Guðrún Ragnarsdóttir fæddist 27. september 1947. Hún lést 8. september 2023.

Guðrún var jarðsungin 22. september 2023.

Við höfum þekkt Guðrúnu Ragnarsdóttur (Gunnu) og Árna heitinn eiginmann hennar í 10 ár eða allt frá því að börn okkar rugluðu saman reytum. Þá strax urðu kynnin náin og við eignuðumst góða vini. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja og þau lögðu alveg sérstakt kapp á að sýna ungu kynslóðinni áhuga og stuðning. Þau tóku dóttursyni okkar með afbrigðum vel og skilgreindu sig strax sem bónusamma hans og -afi. Það er ekki alltaf sjálfsagt.

Þau Árni höfðu átt langt lífshlaup saman en því miður varð tíminn sem þau hugðust nýta í sameiginleg ferðalög endasleppur. Einungis rúm þrjú ár urðu á milli þeirra hjóna og var viðskilnaður hjá báðum mjög snöggur.

Eftir sitja afkomendur í sárum. En minning þeirra lifir áfram með glæstum hópi afkomenda.

Í minningunni

er liðin stund

máluð rósroða

á bláum himni

Í minningunni

hefur eitt stundarkorn

orðið eilífðarblóm

í vitundinni

eitt stundarkorn

um miðaftansbil

orðið ívaf draums

langrar ævi

Í draumsýnum

eru dásemdir tilverunnar

skuggalaus birta

blágeims eilífðarinnar

(Sigríður Einars frá Munaðarnesi)

Við þökkum samfylgdina.

Björg og Friðgeir.

Ég hef líklega verið 17 ára þegar ég hitti Gunnu fyrst. Það var fyrir utan Austurbæjarbíó. Mér leist strax mjög vel á hana og við frekari kynni átti það eftir að sýna sig að þarna fór yndisleg manneskja, harðdugleg, eldklár en umfram allt mild og hlý. Hún var með Árna sínum og ég með Kalla, við unglingarnir vorum á leið á tónleika hjá Searchers. Árni og Kalli voru vinir frá því að þeir voru sjö ára. Þetta var upphafið að áratuga vinskap okkar.

Nokkrum árum síðar fluttu Gunna og Árni til Svíþjóðar og seinna til Kaupmannahafnar. Þangað heimsóttum við Kalli þau á Kagså kollegiet, en sá staður hefur reynst örlagaríkur í lífi okkar. Við Kalli bjuggum hjá þeim og nutum gestrisni Gunnu og Árna. Þetta var yndislegur tími, andrúmsloftið afslappað og við hrifumst af þeim og lífinu þarna og ákváðum að flytja út árið eftir. Þannig voru þau miklir örlagavaldar í lífi okkar.

Gunna og Árni fluttu heim árið sem við fluttum út svo að við bjuggum aldrei saman úti. En við kynntumst mörgu góðu fólki sem enn þann dag í dag eru vinir. Eftir heimkomuna mynduðu þau sem komu heim á undan okkur Kagså-hópinn, við vorum síðasta fjölskyldan sem „tekin var með“ í hópinn. Síðan þá höfum við hist reglulega eða óreglulega. Fyrst í stað hittumst við konurnar saman og karlarnir saman, þar sem við vorum öll með lítil börn, en líka öll saman annað slagið. Á hverju vori fórum við öll saman í Munaðarnes með barnaskarann. Það var mikið fjör og sungið og börnin léku fyrir okkur frumsamin leikrit og fóru svo fram á að fullorðna fólkið léki fyrir þau. Ekki nema sanngjarnt og við gerðum það. Gunna hafði mikinn húmor og stundum hlógum við saman að hlutum sem engum öðrum fannst fyndnir. Ég fer enn að hlæja þegar ég hugsa um Gunnu að leika „Kristján heiti ég Ólafsson“. Hún var alveg óborganleg.

Gunna var fróð og hún elskaði að grúska og að kenna, sagði oft frá skemmtilegum atburðum úr kennslunni.

Það festist í sessi að kynin hittust sitt í hvoru lagi, strákarnir að spila og við stelpurnar hittumst síðast fyrir nokkrum vikum (18. ágúst) og þá var Gunna mín hress og kát eins og hún átti að sér að vera. Og ekki gat mig grunað að það væri í síðasta sinn sem ég sæi hana. Ég og við öll í Kagså-hópnum munum sakna hennar mikið. En missirinn er mestur hjá börnunum þeirra sem nú hafa misst báða foreldra sína langt um aldur fram. Elsku Ragna, Palli og Jónas. Við Kalli sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minningin um góða foreldra vera ykkur ljós í lífinu.

Kristín Blöndal.

Þar sem góðir menn fara, þar eru guðsvegir.

Guðrún, mamma hennar Rögnu, bestu vinkonu okkar, var einnig náinn vinur okkar. Þekktum hana árum saman. Vorum í kringum tvítugt undir hennar verndarvæng þegar flækjustigið var mikið og við þurftum mest á hennar kærleika og hlýju að halda.

Það er gæfa að eignast góða og víðsýna vini í foreldrum sinna bestu vina. Yngri en okkar foreldrar, hafði búið erlendis, elskaði Kim Larsen og kannski aðeins nútímalegri. Kunni mikið vel að hlusta og meðtaka. Fundum hjá henni að við vorum í innsta hring. Dásömuð ætíð og böðuð virðingu og hlýju. Slíkt viðmót er ungum ómetanlegt. Við vorum velkomin á heimili þeirra Árna og áhugi þeirra hjóna á okkar högum var einlægur. Boðið í allar veislur fjölskyldunnar. Heiðruð og umvafin góðu.

Guðrún var mikil fjölskyldumanneskja og hafði yndislegan geislandi húmor síns fólks, ekki síst fyrir sjálfri sér. Hún var smekkleg og víðlesin og mild í skoðunum og dómum. Tyllti höfðinu eilítið í löngum samtölum við okkur. Við leituðum til hennar. Faðmur hennar stór. Skynsöm og sigld, dönskukennarinn mikli úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Elskuð og virt af nemendum sínum. Það kom ekki á óvart. Guðrún Ragnarsdóttir var til staðar fyrir fólk.

Hlýjan erfðagripur þeirra mæðgna. Velvildin og djúpur skilningur á erfiðu, flóknu málunum. Skilningur hennar tengdist ef til vill hennar þekkingu og reynslu af óbærilegum hlutum. Harmurinn var mikill og langur þegar Ingibjörg, einkasystir hennar, lést langt fyrir aldur fram. Og ósegjanlegur síðar, þegar elsku Árni fór sviplega, fyrir þremur árum.

Á dögum sorgar hugsum við hvað gæti hafa orðið ef Guðrúnu okkar hefði verið gefinn lengri tími. Hún var ekki gömul kona. Hafði mikilvægum hlutverkum að gegna. Hér fór einstök mannkostakona sem gaf mikið af sér.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Rögnu okkar, Jónasar, Palla og þeirra fólks. Missir ykkar er mikill. Við biðjum góðan guð um blessun og styrk í sorginni. Guðrúnu þökkum við allt hið góða sem hún gaf okkur.

Þar sem góðir menn fara, þar eru guðsvegir.

Hvíl í friði.

Eyja, Hanna
og Ferdinand (Feddi).