Evrópa Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, ræðir við leikmenn sína. Fram undan er erfitt verkefni í Evrópudeildinni gegn sterku rúmensku liði.
Evrópa Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, ræðir við leikmenn sína. Fram undan er erfitt verkefni í Evrópudeildinni gegn sterku rúmensku liði. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna fá rúmenska stórliðið Dunarea Braila í heimsókn á Hlíðarenda í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á morgun. „Þetta leggst gríðarlega vel í okkur, það er alveg klárt mál

Evrópudeildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna fá rúmenska stórliðið Dunarea Braila í heimsókn á Hlíðarenda í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á morgun.

„Þetta leggst gríðarlega vel í okkur, það er alveg klárt mál. Við erum auðvitað meðvituð um það að það er ekki á hverjum degi sem kvennalið á Íslandi er að taka þátt í Evrópudeildinni, sem er sterkasta Evrópukeppnin.

Við erum að stíga stór skref þar. Við erum að mæta gríðarlega sterku og vel mönnuðu atvinnumannaliði, einu besta liðinu í Rúmeníu, þannig að við vitum það að verkefnið er stórt og krefjandi.

Um leið er það mjög spennandi. Allir leikmenn og við öll erum mjög spennt fyrir því,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, í samtali við Morgunblaðið.

Fjöldi öflugra landsliðsmanna

Um lið Dunarea Braila hafði Ágúst Þór þetta að segja:

„Þetta er lið sem situr í fjórða sæti rúmensku deildarinnar eins og er. Þær voru að skipta um þjálfara núna. Þær eru búnar að vinna tvo leiki, gera eitt jafntefli og tapa einum leik.

Þær ráku þjálfarann eftir tapleikinn og voru að fá inn danskan þjálfara. Þetta er mjög alþjóðlegt lið. Þær eru með leikmenn frá Rúmeníu, Rússlandi, Brasilíu, Þýskalandi, Angóla, Króatíu, Hvíta-Rússlandi, Serbíu og Spáni.

Þær eru með fjórtán landsliðskonur. Þær eru til dæmis með feikilega öflugan miðjumann, serbneska landsliðskonu, sem er gríðarlega öflugur leikstjórnandi.

Svo eru þær með gríðarlega öfluga örvhenta skyttu hægra megin, sem er í spænska landsliðinu, og rússneskan landsliðsmarkvörð, sem er gríðarlega öflug. Við erum að fara að mæta frábæru liði sem verður skemmtilegt fyrir okkur að mæla okkur við.“

Þurfum hagstæð úrslit heima

Síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu um næstu helgi og hlýtur sigurvegari einvígisins sæti í 3. umferð undankeppninnar, sem er jafnframt lokaumferð undankeppninnar fyrir riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

„Við spilum núna fyrst heimaleikinn og auðvitað þurfum við að reyna að stefna að því að koma þeim aðeins á óvart, spila kröftugan og góðan varnarleik og ná að keyra svolítið vel á þær.

Til þess að eiga möguleika á að fara áfram þurfum við auðvitað að ná í hagstæð úrslit hérna heima. Það segir sig sjálft að við þurfum að fá góðan stuðning áhorfenda,“ sagði hann og lofaði glæsilegri umgjörð á Hlíðarenda.

Hvetjum alla til að mæta

„Umgjörðin verður fyrsta flokks á Hlíðarenda á sunnudaginn [á morgun]. Við auðvitað hvetjum alla til þess að mæta.

Fyrir unga og efnilega handboltakrakka er þetta líka gríðarlega gaman að koma og sjá jafn stór nöfn og þau sem eru að mæta hérna, landsliðskonur úr hinum ýmsu landsliðum.

Þetta getur orðið virkilega gaman, að koma og sjá Valsstelpurnar kljást við þetta sterka lið,“ sagði Ágúst Þór að lokum í samtali við Morgunblaðið, en viðureign liðanna hefst á Hlíðarenda klukkan 17 á morgun, sunnudag.