Á Tenerife Hjónin með dæturnar þrjár í húsinu sínu. Það er í niðurníðslu og þarfnast algjörrar endurnýjunar. Fjölskyldan gefur áhugasömum innsýn í verkefnið á instagram-reikningi Snæfríðar.
Á Tenerife Hjónin með dæturnar þrjár í húsinu sínu. Það er í niðurníðslu og þarfnast algjörrar endurnýjunar. Fjölskyldan gefur áhugasömum innsýn í verkefnið á instagram-reikningi Snæfríðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snæfríður Ingadóttir fæddist 23. september 1973. Hún er fædd og uppalin á Neðri-Brekkunni á Akureyri, þar sem hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hún á fimm systkini og er hún elst af seinna hollinu eins og hún orðar það

Snæfríður Ingadóttir fæddist 23. september 1973. Hún er fædd og uppalin á Neðri-Brekkunni á Akureyri, þar sem hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hún á fimm systkini og er hún elst af seinna hollinu eins og hún orðar það.

„Eitt það skemmtilegasta við æskuárin er að ég var send nokkur sumur í sveit á svínabú á Austurlandi, Flúðir í Hróarstungu, þar sem ég var hjá yndislegu fólki. Ég hafði strax mjög gaman af því að skrifa, semja ræður og taka ljósmyndir sem krakki og samdi ljóð og sögur við hvert tækifæri. Það var því nokkuð ljóst hvert hugurinn stefndi allt frá því ég var krakki.“

Að loknu grunnskólaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar flutti Snæfríður suður til eldri systur sinnar og hóf framhaldsnám við Fjölbraut í Ármúla. Þar var hún í tvö ár en fór síðan sem au pair til Þýskalands 18 ára.

„Ég hafði svo sem ekkert sérstaklega gaman af au-pair-starfinu í sjálfu sér en á þessum tíma voru ekki margar leiðir til að koma sér út í heim og ég kom bæði þroskaðri og altalandi á þýsku til baka. Í Fjölbraut í Ármúla hafði ég orðið ástfangin af pilti frá Austurlandi og ég flutti til Egilsstaða með honum eftir Þýskalandsdvölina. Þar með eignaðist ég afar elskulega tengdafjölskyldu sem kom mér m.a. inn á rétta braut hvað blaðamennskuna varðar og verð ég þeim ævarandi þakklát.“

Snæfríður útskrifaðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1994. Þá fór hún í nokkurra mánaða frönskunám við franskan háskóla og tók einnig ár í íslensku við Háskóla Íslands en fluttist svo til Noregs þar sem hún fór í blaðamannanám við Journalistutdanningen í Osló. „Þó fjárráðin hafi ekki verið mikil á námsárunum þá var einhvern veginn allt mögulegt. Það var svo mikil útþrá í mér á þessum tíma að ég borðaði bara hrísgrjón í tómatsósu til þess að eiga fyrir flugmiða,“ segir Snæfríður en hún og kærastinn ferðuðust m.a. um Evrópu, til Síle og Egyptalands.

Í skólafríum vann Snæfríður við símsvörun hjá Vegagerðinni á Akureyri og á hótelum fyrir austan en þegar námi lauk í Noregi skildi fljótlega leiðir hjá parinu og Snæfríður flutti til Íslands og fór að vinna við hina ýmsu fjölmiðla.

„Skemmtilegasti fjölmiðill sem ég hef unnið á var DV. Þá var DV enn í Skipholtinu og margt frábært fólk að vinna þar. Ég lærði gríðarlega mikið af Gunnari Smára sem þá stýrði blaðinu Fókus, hann kenndi mér að fylla auðar síður þótt ekkert væri í fréttum. Þá lærði ég einnig mikið af Gerði Kristnýju varðandi vönduð vinnubrögð en ég fór til hennar á Mannlíf í nokkra mánuði.“

Snæfríður segist hafa verið lánsöm á sínum starfsferli og fengið að prófa alls konar hluti innan fjölmiðlageirans en hún hefur unnið bæði í útvarpi, sjónvarpi og við prentmiðla, m.a. hjá Bylgjunni, Rás 2, Rúv, Skjá einum og Morgunblaðinu. Undanfarin ár hefur hún þó verið sjálfstætt starfandi og fengist að mestu við fyrirlestrahald og bókaskrif. Hún hefur t.d. skrifað handbækur um búsetu á Spáni og íbúðaskipti og ferðahandbækur um Costa Blanca-svæðið, Gran Canaria og Tenerife.

„Mín stærsta gæfa í lífinu var þegar ég kynntist eiginmanni mínum árið 2006 en við vorum gift innan árs og eignuðumst dætur okkar þrjár næstu fimm árin. Við höfum staðið í alls konar brasi á þessum árum okkar saman, enda bæði hvatvís og trúum á að ef það er vilji þá sé vegur. Við bjuggum fyrstu árin okkar í Reykjavík en fluttum til Akureyrar eftir hrunið 2008. Þar búum við á besta stað í bænum, rétt við sundlaugina, og höfum við verið að byggja upp lítið fasteignafélag.

Undanfarin 10 ár höfum við verið með annan fótinn á kanarísku eyjunum í gegnum íbúðaskipti. Ég reikna með því að þegar dætur okkar verða eldri og þurfa ekki eins mikið á okkur að halda verjum við enn meiri tíma hér í sólinni. Stundum finnst mér ég nefnilega hafa fæðst á rangri eyju því lífstakturinn hér á einstaklega vel við mig.

Við fjölskyldan erum búsett á Tenerife um þessar mundir og afmælisdeginum mun ég verja í góðra vina hópi á ströndinni. Eiginmaðurinn hafði lofað því að við myndum kaupa okkur hús hér á eyjunni þegar ég yrði fimmtug. Við það var staðið og við erum nýorðin húseigendur hér á Tenerife að húsi sem þarfnast algjörrar endurnýjunar. Það er stóra verkefni vetrarins, ja, og næstu ára.“

Fjölskylda

Eiginmaður Snæfríðar er Matthías Kristjánsson, f. 6.6. 1977, fæddur og uppalinn í Breiðholtinu, húsasmíðameistari. Þau hafa síðan 2011 verið búsett á Akureyri. Þau gengu í hjónaband 16.6. 2007 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Foreldrar Matthíasar eru hjónin Margrét Ólöf Björnsdóttir, f. 31.12. 1945, menntaskólakennari, og Kristján Þór Haraldsson, f. 7.8. 1943, byggingaverkfræingur. Þau eru búsett í Reykjavík.

Dætur Snæfríðar og Matthíasar eru Ragnheiður Inga, f. 20.3. 2008; Margrét Sóley, f. 23.8. 2009, og Bryndís Brá, f. 1.6. 2013.

Systkini Snæfríðar eru Aðalheiður Ingadóttir, f. 9.1. 1959, búsett á Akureyri; Björg Ingadóttir, f. 8.2. 1963, búsett í Reykjavík; Óttar Ingason, f. 19.10. 1966, búsettur á Akureyri; Svanlaug Ingadóttir, f. 31.1. 1975, búsett í Reykjavík, og Helga Ingadóttir, f. 24.5. 1978, búsett á Akureyri.

Foreldrar Snæfríðar eru hjónin Ingi Ragnar Sigurbjörnsson, f. 7.11. 1935, fv. verkstjóri, og Margrét Ingólfsdóttir, f. 21.8. 1937, fv. dagmóðir. Þau búa á Akureyri.