Samkeppniseftirlitið Það hefur gustað um Samkeppniseftirlitið undanfarið, eftir úrskurð um að athugun á sjávarútvegsfyrirtækjum væri ólögmæt.
Samkeppniseftirlitið Það hefur gustað um Samkeppniseftirlitið undanfarið, eftir úrskurð um að athugun á sjávarútvegsfyrirtækjum væri ólögmæt. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins er grunnforsenda þess að stofnunin njóti trausts og geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki. Það er því mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til að stofnunin geti endurheimt traust í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.“

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins er grunnforsenda þess að stofnunin njóti trausts og geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki. Það er því mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til að stofnunin geti endurheimt traust í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.“

Þetta segja Samtök atvinnulífsins, SA, á heimasíðu sinni í tilefni þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt þann úrskurð að lög geri ekki ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið, SKE, geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra um einstaka athuganir. Slíkt samrýmist ekki hlutverki SKE sem sjálfstæðs stjórnvalds. Þessi var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í máli Brims gegn SKE sem felldi úr gildi ákvörðun eftirlitsins um að beita Brim dagsektum til að knýja á um að fyrirtækið afhenti gögn vegna rannsóknar sem SKE tók að sér fyrir matvælaráðuneytið og varðar stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi.

Segir SA að það orki tvímælis að stofnunin hyggist halda ótrauð áfram með sömu athugun og hún var gerð afturreka með af áfrýjunarnefnd samkeppnismála, þar sem samningur um athugunina samræmdist ekki hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem sjálfstæðs stjórnvalds. Bendir SA á að miðlun upplýsinga innan stjórnsýslunnar verði að eiga sér traustan lagagrundvöll. Einnig verði eftirlitsstjórnvöld eins og SKE, sem njóti víðtækra úrræða til upplýsinga- og gagnaöflunar, að gæta meðalhófs.

Eins og frá var greint í Morgunblaðinu í gær hefur sjávarútvegsfyrirtækið G. Run. krafist þess að fá til baka öll þau gögn sem fyrirtækið afhenti SKE vegna fyrrgreindrar athugunar. Í samtali við blaðið segist Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri G. Run. engin viðbrögð hafa fengið frá SKE við kröfunni, ekki hafi einu sinni borist staðfesting á móttöku bréfsins sem þó hafi verið óskað eftir.

Fleiri sjávarútvegsfyrirtæki eru að hugsa sér til hreyfings í málinu. Þannig segist Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur, vera að skoða þessi mál með það í huga að krefjast þess að gögn frá fyrirtækinu verði endursend. „Það liggur fyrir að rannsóknin er ólögmæt, þannig að þeir eru með ólögmæt gögn og kemur á óvart að þeir séu ekki búnir að afhenda þau nú þegar,“ segir Runólfur Viðar.

Ekki náðist í Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins við vinnslu fréttarinnar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson