Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Dágott hald í honum tel. Hentugur í skjólföt er. Flestum bragðast fjarska vel. Fimur í vatni leikur sér. Þórunn Erla á Skaganum svarar og segir: Í laugardags-slagveðrinu hér á Skaganum, sem gæti…

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Dágott hald í honum tel.

Hentugur í skjólföt er.

Flestum bragðast fjarska vel.

Fimur í vatni leikur sér.

Þórunn Erla á Skaganum svarar og segir: Í laugardags-slagveðrinu hér á Skaganum, sem gæti kallast einhvers konar „bjórveður“, varð lausnin svona:

Styrkur í stafnþili bjórinn er.

Í skinnklæði bjórinn vænstan tel.

Bunandi bjórinn um kverkar fer.

Bjórinn í straumvatni fimur vel.

Harpa á Hjarðarfelli leysir gátuna:

Það er hald í þessum bjór.

Þá er skinnið bjór.

Margir kunna að meta bjór.

Mjög vel syndir bjór.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Hið besta efni bjór ég tel.

Bjór í skjólföt henta þér.

Bjórinn flestum bragðast vel.

Bjór í vatni leikur sér.

Þá er limra:

Í bjórinn blandaði skudda,

því blaut úr hófi var Gudda,

og koníakk

á knæpu drakk,

og giftist Grími í sudda.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Veðrahrollur í mér er,

aldan brýtur fald við sker,

á laugardegi létt frá mér

lítil gáta birtist hér:

Í íslenskunni fjögur fann.

Fljótsins straumur vera kann.

Kennt við lykkju klúðrið er.

Kindarskrokkur leynist hér.

Lausn Þórunnar Erlu á Skaganum fylgdi limran Smá óður til haustsins:

Úr suðrinu lægðirnar læðast að,

lemjandi fast á glugga og hlað.

Öll þessi læti

og laufblaðakæti,

við ljúflega meðtökum, nema hvað!

Happy ending eftir Jónas Árnason:

Á allan hátt andstyggð var Nóra,

og hún ofsótti mann sinn hann Dóra.

Svo að endingu 'ún dó

og gekk aftur og bjó

síðan alsæl með Írafells-Móra.

Gömul vísa

Seggjum vil ég þar segja frá

og svinnum lýða dróttum:

hann lemur á dögum lauka ná

en liggur hjá henni á nóttum.