Þrívíddarskönnun Dönsku sérfræðingarnir, Jørn Svendsen og Jesper Matthiasen, við störf á fimmtudag.
Þrívíddarskönnun Dönsku sérfræðingarnir, Jørn Svendsen og Jesper Matthiasen, við störf á fimmtudag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lágmynd Sigurjóns Ólafssonar, „Saltfiskstöflun“, sem stendur á reit Sjómannaskólans, er að hruni komin. Því hefur Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns og höfundarrétthafi, ásamt Styrktarsjóði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, staðið fyrir því að fá sérfræðinga til þess að þrívíddarskanna verkið

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Lágmynd Sigurjóns Ólafssonar, „Saltfiskstöflun“, sem stendur á reit Sjómannaskólans, er að hruni komin. Því hefur Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns og höfundarrétthafi, ásamt Styrktarsjóði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, staðið fyrir því að fá sérfræðinga til þess að þrívíddarskanna verkið. Er það gert með það fyrir augum að til sé afrit af verkinu þannig að einn daginn verði hægt að gera bronsafsteypu af því í fullri stærð.

Þeir sem standa að skönnuninni eru Danirnir Jørn Svendsen, bronssteypari, eigandi Skulpturstøberiet i Svendborg, og Jesper Matthiasen, sem hefur sérhæft sig í þrívíddarskönnun á safngripum og forngripum og vinnur m.a. fyrir danska þjóðminjasafnið. Skönnunin fór fram í gær og fyrradag og segir Birgitta þau hafa verið afar heppin með veður því rigning og vindur hefði gert sérfræðingunum erfitt um vik.

Þótt verkið sé í eigu íslenska ríkisins og viðhald á verkinu hafi verið á ábyrgð Reykjavíkurborgar, standa aðstandendur listamannsins straum af kostnaði við verkefnið. Heildarkostnaðurinn ef gerð yrði bronsafsteypa nemur að sögn Birgittu 50 milljónum miðað við kostnaðaráætlun frá í fyrra.

Lágmyndinni „illa viðhaldið“

Birgitta segir ástand listaverksins slæmt og því þurfi að grípa til aðgerða. „Þetta er ákveðinn menningararfur, listsögulegur arfur. Verkið er það illa farið að það er spurning um tíma hvenær það hrynur. Maður þarf ekki að vera forvörður eða sérfræðingur í steinsteypu til þess að sjá það. Formin eru eyðilögð og listrænt gildi verksins er ekki það sama og það var þegar það varð til. Þess vegna er mikilvægt að til sé afrit sem hægt er að nýta seinna ef einhver vaknar upp við vondan draum og vill eitthvað gera. En hingað til hefur ekki verið áhugi eða geta til þess.“

Birgitta segist engin svör hafa fengið frá ríki eða borg önnur en að borgin muni halda áfram að „tjasla í verkið þegar byggingarframkvæmdun er lokið þarna í kring“, en í opnu bréfi sem Birgitta birti í Morgunblaðinu í mars 2021 skoraði hún á stjórnvöld að bjarga verkinu.

Á liðnum árum hefur verið spaslað í göt og sprungur en það dugar ekki til þegar undirstaðan er að hruni komin. Indriði Níelsson, verkfræðingur hjá Verkís með sérþekkingu í steinsteypu, vann ástandsskýrslu sumarið 2021 fyrir Styrktarsjóð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Í skýrsluni segir m.a. að „lágmyndinni hefur verið illa viðhaldið og er mjög áliðið á líftíma múrsins“.

Þar kemur jafnframt fram að almennt sé miðað við að líftími steinsteypu sé 50 ár og líftími múrs almennt álitinn um 30-40 ár. „Ljóst er að hinn steypti rammi getur þjónað sínu hlutverki lengur ef gert er við hann á réttan hátt (steypuskilasprungur og yfirborð). Töluvert áliðnara er hins vegar á ástand múrsins og þarf að gera ráð fyrir því að þar sem töluvert víðtækar skemmdir eru á yfirborði múrsins að allar viðgerðir verði því miður skammlífar. Ástæðan er sú að ný skemmd er líkleg til að myndast við hlið nýrrar viðgerðar,“ segir í skýrslunni.

Birgitta vitnar að lokum í ummæli listfræðingins Jens Peter Munk sem hefur verið með umsjón allra útilistaverka í Kaupmannahöfn og tók „Saltfiskstöflun“ út fyrir nokkrum árum. Hann segir í bréfi frá 2019: „Verkið er ómissandi fyrir danska listasögu. Í breiðara menningarsögulegu samhengi, ekki síst út frá íslensku sjónarhorni, er auk þess mikilvægt að varðveita listaverk sem er vitnisburður um hefðir og atvinnusögu fyrri tíma.“

Um verkið

Saltfiskstöflun

Lágmyndina „Saltfiskstöflun“, sem er fjórir metrar á hæð og þrír á breidd, mótaði Sigurjón á sjötta námsári sínu við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn 1934-1935, þá 26 ára gamall. Myndefnið var verkakonur við saltfiskvinnslu og segir Birgitta verkið „lofgjörð til íslenskra verkakvenna“. Sigurjón mun hafa séð fyrir sér að verkið yrði sett upp á útvegg byggingar, sem tengdist fiskiðnaðinum og hafði hann í huga hús Fiskifélagsins, sem þá var í smíðum.

Lágmyndin fékk að sögn Birgittu mikla athygli vegna formdirfsku og stærðar, og hefur hún eftir einu dagblaðanna í Kaupmannahöfn að þetta muni vera stærsta lágmynd sem unnin hefði verið í Danmörku – að undanskilinni frægri lágmynd eftir danska listamanninn J.F. Willumsen.

Verkið sýndi Sigurjón fyrst á Haustsýningunni Kunstnernes Efterårsudstilling 1935. Árið eftir voru hlutar af verkinu sýndir í Kunsthallen í Árósum og síðan á haustsýningu Charlottenborgar 1937.

Sigurjóni tókst ekki að finna kaupanda fyrir verkið en sendiherra Íslands í Danmörku, Sveinn Björnsson, reyndi að vekja athygli á listaverkinu m.a. með opnu bréf í þremur íslenskum dagblöðum.

Íslenska ríkið keypti að lokum verkið árið 1946. Var það síðan steypt í steinstepu og reist sem frítt standandi lágmynd á Sjómannaskólareitnum. Verkið var afhjúpað 1. desember 1953 og hefur því staðið í 70 ár.