Elías Þórarinn Ketilsson fæddist á Jaðri í Bolungarvík þann 16. desember 1928. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Bergi 7. september 2023.

Foreldrar hans voru þau Ketill Magnússon, f. 16.8. 1885, d. 25.1. 1962, og Guðlaug Jónsdóttir, f. 23.7. 1893, d. 11.7. 1988.

Systkini hans voru Elín Lovísa, Sumarlína, Þórunn, Magnús Ágúst, Lovísa, Friðrik Guðmundur, Vilhjálmur Guðmundur, Karl, Skúli, Lilja Fanney, Guðlaugur Ketill og Sigríður Hulda. Sigríður Hulda er ein eftirlifandi úr systkinahópnum.

Á jóladag 1950 kvæntist hann Halldóru Margréti Jónsdóttur, f. 25.6. 1930, en hún lést aðeins 35 ára gömul þann 19.10. 1965.

Börn þeirra: Jón, f. 27.10. 1950. Hann á einn son. Guðlaug, f. 30.1. 1952, d. 3.7. 1954. Dóra María, f. 30.10. 1953. Hún á þrjá syni og 14 barnabörn. Guðlaug, f. 1.12. 1954. Hún á fjögur börn og sex barnabörn. Ketill, f. 3.2. 1956. Hann á tvö börn, 12 barnabörn og þrjú langafabörn. Elías Þór, f. 8.10. 1961. Hann á þrjú börn og níu barnabörn. Ásgeir, f. 19.6. 1963. Hann á þrjú börn og sjö barnabörn. Bára, f. 30.5. 1965. Hún á þrjú börn og sex barnabörn.

Elías ólst upp í stórum systkinahópi fram að níu ára aldri, þá fór hann í sveit að Neðri-Bakka í Langadal og dvaldi þar næstu fimm árin. Skólaganga hans var ekki löng, tveir vetur í Bolungarvík og alls sjö mánuðir í Reykjanesi. Eftir fermingu fór hann að róa með föður sínum og eftir það átti sjómennskan hug hans allan. Hann keypti sinn fyrsta bát á tuttugasta aldursári og átti báta og reri á þeim næstu 64 árin. Hann vann ýmis störf á veturna, í frystihúsinu, rækjunni, lagði teppi og verkaði harðfisk. Þegar hann varð sjötugur fór hann að huga að áhugamálum og smá afslöppun. Hann fór til Kanarí á hverju ári, og á Örkina í Hveragerði og síðar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins. Elli dreif sig líka í Karlakórinn Erni á fullorðinsárum og söng með þeim um árabil.

Hann verður jarðsunginn frá Hólskirkju í Bolungarvík í dag, 23. september 2023, kl. 14.

Elsku pabbi minn.

Með haustinu leiðst þú á braut eftir dásamlegt sumar, þar sem þú gast farið út á skutlunni þinni nánast á hverjum degi til að fylgjast með framkvæmdum hér við höfnina, röðuninni á grjótgarðinum og útlögninni á rörunum fyrir laxinn. Þú taldir hversu margar skóflur af möl fóru um borð í prammann sem var svo losaður yfir rörin. Einnig varstu með fiskiríið hjá strandveiðinni á hreinu, hverjir náðu skammtinum og svona.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um þig en þú barst það ekki á torg, vildir hafa nóg að gera og hafa gaman af því að vera til. Eftir að þú fórst á Hjúkrunarheimilið Berg fórstu oft og tíðum með geisladiska fram til að spila fyrir heimilisfólkið yfir kvöldkaffinu og stundum tók starfsfólkið snúning með fólkinu. Þú hafðir yndi af því að syngja og allt fram á síðasta dag sungum við öll með þér, hvert með sínu nefi.

Við yljum okkur við minningarnar og þá sérstaklega hversu vel þú fylgdist með okkur öllum, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, vissir alltaf hvað hver var að gera hverju sinni. Það er svolítið skrýtið að mæta ekki niður á Berg að hitta þig og Kalla bróður daglega og hin systkinin þegar þau voru hér fyrir vestan en við munum halda hópinn áfram.

Takk fyrir allt og allt og Guð geymi þig.

Þín

Guðlaug.

Elsku afi minn.

Nú ert þú floginn á vit nýrra ævintýra og hér sit ég og rifja upp minningar um þig. Það er svo margt sem kemur upp í hugann. Ævintýraleikirnir úti í garði hjá þér og uppi á lofti að skoða krabbana og fleiri fjársjóði, að spila á hljómborðið og að fá að leika sér í lúgunni inni í eldhúsi. Mikið er ég heppin og þakklát að hafa átt þig að.

Á síðustu árum töluðum við meira saman um lífið og tilveruna. Þegar ég hafði áhyggjur af því að ég væri of gömul til að fara í skóla aftur þá sagðir þú mér að hafa ekki áhyggjur því ég væri ekki orðin gömul fyrr en eftir áttrætt. Þetta eitt og sér er einn dýrmætasti lærdómurinn og nokkuð sem ég mun aldrei gleyma og hef
reynt að tileinka mér síðan þá, lífið er jú víst núna.

Við töluðum líka um gömlu tímana og lífið hjá ykkur ömmu en það var oft erfitt að fá þig til að tala um hana, of sárt, en að heyra það hvernig þið kynntust og svo hvernig leiðir ykkar skildi þegar amma dó eru dýrmætar minningar. Amma var ástin í þínu lífi og sú ást virðist ekkert hafa minnkað með árunum þótt hún hafi kvatt alltof snemma. Talandi um ástina þá hafðir þú svolitlar áhyggjur af ástamálunum mínum. Þannig ræddum við um ástina, þú spurðir mig hvernig gengi og ég þig til baka og alltaf svaraðir þú hreinskilnislega. Þannig vissir þú alltaf hvað var í gangi hjá mér, hvort sem er í mínum persónulegu málum eða vinnutengdum, þú vildir vita hvernig gengi allt fram til síðasta dags.

Þú varst alltaf ákveðinn og sjálfum þér trúr og á sama tíma alltaf blíður og þolinmóður við mig. Að sjá þig byrja að njóta lífsins eftir að þú hættir á sjónum var gott fordæmi fyrir okkur sem yngri erum. Það að muna að njóta og vera til og að við erum aldrei of gömul til að gera það sem okkur langar er lærdómur sem ég lærði hjá þér. Í einu af okkar síðustu samtölum töluðum við um dauðann sem þú hræddist ekki en þú sagðir að þig langaði að lifa þar til þú dæir.

Elsku afi minn, ég mun sakna samverustundanna okkar en á sama tíma er ég glöð að þú hafir fengið frið. Ég elska þig afi og mun alltaf sakna þín. Takk fyrir að vera afi minn og fyrir allt sem þú kenndir mér.

Þín

Hrefna Sylvía.