarkveðjur. Minning Fríðu og arfleifð lifir.

Eygló Friðriksdóttir
skólastjóri.

Það er óendanlega erfitt að hugsa til þess að hún Fríða, yndislega vinkona okkar, sé ekki lengur með okkur. Söknuðurinn er svo sár en minningarnar margar og ljúfar.

Við kynntumst Fríðu fyrir 16 árum þegar við hófum störf við Sæmundarskóla og með tímanum þróaðist með okkur traust og dýrmæt vinátta sem leiddi til þess að við fórum að hittast mikið utan vinnu. Það voru gönguferðir, fjallgöngur, brönsar og lönsar, sumarbústaða- og utanlandsferðir. Við nutum lífsins saman, elskuðum að borða saman góðan mat, hlæja og spjalla og gleymdum aldrei að skála fyrir fegurð okkar og framtíð. Fríða var yndisleg vinkona, hógvær og hæglát, mikill fagurkeri og með eindæmum smekkleg. Hún var falleg yst sem innst og bjó yfir einstakri innri ró og styrk. Hún var frábær og vinsæll kennari sem allir báru virðingu fyrir og þótti vænt um.

Fríða elskaði fallegu fjölskylduna sína og var svo stolt af dætrum sínum, Töru og Sif. Hún var yndisleg amma sem umvafði fjölskylduna ást og umhyggju. Hún hafði yndi af að vera í rólegheitum með prjónana en naut þess líka að ferðast um heiminn með Binna sínum og þá sérstaklega í sólina og hitann.

Fríða var einstök kona sem barðist hetjulega við illvígan sjúkdóm með æðruleysi og vonina að leiðarljósi. Viljastyrkurinn var mikill og lýsandi dæmi um hann er gönguferð okkar vinkvennanna upp á Móskarðshnjúka ekki fyrir svo löngu. Hún lét ekkert stoppa sig.

Það er erfitt að hugsa sér hópinn okkar án þín elsku hjartans vinkona okkar, við munum geyma allar dýrmætu minningarnar um þig í hjarta okkar.

Elsku Binni, Tara, Sif og fjölskyldan öll. Megi allar góðar vættir styrkja ykkur og vernda.

Vinkonurnar í 50+,

Vilhelmína (Vilma),

Dóra, Sigurlaug (Silla), Helga, Ingibjörg,

Elísabet og Aðalbjörg.

Elsku hjartans Fríða mín. Mikið getur lífið verið innilega ósanngjarnt og erfitt að skilja það á köflum. Ég fæ aldrei skilið hvernig hægt er að hrifsa frá okkur konu á besta aldri sem átti allt lífið fram undan, var elskuð svo heitt af fólkinu sínu og elskaði svo heitt til baka. Þú varst ljós hvert sem þú fórst, lýstir upp herbergi bara með nærveru þinni og fallega brosinu þínu. Þú þurftir ekki einu sinni að segja neitt, það stafaði strax af þér svo mikill ljómi og hlýjan geislaði af þér.

Þú varst mér svo innilega góð og kærleiksrík, svo áhugasöm um allt sem ég tók mér fyrir hendur og það sem þú varst spennt þegar ég loks keypti mína fyrstu íbúð. Það er alveg ótrúlega táknrænt að þú, ljósið sjálft, og Binni þinn gáfuð mér lampa í innflutningsgjöf. Ég hugsa til þín í hvert einasta skipti sem ég kveiki á lampanum og hlýnar í hjartanu við að hafa ennþá ljósið þitt, þó það sé í annarri mynd.

Ég er búin að marglesa skilaboðin okkar á milli þar sem við töluðum um tónlistina sem þú hlustaðir á þegar þú varst yngri og þú getur rétt ímyndað þér hvað ég er búin að spila lögin oft sem við töluðum um og hugsa til þín því eins og við töluðum líka um þá getur tónlistin fleytt manni aftur í tímann í góðar minningar og það eru einmitt minningarnar sem eru svo dýrmætar á kveðjustund sem þessari.

Elsku Fríða, takk fyrir allt. Takk fyrir að opna Básendann upp á gátt fyrir mér eins og ég væri ein af ykkur og leyfa mér reglulega að krassa pítsupartí fjölskyldunnar, þú gerðir ekkert eðlilega góðar pítsur.

Ég stend við orð mín að passa upp á fólkið þitt. Ég væri helst til í að flytja inn til Töru þinnar en það er kannski of mikið, og þó.

Fríðust okkar, takk fyrir þig.

Anna Margrét Káradóttir.

Elsku besta Fríða, þú snertir hjörtu svo ótal margra í gegnum tíðina, þar á meðal mitt. Jákvæðari, sterkari og fallegri manneskju er erfitt að finna. Sama hvaða erfiðleika þú gekkst í gegnum og á erfiðum tímum í veikindum þínum þá tókstu á því með þrautseigju, reisn og bros á vör. Þú varst fyrirmynd í svo mörgu. Þegar ég hugsa um þig þá hugsa ég um blíða brosið þitt, hlýju röddina þína, kærleikann sem var allt um í kring, þessa jákvæðu orku og jafnaðargeðið þitt.

