Ári eftir að við tileinkuðum afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar fyrst íslenskri tungu árið 1995 lýstu Sameinuðu þjóðirnar 16. nóvember Dag umburðarlyndis.
Ári eftir að við tileinkuðum afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar fyrst íslenskri tungu árið 1995 lýstu Sameinuðu þjóðirnar 16. nóvember Dag umburðarlyndis. — Af vef SÞ.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir ferðalög um landið í sumar eru nú mörg komin með meiri æfingu í notkun erlendra tungumála en þau áttu von á þegar þau lærðu fyrst dönsku og síðan ensku í grunnskólanum á síðustu öld – til að geta gert sig skiljanleg erlendis

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Eftir ferðalög um landið í sumar eru nú mörg komin með meiri æfingu í notkun erlendra tungumála en þau áttu von á þegar þau lærðu fyrst dönsku og síðan ensku í grunnskólanum á síðustu öld – til að geta gert sig skiljanleg erlendis. Hvert sem farið er á byggðu bóli sem í óbyggðum hér á landi snúast stimamjúk ungmenni í kringum ferðalanga án þess að skilja eða tala íslensku. Sagt er að fólk sem kunni íslensku fáist ekki til slíkra starfa; það sé upptekið í öðru, kannski í ævintýraleit í útlöndum að vinna fyrir sér þar án þess að kunna tungu þarlendra? Þetta íslenskuleysi kemur sjaldan að sök við störf í ferðaþjónustu því flest viðskiptavinanna kunna ekki íslensku heldur.

Það er viðvarandi umræðuefni meðal okkar eldri borgara hvort íslenskan sé ekki lengur opinbert mál hér landi og hvernig standi á því að matseðlar og leiðbeiningar séu stundum bara á ensku ef við erum svo heppin að þeir séu til á blaði yfirleitt en ekki bara á einhverjum QR-kóða sem við botnum ekkert í. Furðulegast þykir okkur þegar skilti á opinberum stöðum skipa ensku skör hærra en íslenskunni og rifjum upp auglýsingu sem bæjarfógetinn í Reykjavík hengdi upp byltingaárið mikla 1848 um að íslensk tunga ætti best við í íslenskum kaupstað, hvað hann bað öll athuga.

Það var tálsýn rómantísku þjóðernisstefnunnar að í hverju þjóðríki yrði töluð ein þjóðtunga enda þurfti fólk í hinum stærri ríkjum að sameinast um eina ríkisgerð tungumálanna – því ekki dugði að hver talaði sína tungu eða mállýsku. Minni mál- og mállýskusvæði, sem þó eru stærri en hið íslenska, urðu síðan ósýnileg í Evrópu undir þjóðtungunum. Vegna sterkrar stöðu íslenskunnar hér á landi (varla þó út af auglýsingunni frá 1848) voru aðstæður einstæðar til að láta hugmyndina um eina þjóðtungu í einu ríki raungerast. Hér voru engar landshornamállýskur sem heitið gátu en samt skaut sú hugmynd rótum um skeið að við þyrftum að fara að dæmi stórþjóðanna og samræma tungutakið. Og þá helst að því sem tíðkaðist á Norðurlandi þar sem tungan var talin fegurst og skýrmælið mest. Þessi hugmynd lifði lengst við ráðningar á þeim sem áttu að tala mikið í útvarp allra landsmanna. Ekki þótti við hæfi að þau væru flá- og linmælt.

Nú hefur þörfin aukist fyrir umburðarlyndi í málfarsefnum; það þarf að láta alls konar íslensku sjást og heyrast í bókmenntum og í samfélagsumræðu fjölmiðla, ekki bara landshornamál heldur mál með hreim og „málvillum“ þeirra sem eru að læra málið sem útlensku, hvort sem er í háskólum, málaskólum, á netinu eða með aðstoð sjálfboðaliða. Mikið vantar uppá að við gömlu Íslendingarnir sýnum viðleitni hinna nýju skilning og þolinmæði með því að hlusta á þau og leiðbeina með uppbyggilegum og jákvæðum hætti. Kannski við ættum öll að efla með okkur umburðarlyndi fremur en að fjargviðrast yfir þeim sem tala eða eru öðruvísi en við?