Ásgeir R. Helgason
Ásgeir R. Helgason
Við dæmum ekki forrit til ábyrgðar þótt það hafi skelfilegar afleiðingar.

Ásgeir R. Helgason

Forrituð tjáskipti eru ekki greind og útkoman er ekki list. Forritunarferlið sjálft byggist þó á greind og er líkast til stundum listsköpun. Forrituð tjáskipti og tilfinningar geta aldrei höndlað merkingarbæran veruleika, ekki einu sinni merkingarbæra notkun á atviksorðinu „jæja“.

Á ensku er „artificial intelligence“ gjarna þýtt „gervigreind“. Upphaflega var áherslan á „artificial“ (gervi eða plat) en vísindaskáldskapur margs konar hefur náð að brengla orðskilning margra á þann hátt að greindarhugtakið fær hærri sess en því ber.

Ófyrirsjáanleiki og tilfinningatenging

Öllum er í sjálfsvald sett að skilgreina hvað þeir eiga við með hugtökunum „list“ og „greind“. Ófyrirsjáanleiki með tilfinningatengingu eru grundvallarþættir í minni skilgreiningu. Án ófyrirsjáanleika og tilfinninga er engin greind, engin list. Allt ófyrirsjáanlegt er þó að sjálfsögðu ekki list eða greind. Hægt er að forrita þannig að útkoman verði ófyrirsjáanleg, til dæmis með því að láta forritið bregðast við ytra áreiti sem forritarinn hefur ekki vald á. Útkoman er þá ófyrirsjáanleg, en ekki tengd tilfinningum eða ætlun forritara.

Mynd-, tón- og ritverk

Það er alveg sama hve flóknir forritunarferlar eru á bak við forritaða tjáningu og tjáskipti, þau verða aldrei ófyrirsjáanleg og tilfinningatengd eins og greind og list. Forrituð ritverk, tónverk og myndverk verða aldrei annað en misgóð verk, aldrei listaverk. Þótt forritunin sem slík geti verið það.

Galdrar og falsanir

Það er þó hægt að telja fólki trú um að forrituð tjáning og tjáskipti sé greind og list. Töframenn hafa frá örófi alda sérhæft sig í því að plata fólk á sannfærandi hátt. Það er ekki hægt að saga konu í sundur í kassa og setja hana saman aftur óskaddaða. Falsaður seðill er falsaður þótt ekki sé unnt að greina hann frá ófölsuðum. Það sama á við um falsað málverk og ritverk.

Góðverk og illvirki

Verk sem leiða gott eða illt af sér eru ekki góðverk eða illvirki nema sá sem framdi verknaðinn hafi haft í hyggju að láta gott eða illt af sér leiða. Illvirki eru flóknari en góðverk, þau eru framin af manneskju sem ætlar sér að gera öðrum illt, en líka af þeim sem skeyta ekki um það þótt hugsanlegt sé að afleiðingarnar skaði aðra. Slíkt skeytingarleysi er ekki ósvipað verknaði byggðum á forritaðri tjáningu og tjáskiptum. Hvað með samúðarlausar manneskjur? Er hægt að firra þær ábyrgð með sömu rökum og við firrum forritaða hugsun persónulegri ábyrgð? Við dæmum allavega ekki forrit til ábyrgðar þótt það hafi skelfilegar afleiðingar.

Læknir og sálfræðingur

Forrituð tjáskipti geta gert sumt af því sem læknir og sálfræðingur getur gert, til dæmis vissar skráningar, staðreyndastagl og greiningar. Forrit eiga þannig líklega eftir að greina hismið frá kjarnanum og kristalla það sem gerir manneskju að lækni og sálfræðingi. Hins vegar er alveg ljóst að læknar og sálfræðingar sem hægt er að skipta út fyrir forrit eiga það skilið að þeim sé skipt út fyrir forrit.

Höfundur er dósent í sálfræði og doktor í krabbameinsvísindum.