Börn á leið í skóla. Skólakerfið hefur að hluta tekið á sig að ala börn upp og þar virðist ekki alltaf vinsælt að foreldrar hafi skoðanir á námsefni.
Börn á leið í skóla. Skólakerfið hefur að hluta tekið á sig að ala börn upp og þar virðist ekki alltaf vinsælt að foreldrar hafi skoðanir á námsefni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af hverju er talið svona brýnt að þagga niður í foreldrum sem koma með sjálfsagðar athugasemdir?

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það hljómar eins og fáránlegasta tímaskekkja að árið 2023 skuli samkynhneigðir þurfa að þola fordóma og hatur og það jafnvel frá ungu fólki sem á að hafa alist upp í frjálslyndu nútímaþjóðfélagi. Stundum er frjálslyndið einungis á yfirborðinu.

Hér áður fyrr var jafnvel sett samasemmerki á milli homma og barnaníðinga en fátt var talað um lesbíur því almenningsálitið hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda sér ástir kvenna á milli. Maður skyldi ætla að nú væru breyttir tímar en hatursorðræðan finnur sér auðveldlega farveg. Gagnkynhneigður kunningi pistlahöfundar var fyrir nokkru á gangi um götur bæjarins í litríkum klæðnaði. Ungur piltur rak höfuðið út um bílglugga og hóf að gelta að honum, taldi hann greinilega samkynhneigðan. Kunningjanum var brugðið, hann hafði talið að sögur um gelt að samkynhneigðum væru mjög orðum auknar, en varð skyndilega fórnarlamb þessa, sigtaður út vegna óhefðbundins klæðaburðar.

Í skólum landsins er nauðsynlegt að fjalla um margbreytileikann, en eitt það mikilvægasta í þessum heimi er einmitt frelsi einstaklingsins til að fá að vera hann sjálfur. Vitaskuld á kynfræðsla einnig að vera á námskrá grunnskóla. Alls kyns fjölskyldumynstur eru í gangi. Sumir nemendur búa við hefðbundið fjölskyldumynstur og þar eru pabbi og mamma. Svo eru sumir sem eiga tvær mömmur eða tvo pabba. Það eru líka önnur dæmi í okkar raunveruleika, eins og pabbi sem allt í einu breytir sér í konu, en á samt enn sína konu og tvær ungar dætur. Mjög óhefðbundið og kann einmitt að leiða auðveldlega til fordóma, haturs og heiftar umhverfisins. Hinar ungu dætur gætu orðið að þola andstyggilegar glósur frá skólafélögum og öðrum vegna pabbans sem varð allt í einu að transkonu. Transkonan á einnig rétt á því að vera látin í friði. Meðal annars vegna þessa er nauðsynlegt að fræðsla um margbreytileikann fari fram í grunnskólum og þau skilaboð séu send snemma til nemenda að einstaklingar megi vera eins og þeir sjálfir vilja.

Fordómarnir og hatrið grassera vissulega enn og við því þarf að bregðast. Hins vegar er það svo að í íslenskri umræðu er stundum öllu grautað saman. Þannig er gagnrýni á kynfræðslu í skólum fordæmd og jafnvel flokkuð með fordómum gegn samkynhneigðum og Samtökunum 78.

Auðvitað mega og eiga foreldrar og aðstandendur barna hafa skoðun á námsefni barna sinna. Hugsanlega finnst þeim ákveðin efni í kynfræðslu, sem þeir hafa kynnt sér, ekki henta barni sínu á vissu aldursskeiði og finnst þar alltof bratt farið í hlutina. Það á við um hluta af því námsefni sem kennt er í kynlífsfræðslu í grunnskóla, þar er sumt mjög grafískt og sannarlega umdeilanlegt. Þar er útfærslan engan veginn hafin yfir gagnrýni.

Undanfarið höfum við séð skólakerfið og stofnanir tengdar því hlaupa í gríðarlega vörn og gefa í skyn að foreldrar sem gagnrýni námsefni í kynfræðslu séu forpokaðir, taki hluti úr samhengi, misskilji námsefnið illilega og harðneiti að taka rökum. Þeir eru meira að segja taldir fullir af fordómum.

Af hverju er talið svona brýnt að þagga niður í foreldrum sem koma með sjálfsagðar athugasemdir? Í stað þess að taka umræðuna er látið eins og það sé óhagganleg staðreynd að skólinn viti alltaf best.

Viljum við virkilega að ríkið sjái um uppeldi á börnum meðan foreldrum er ætlað að standa hjá og kinka samþykkjandi kolli? Foreldrar hafa fullan rétt á að hafa skoðun á námsefni barna sinna. Það ætti að vera lágmark að á þá sé hlustað í stað þess að úthrópa þá og saka um vanþekkingu og fordóma.

Þegar manneskjur, sem eru vel gerðar og ágætlega upplýstar, eru sakaðar um fordóma og skilningsleysi eiga þær erfitt með að verja sig. Þær hafa fengið á sig stimpil og eru taldar ómarktækar. Þannig getur margborgað sig að þegja – og það kostar líka minnst vesen. Því miður hörfa of margir og láta þannig þagga niður í sér, þótt þeir hafi augljóslega mikið til síns máls.