— AFP/Dimitar Dilkoff
Starfsmenn Louvre-listasafnsins í París fjarlægðu í vikunni málverkið „La Liberté guidant le peuple“ (Liberty leiðir fólkið) eftir Eugène Delacroix (1798-1863) úr sýningarsal þar sem verkið er á leið í yfirhalningu hjá forvörðum fram á næsta vor

Starfsmenn Louvre-listasafnsins í París fjarlægðu í vikunni málverkið „La Liberté guidant le peuple“ (Liberty leiðir fólkið) eftir Eugène Delacroix (1798-1863) úr sýningarsal þar sem verkið er á leið í yfirhalningu hjá forvörðum fram á næsta vor. Forvarslan nú á sér langan aðdraganda þar sem verkið hefur meðal annars verið myndað og skannað í bak og fyrir auk þess sem unnin hefur verið mikil greiningarvinna á striganum.

Í samtali við AFP segir Sébastien Allard, yfirmaður málverkadeildar safnsins, að forvarsla verksins sé hluti af herferð sem hrundið var af stað 2019 og nær til umfangsmikilla málverka frá 19. öld. Málverki Delacroix er ætlað að minnast Júlí-byltingarinnar 1830 þegar Karli X. konungi Frakklands var steypt af stóli. Konan í forgrunni verksins heldur á loft fána frönsku byltingarinnar, sem er þjóðfáni landsins í dag. Hún er bæði tákn frelsis og Frakklands.