Veiðiferð Samkeppniseftirlitið vildi ítarlegar upplýsingar um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja til að vinna skýrslu fyrir matvælaráðuneytið. Verkefnið reyndist ekki samræmast hlutverki stofnunarinnar samkvæmt lögum.
Veiðiferð Samkeppniseftirlitið vildi ítarlegar upplýsingar um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja til að vinna skýrslu fyrir matvælaráðuneytið. Verkefnið reyndist ekki samræmast hlutverki stofnunarinnar samkvæmt lögum. — Morgunblaðið/Þorgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Samkeppniseftirlitið óskaði meðal annars eftir því að fyrirtæki í sjávarútvegi afhentu stofnuninni afrit af fundargerðum hluthafafunda félagsins frá 1. janúar 2020 sem og upplýsingum um hvaða hluthafar mættu á hvern hluthafafund og aðra aðila sem mættu fyrir hönd hluthafa. Auk þess vildi stofnunin fá að vita hvernig hver hluthafi greiddi atkvæði á umræddum fundum í hverju máli fyrir sig.

Baksvið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Samkeppniseftirlitið óskaði meðal annars eftir því að fyrirtæki í sjávarútvegi afhentu stofnuninni afrit af fundargerðum hluthafafunda félagsins frá 1. janúar 2020 sem og upplýsingum um hvaða hluthafar mættu á hvern hluthafafund og aðra aðila sem mættu fyrir hönd hluthafa. Auk þess vildi stofnunin fá að vita hvernig hver hluthafi greiddi atkvæði á umræddum fundum í hverju máli fyrir sig.

Þetta er meðal þess sem farið var fram á í bréfi sem stofnunin sendi sjávarútvegsfyrirtækjum síðastliðið vor og Morgunblaðið hefur undir höndum. Bréfið var sent vegna kortlagningar á stjórnunar- og eignatengslum í greininni og umsvif fyrirtækjanna eða eigenda þeirra í öðrum atvinnurekstri hér á landi. Tilgangur kortlagningarinnar var að skila matvælaráðuneytinu skýrslu í samræmi við samning þess efnis gegn greiðslu. Verkefnið reyndist þó ekki samræmast lögum.

Þá krafðist Samkeppniseftirlitið hluthafalista félaga dagana 31. mars 2023 og 31. desember árin 2022, 2021, 2020 og 2019. Auk þess var óskað eftir nafni, kennitölu og eignarhlut hvers hluthafa sem og upplýsingum um skipun stjórna félaga og breytingar sem hafa orðið á þeim frá 1. janúar 2020. Athygli vekur að slíkar upplýsingar eru öllum aðgengilegar á vef Skattsins.

Vildi stofnunin einnig fá afrit af hluthafasamkomulögum sem kunna að hafa verið gerð á milli hluthafa fyrirtækja eða lýsingu á þeim hafi verið um munnlegt samkomulag að ræða.

Upplýst um viðskiptasambönd

Í bréfinu krafðist Samkeppniseftirlitið yfirlits yfir viðskipti með aflahlutdeildir og aflmark frá 1. janúar 2020 auk upplýsinga um allt samstarf, viðskipti, viðskiptasambönd og verktöku á milli fyrirtækis og annarra sjávarútvegsfyrirtækja.

„Skal bæði gera ítarlega lýsingu á samstarfinu og/eða verktöku sem og upplýsa um þau viðskipti/fjárhæðir sem viðkomandi samstarf hefur gengið út á frá 1. janúar 2020 til dagsins í dag. […] Liggi skriflegir samningar fyrir um þau viðskipti sem spurt er um […] er óskað eftir afriti af þeim. Liggi slíkir samningar ekki fyrir er óskað eftir lýsingu á viðskiptasambandinu,“ sagði í bréfinu.

Ekki samkvæmt lögum

Í lok bréfsins vísar Samkeppniseftirlitið til 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sem rökstuðnings fyrir heimild stofnunarinnar til að afla upplýsinga og óskað eftir því að gögn berist eigi síðar en 24. apríl.

Brim hf. neitaði hins vegar að afhenda umrædd gögn og ákvað Samkeppniseftirlitið í júlí að beita fyrirtækið dagsektum að upphæð 3,5 milljóna á dag, fram að því að umrædd gögn fengjust afhent. Brim kærði sektirnar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

„Í samkeppnislögum er ekki gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstakar athuganir stofnunarinnar eða tilhögun þeirra sem leiði til þess að stofnunin skili niðurstöðum sínum til þeirra í formi skýrslna gegn greiðslu. […] Verður að telja að slíkt samræmist ekki því hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem því er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðs stjórnvalds,“ sagði í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.

Í kjölfarið hefur útgerðarfélagið G.Run farið fram á að fá afhentar upplýsingar sem það afhenti stofnuninni og að allar upplýsingar sem aflað var verði afmáðar úr kerfum Samkeppniseftirlitsins.

Forsendubrestur

Ráðuneytinu verði greitt

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að þar sem samkomulag ráðuneytis hennar og Samkeppniseftirlitsins reyndist ekki í samræmi við lög, verði farið fram á að stofnunin bakfæri greiðslu sem ráðuneytið lét af hendi í þeirri trú að gerð yrði skýrsla um eignatengsl í sjávarútvegi.

„Það er það sem samskipti míns ráðuneytis og Samkeppniseftirlitsins snúast um á næstu dögum,“ sagði Svandís.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson