Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Ég er þess þó fullviss að alltaf megi upplifa eitthvað gott, hamingju og gleði, jafnvel í gegnum hinar óásættanlegustu þjáningar og staðreyndir.

Sigurbjörn Þorkelsson

Við hljótum að þekkja það öll sem einhvern tíma eða jafnvel daglega þurfum að takast á við einhvers konar áskoranir að ég tali nú ekki um erfiðleika eða mótdrægni á ævinnar vegi að óboðnir kynlegir kvistir og kynstrin öll af dulúð, dimmu og doða læðast aftan að okkur og toga í okkur og reyna að fylla okkur af ranghugmyndum svo við villumst jafnvel tímabundið af leið. Og spyrjum: Af hverju? Af hverju ég?

Þá getur verið gott að staldra við og setjast niður til þess að virða andstæður þanka sinna fyrir sér á meðan þeir eins og renna hjá niður straumhart fljótið. Því í okkur togast ætíð á betri helmingurinn og sá verri.

Guð gefi að betri helmingurinn nái ætíð yfirhöndinni og gefi okkur þá yfirsýn sem við þurfum og nauðsynleg er til að halda áfram. Að við lærum af mistökum okkar og ekki síður því sem við fáum ekki breytt. Veðrumst og þroskumst, jafnvel þótt það geti verið erfitt og tekið á og jafnvel þótt við sjáum ekki endilega svo glöggt í gegnum skaflana sem oft virðast eins og komnir til að vera.

Óendanlega dýrmæt

Ég er þess þó fullviss að alltaf megi upplifa eitthvað gott, hamingju og gleði, jafnvel í gegnum hinar óásættanlegustu þjáningar og staðreyndir. Og ég reyndar trúi því að sá dagur muni um síðir renna upp að við komumst í gegnum móðu og mistur og upp á fjallið sem oft virðist eitthvað í svo miklum fjarska. Með þolinmæði og þolgæði og velvilja þeirra sem í kringum okkur eru og vilja okkur vel verðum við raunverulega borin á kærleikans bænarörmum. Sá dagur mun renna upp fyrir okkur sem morgunroði og við okkur skína og aldrei dvína.

Og það er þá fyrst sem við munum sjá, skynja og skilja hve agnarsmá við í rauninni erum í samhengi sköpunarsögunnar. Rétt eins og sandkorn á strönd. En þó óendanlega dýrmæt í augum skaparans og frelsarans, höfundar og fullkomnara lífsins.

Þegar sú vitneskja og staðreynd mun loksins ná í gegn munum við fyrst ná að meðtaka og hvíla fullkomlega í því hve kærleikur Guðs er í rauninni vel heppnaður og fullkominn, djúpur, víður og hár. Án hans, án þín, Jesús Kristur, mun ég ekki komast af. Án þín, lífsins gjafari og ljós. Án þín sem ert lífið sjálft sem vara mun að eilífu og þú hefur gefið okkur með þér.

Þótt leiðin geti legið í gegnum kulda og trekk og jafnvel þótt dauðinn taki mál af okkur og taki að anda ofan í hálsmálið á okkur eða narta í hælana á okkur, þá mun kærleikur þinn, lífið sjálft, alltaf hafa sigur að lokum.

Án þíns mikla lífgefandi vatns og ljóss og eilífðar dýrðarljóma sem gnæfir yfir allt og er ofar öllu mun sigur hafast í öllum aðstæðum að lokum. Jafnvel þótt okkur finnist oft að um síðir kunni að vera. Að hann sé eitthvað svo órafjarlægur. Þá er hann samt einnig eitthvað svo ósegjanlega allt að því áþreifanlega nálægur okkur, öllum stundum.

Í þeim kærleika, von og trú megum við hvíla. Og þá verður allt eitthvað svo miklu bjartara og betra, þrátt fyrir allt og allt.

Takk fyrir driffjaðrir lífsins, trúna, vonina og kærleikann.

Með þakklæti og kærleikskveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.