Sigurveig Káradóttir og Anna María Sigurðardóttir bjóða upp á alls kyns góðgæti í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Sigurveig Káradóttir og Anna María Sigurðardóttir bjóða upp á alls kyns góðgæti í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurveig Káradóttir og Anna María Sigurðardóttir reka saman kaffihús í Safnahúsinu við Hverfisgötu. „Við erum búnar að þekkjast lengi og höfum verið að vinna saman síðustu þrjú ár eða svo. Við gerðum veitingar fyrir átta kaffihús, komum með…

Sigurveig Káradóttir og Anna María Sigurðardóttir reka saman kaffihús í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

„Við erum búnar að þekkjast lengi og höfum verið að vinna saman síðustu þrjú ár eða svo. Við gerðum veitingar fyrir átta kaffihús, komum með skonsur fyrir Te og kaffi og síðan hef ég auðvitað alltaf verið að baka hina einu sönnu hafraklatta undir merkjum Matarkistunnar og við munum halda áfram með þá. Í vor var haft samband við okkur og í kjölfarið ákváðum við að láta slag standa og koma hingað,“ segir Sigurveig. „Þetta er mjög gaman, eins og að vinna í höll því húsið er alveg einstaklega fallegt og hefur mikinn sjarma.“

Kaffistofan, sem er bæði falleg og hlýleg eins og annað í þessu sögufræga húsi, er opin frá 10-17, á sama tíma og safnið. „Kúnnahópurinn er mjög góður, hingað kemur alls konar fólk, mest Íslendingar en líka erlendir ferðamenn. Við erum í klassískri evrópskri matargerð. Fá en góð hráefni og hugmyndaflug og kunnátta er allt sem þarf. Við erum með fisk dagsins í hádeginu og hér eru allaf góðar súpur á boðstólum og kökur, smurbrauð og salat og síðan mun matseðillinn þróast eins og staðurinn".

Spurð hvað sé vinsælast meðal gesta segir Sigurveig: „Fiskur dagsins, sem er aldrei vitað hvernig verður fyrr en á síðustu stundu en er alltaf góður. Möndlukakan góða hefur slegið í gegn, sömuleiðis pekanpæið og sítrónusandkakan þykir alltaf góð. Matarmiklu súpurnar, með heimalöguðum brauðteningum sem ég bý til úr skonsum, njóta mikilla vinsælda“

Anna María er spurð hvaða rétt hún myndi velja sér af matseðlinum ef hún mætti einungis velja einn. „Ég elska skonsurnar. Þær eru hversdagslegur matur en það er samt hægt að klúðra þeim. Sigurveig klúðrar engu, hún er göldrótt í matreiðslunni.“

Stutt er síðan kaffihúsið var opnað en aðsókn hefur verið mjög góð. „Hún hefur verið framar mínum vonum,“ segir Anna María. „Ég er raunsæ og veit að það tekur tíma að hasla sér völl í veitingabransanum, yfirleitt hálft ár til ár. Allir sem hingað hafa komið hafa verið ánægðir og það skiptir máli. Fólk kemur aftur.

Það er alltaf þægileg stemning hérna. Fólk kemur til að spjalla saman í rólegheitum. Maður vill að viðskiptavininum líði vel þegar hann gengur inn og ekkert stress sé í gangi og hér er það þannig.

„Við erum nýbúnar að opna og erum að þreifa okkur áfram. Ég á eftir að kaupa plöntur og gera eitthvað meira,“ segir Sigurveig. Hún segir þær Önnu Maríu vera með alls kyns hugmyndir. „Við stefnum að því að fá vínveitingaleyfi fljótlega. Við erum að baka eitt og annað og getum létt fólki lífið. Það er hægt að hringja og koma og ná sér í eftirrétti og kökur. Fyrir jólin gerum við kannski fallegar jólakörfur sem fólk getur keypt fyrir sig eða til gjafa.“

„Það eru forréttindi að fá að vera í þessu fallega húsi sem á sér langa og merkilega sögu,“ segir Anna María. Hún segir ástæðu til að vekja athygli á sýningu sem stendur yfir í húsinu, Viðnám, sem er sýning fyrir börn á öllum aldri, þar sem samspil myndlistar og vísinda er í brennidepli. Á sýningunni eru verk eftir marga fremstu listamenn þjóðarinnar fyrr og síðar. Sýning sem ætti að gleðja alla, bæði börn og þá sem hafa verið svo lánsamir að varðveita barnið í sér. Sýningin stendur til ársins 2028 þannig að enginn ætti að þurfa að missa af henni.