Páll Pálmar Daníelsson
Páll Pálmar Daníelsson
Þegar ráðherra í flokki forsætisráðherra gengur fram á þennan hátt er grafið undan stjórnarforystunni.

Páll Pálmar Daníelsson

„Hvern dag sem líður af kjörtímabilinu eru stjórnmálamenn og aðrir minntir á að þeir eru á ótroðnum pólitískum slóðum, þriggja flokka stjórn hefur aldrei áður lifað [af] samstarf í heilt kjörtímabil og síðan farið inn í nýtt.“

Þetta kallar maður áríðandi ábendingu um núverandi stjórnmálaástand á Íslandi í einni mergjaðri setningu sem fáir aðrir en Björn Bjarnason, forsætisráðherrasonurinn, hefðu getað sent frá sér. Fyrrverandi blaðamaður sem heldur til haga staðreyndum og hefur jafnan fyrir því að láta nákvæmar dagsetningar fylgja gagnlegum og yfirgripsmiklum greinum sínum. Sannorðum.

Björn varð fyrstur íslenskra þingmanna til að koma sér upp heimasíðu á alnetinu ef mér skjátlast ekki (bjorn.is) og ugglaust hefur hann verið í hópi þeirra fyrstu er birtust á blog.is sem Morgunblaðið á heiðurinn af og enn halda athygli áratugum síðar.

Þannig er næsta tilvitnun í nestorinn einnig á blog.is: „Þegar ráðherra í flokki forsætisráðherra gengur fram á þennan hátt er grafið undan stjórnarforystunni. Nú hefur þingflokksbróðir Svandísar síðan gagnrýnt hana fyrir afstöðu hennar til strandveiða.“

Spurningin sem blasir við sýnist vera: Ætlar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að halda hlífiskildi yfir tveimur vanhæfum ráðherrum í ríkisstjórn sinni? Gleymum ekki félags- og atvinnumálaráðherranum sem enn hefur ekki komið upp bráðabirgðahúsnæði fyrir alla hælisleitendurna sem streymt hafa til landsins undanfarin misseri og yfirfyllt húsnæðismarkaðinn svo til stórvandræða horfir.

Björn Bjarnason sem slíkur myndi seint varpa fram svona óformlegri spurningu, til þess er hann of vandaður maður og menntaður. En hún brennur á sumum sjálfstæðismönnum sem margir hverjir eru að gefast upp á að styðja þessi ósköp. Óraunsæið sem hrjáir vinstrisinnaða fólkið á ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálaflokki sem hefur að leiðarljósi sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi einstaklinganna til framtaks og verðmætasköpunar.

Verst að þetta blessaða sósíalíska fólk er ekki líklegt til að lesa þessar tímabæru greinar – en vonandi á það ættingja sem það treystir og ekki hefur verið innrætt að hætti kommúnista og koma kannski fyrir það vitinu með beinum tilvitnunum í þessi beinskeyttu skrif Björns.

Höfundur er leigubílstjóri.