Fjölbreytni Hátíðin hefst með krakkabarokki í Fella- og Hólakirkju og lýkur með flutningi á mótettusafni í Kristskirkju í Landakoti 3. október.
Fjölbreytni Hátíðin hefst með krakkabarokki í Fella- og Hólakirkju og lýkur með flutningi á mótettusafni í Kristskirkju í Landakoti 3. október.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir tónlistarhátíðinni Kona – Forntónlistarhátíð 2023 sem hefst í dag og stendur til 3. október. „Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á tónsmíðum fornra kventónskálda og stuðla að því að…

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir tónlistarhátíðinni Kona – Forntónlistarhátíð 2023 sem hefst í dag og stendur til 3. október. „Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á tónsmíðum fornra kventónskálda og stuðla að því að tónverk þeirra verði flutt jafnhliða tónlist eftir kunnari meistara sígildrar tónlistar. Einnig er hátíðinni ætlað að vekja athygli á upprunaflutningi fornrar tónlistar og á íslenskum tónlistarararfi,“ segir í tilkynningu. Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum er hátíðin nú haldin í þriðja skiptið, en að þessu sinni verða verk eftir tónskáldin Lucretiu Vizzana, Isabellu Leonarda og Elisabethu de la Guerre í forgrunni.

Hátíðin hefst á morgun, sunnudag, kl. 15 með tónleikum sem nefnast Krakkabarokk og haldnir eru í Fella- og Hólakirkju. Þar kemur ReykjavíkBarokk fram með Kór Hólabrekkuskóla, fiðlunemendum úr Tónskóla Sigursveins og Fellaskóla, blokkflautunemendum úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og einsöngvurunum Ástu Sigríði Arnardóttur sópran og Ólafi Þórarinssyni drengjasópran. Flutt verður fjölbreytt efnisskrá tónlistar frá barokktímanum í bland við íslensk kvæðalög.

Á morgun kl. 17 á sama stað sér Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk um tónlistarflutning í barokkmessu. Með hópnum koma fram Ásta Sigríður sópran og Ólafur drengjasópran. Flutt verða verk eftir Isabellu Leonarda, Lucretiu Vizzana og Georg F. Händel.

Þriðjudagskvöldið 3. október kl. 20 í Kristskirkju í Landakoti flytur Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk í heild sinni mótettusafnið „Componimenti Musicali“ eftir ítölsku nunnuna Lucretiu Vizzana. Með hópnum koma fram Sigurður Halldórsson sellóleikari, Ásta Sigríður sópran og Lilja Dögg Gunnarsdóttir alt. „Mótettusafnið er einstakt í tónlistarsögunni. Það var gefið út í Feneyjum fyrir 400 árum og er eitt fárra verka sem varðveist hefur eftir þær fjölmörgu konur sem léku og sömdu tónlist innan ítalskra klausturmúra á 17. öld.“