Þú tókst öllum nákvæmlega eins og þeir voru og varst hlý og góð við alla. Það var alltaf gott og gaman að koma í Básenda og alltaf tekið á móti mér eins og einni af fjölskyldunni.

Ég mun aldrei gleyma öllum þeim góðu stundum sem við áttum þar. Þú varst mikil handavinnukona og prjónaðir margar fallegar flíkur á börnin mín sem ég geymi eins og gull, það sem þú bjóst til með höndunum þínum var algjört listaverk, smekklegt og unnið með ást, mér þykir virkilega vænt um þessar fallegu prjónuðu flíkur.

Ég á erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur, en minning þín mun ávallt lifa í hjörtum okkar sem þú snertir. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og tel mig heppna að hafa haft þig í lífi mínu. Þú varst sannarlega með hjarta úr gulli.

Kæra fjölskylda, mikill er missir ykkar, hugur minn er hjá ykkur.

Takk fyrir allt, elsku Fríða mín.

Hvíldu í friði.

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning – létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi.

(Halla Eyjólfsdóttir)

Þangað til næst, þín

Kristín Heiða
Magnúsdóttir.

Ég man þegar ég sá Fríðu í fyrsta sinn. Það lýsti af ljósa hárinu hennar og hún var fallega brún enda nýkomin frá sólarströnd. Við vorum fimm ára, og þekktumst ekki á þessum tíma, en hún var og verður mér ávallt minnisstæð.

Seinna urðum við vinkonur og þá kom í ljós að það lýsti ekki bara af hárinu á henni, heldur af henni allri. Við vorum samferða í gegnum lífið og áttum einstaka vináttu.

Svipmyndir liðinna stunda birtast mér og minningarnar eru góðar. Litlar stelpur í Fossvoginum, þegar lífið var einfalt og allt við höndina. Fossvogsskóli í göngufæri og síðar Réttarholtsskóli og Víkingur uppi á horni. Við vinkonurnar brölluðum mikið saman, spiluðum út í eitt, bjuggum til kókoskúlur eða poppuðum. Tjaldútilegur í garðinum í Giljalandi voru vinsælar og eins gistum við ósjaldan heima hjá hvor annarri. Minnisstæðar eru ófáar hjólaferðir í skólagarðana þar sem hendur voru látnar standa fram úr ermum. Á bakaleiðinni var stoppað á bókasafninu í Bústaðakirkju þar sem haugur af bókum var fenginn að láni og síðan hjólað heim.

Eftir því sem árin liðu og við vorum báðar komnar með fjölskyldur breyttust samverustundirnar. Þær stundir voru aftur sem áður ljúfar og góðar, allt nokkuð sem ég ylja mér nú við.

Tilhugsunin um nærveru Fríðu er jú einmitt hlý, hún var alltaf til staðar, bóngóð og traust. Hún hlustaði og gaf af sér og það var einfaldlega gott að vera með henni. Hún var handlagin, róleg, listræn og hæfileikarík hannyrðakona, auk þess sem sumar af mínum yndislegustu minningum í þessu lífi tengjast jólabakstri okkar og barnanna okkar saman. Í Básenda í desember var kalt úti en notalegt inni. Kveikt var á kertum og jólalögin hljómuðu í spilaranum í bakgrunni. Það eru þær stundir sem vekja með manni staðfestu og sorg gagnvart hverfulleika tímans, í bland við þakklætið eitt fyrir það að hafa átt þær til að byrja með. Tíminn er það dýrmætasta sem við manneskjur eigum, en Fríða gaf hann ósparlega frá sér í leik og starfi.

Mér er minnisstætt þegar ég kom eitt sinn í kennslustofuna til hennar og hún vissi ekki af mér. Fríða sat við borð og var að láta litla stelpu lesa fyrir sig. Annar nemandi þurfti að ná tali af Fríðu og var eitthvað órólegur. Fríða leit blíðlega á hann án þess að láta það trufla upplestur litlu stúlkurnar og viðkomandi róaðist á stundinni. Fríða var svo sannarlega á heimavelli í kennslunni og hún nálgaðist nemendur af virðingu – það sem ég dáðist að henni.

Fríða var nefnilega miklu meira en vinkona mín, hún var mér sem systir, stoð mín og stytta. Á sama tíma og allar okkar minningar fylla hjarta mitt ríkir þar nú tómarúm. Ég er ólýsanlega sorgmædd yfir því að hún sé farin og að ég muni ekki fá að njóta samvista við hana áfram, en er að sama skapi þakklát fyrir tímann sem við áttum saman og ég held áfram að dást að henni.

Minningin um einstaka vinkonu mun lifa í huga mér og hjarta alla tíð.

Elsku Binni, Tara, Sif, Dísa, Camilla, Bryndís og fjölskyldur – innilegar samúðarkveðjur og megi hlýja umvefja ykkur í sorg ykkar.

Anna María.