Kristján Baldursson
Kristján Baldursson
Það er víðtæk samstaða um að vernda helstu náttúruperlur landsins. Verðmætin í ósnortinni náttúru eru ómetanleg.

Kristján Baldursson

Morgunblaðið birti viðtal við oddvita Rangárþings ytra, Eggert Val Guðmundsson, 19. september sl. Viðtalið var vegna þess að forsætisráðuneytið stöðvaði framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Rangárþings ytra um stækkun bílastæðis í Landmannalaugum. Fyrirsögn: „Frestun vegna kæru setur framkvæmdir í uppnám“.

Þetta er athyglisverð umfjöllun um þetta málefni, sem vert er að gefa gaum. Eggert Valur segir meðal annars: „Við rekumst alls staðar á veggi, þrýstihópar hafa óeðlilega mikil áhrif,“ og klykkir svo út með að segja: „Best að hætta þessu brölti og spara sveitarfélaginu 40 milljónir.“

Ef við skoðum fyrst yfirlýsinguna „við rekumst alls staðar á veggi“. Af henni má draga þá ályktun að ekki hafi að öllu leyti verið auðvelt að komast að þessari niðurstöðu. Að það þurfi nauðsynlega að stækka bílastæðið í Landmannalaugum og væntanlega verið margar skoðanir á því máli og margir sem ekki voru fylgjandi þessari miklu röskun á friðlandinu. Sem betur fer eru mjög margir Íslendingar fylgjandi náttúruvernd og sjá hættuna í því að auðvelda um of aðgengi að náttúruperlum á hálendinu, sem eykur áníðslu og álag á viðkvæmum svæðum. Svo er þetta líka þjóðlenda eða friðland sem auðvitað á að taka mikið tillit til.

Svo yfirlýsingin „þrýstihópar hafa óeðlilega mikil áhrif“. Þetta er athyglisverð fullyrðing. Er eitthvað óeðlilegt við að vilja berjast fyrir náttúruvernd? Ef hér er átt við þrýstihóp um náttúruvernd þá finnst mér mjög jákvætt að tekið hefur verið tillit til þeirra sjónarmiða af forsætisráðuneytinu, sem hefur síðasta orðið um framkvæmdir á þjóðlendum.

Síðan kemur yfirlýsingin „best að hætta þessu brölti“. Já, það væri sannarlega best að hætta algerlega við risaframkvæmdir á friðlandinu í Landmannalaugum.

Öllu valdi fylgir ábyrgð. Rangárþing ytra hefur sem sveitarfélag skipulagsvald í Landmannalaugum, en svona mál eiga ekki bara að vera einkamál eins fámenns sveitarfélags heldur allrar þjóðarinnar. Það er víðtæk samstaða um að vernda helstu náttúruperlur landsins. Verðmætin í ósnortinni náttúru eru ómetanleg.

Höfundur er tæknifræðingur og eldri borgari.

Höf.: Kristján Baldursson