Veðrið Veðurstofa Íslands hefur áhuga á að komast í gögn fólks sem fylgist náið með veðrinu frá degi til dags til að fá skýrari mynd af veðrinu.
Veðrið Veðurstofa Íslands hefur áhuga á að komast í gögn fólks sem fylgist náið með veðrinu frá degi til dags til að fá skýrari mynd af veðrinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Myndavélatækni mun að öllum líkindum ryðja sér enn frekar rúms til að rýna í veðurfar landsmanna sem er nú til skoðunar hjá Veðurstofunni. Fólk sem sinnir veðurþjónustu í Reykjavík mun rýna í það sem vefmyndavélarnar víða um landið fanga hverju sinni

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Myndavélatækni mun að öllum líkindum ryðja sér enn frekar rúms til að rýna í veðurfar landsmanna sem er nú til skoðunar hjá Veðurstofunni. Fólk sem sinnir veðurþjónustu í Reykjavík mun rýna í það sem vefmyndavélarnar víða um landið fanga hverju sinni. „Svo lengi sem það er gott skyggni og hægt að taka veður,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugunar- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands.

Mikilvægir staðir vaktaðir

Mönnuðum veðurathugunarstöðvum mun fækka verulega á næstu árum eins og hefur komið fram í umfjöllun Morgunblaðsins. Æ fleiri eru orðnir sínir eigin veðurathugunarmenn og hafa komið sér upp tækjabúnaði til þess og Veðurstofan sér tækifæri í að nýta sér það. „Það hefur gerst víða úti í heimi og við höfum haft mikinn áhuga á að komast yfir þessi gögn,“ segir framkvæmdastjórinn enda veðurfar oft staðbundið. „Veðurmælakerfið sem Veðurstofan mun reka í framtíðinni verður kannski ekki mjög víðfeðmt. Við munum fylla það upp með áhugasömu fólki sem vill deila gögnum sem geta nýst, bæði við líkanagerð og til þess að fylgjast með veðri á mikilvægum stöðum.“

Til stendur að byggja upp veðursjár sem mæla úrkomu enda hefur votviðri reynst varasamt í seinni tíð, ekki síst vegna aurflóða sem geta valdið miklu tjóni í byggð. „Mannaðar úrkomumælingar eru þær sem munu lifa hvað lengst.“ Sífellt fleiri mælikvarðar eru notaðir til að meta áhrif veðurs. „Það eru að koma inn ný mæligildi eins og jarðvegsraki, laufgræna og svo framvegis út af skógareldum.“ Veðurtungl gegna einnig sífellt mikilvægara hlutverki.

„Almennt eru mælingar á veðri að aukast en það er ekki nóg að mæla, það þarf að vinna úr gögnunum og fá afurðir úr þeim. Að fá gögnin til að segja okkur eitthvað.“

Áherslurnar breytast hratt með tækniframþróun og sífellt betri vefmyndvélum til að fá skýrari mynd af íslensku veðurfari. Tæknin mun ekki leysa veðurathugunarmenn alfarið af hólmi en meiri áhersla verður lögð á að vinna gögn sem er víða að finna. Meðal annars í fulllkomnum veðurmælum almennings.

Höf.: Hörður Vilberg