Hátíð Ólöf Kolbrún Harðardóttir er skólastjóri Söngskólans í Reykjavík.
Hátíð Ólöf Kolbrún Harðardóttir er skólastjóri Söngskólans í Reykjavík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eivör Pálsdóttir, Andrea Gylfadóttir, Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson eru á meðal þeirra fjölmörgu söngvara sem koma fram á…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Eivör Pálsdóttir, Andrea Gylfadóttir, Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson eru á meðal þeirra fjölmörgu söngvara sem koma fram á hátíðartónleikum Söngskólans í Reykjavík á morgun, sunnudag, kl. 16 í Langholtskirkju þegar hálfrar aldar afmæli skólans verður fagnað.

Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa stundað söngnám í skólanum sem var stofnaður af Garðari Cortes árið 1973, og hefur verið einn af máttarstólpum íslensks tónlistarlífs í áratugi.

Á fjórða þúsund nemenda hafa stundað nám við skólann og 365 nemendur lokið framhaldsprófi. Þá hefur skólinn brautskráð samtals 214 nemendur með háskólagráðu í einsöng eða söngkennslu. Ólöf Kolbrún Harðardóttir óperusöngkona tók við keflinu af Garðari Cortes er hann dró sig í hlé síðasta haust. Garðar lést í vor 83 ára gamall.

Merkileg húsasaga

Ólöf Kolbrún segist afskaplega hreykin og stolt að fá að leiða skólann í gegnum tímamótin og hlakkar til tónleikanna.

„Það verður gaman að hitta gamla nemendur og rifja upp gamla tíma. Svo margt hefur gerst á þessum tíma. Við höfum til dæmis verið til húsa á nokkrum stöðum í borginni og gaman að segja frá því að þau eru öll hönnuð af sama arkitekt, Einari Sveinssyni,“ segir Ólöf Kolbrún, en skólinn hóf starfsemi í leiguhúsnæði að Laufásvegi 7 í Reykjavík.

„Svo keypti Garðar Hverfisgötu 45 þar sem norska sendiráðið hafði áður verið. Var þar lengi og þar vorum við með stóran sal á Veghúsastígnum. Eftir það fluttist skólinn á Snorrabraut í gömlu Mjólkursamsöluna og svo höfum við verið hér á Laufásvegi 49, í Sturluhöllum, síðustu misserin. Þannig að við höfum farið víða en ávallt verið miðsvæðis og í merkilegum byggingum.“

Ólöf Kolbrún segir húsasöguna þó aukaatriði í samanburði við það sem hafi farið fram innanhúss, eins og tölfræðin sem vikið er að hér að ofan ber með sér.

„Við höfðum samband við marga fyrrum nemendur til að athuga hvort þeir gætu ekki verið með á afmælishátíðinni og það voru heilir sex söngvarar, baritónar og bassar sem voru uppbókaðir við söngflutning í Evrópu þessa helgi. Sem er bara voða gaman og við getum ekki verið annað en stolt af því.

Óeigingjarnt starf

Hverju þakkið þið að vera komin á þennan virðulega aldur?

„Garðar var annálaður bjartsýnismaður og hann ákvað þegar hann stofnaði skólann fyrir hálfri öld að tími væri til kominn að söngvarar fengju starfs- og virðingarheitið tónlistarmenn og þá skipti öllu að til væri skóli og söngdeildir sem menntuðu söngvara í tónlist og tónlistarfræðum og það er þessi ásetningur hans í upphafi sem við störfum eftir í dag. Hann lagði allt í sölurnar og þetta hefur verið gríðarlegt áræði á þeim tíma og óeigingjarnt starf. Þeirri vinnu viljum við halda áfram.“

Hvað verður svo boðið upp á á tónleikunum?

„Við ætlum að fagna þessum tímamótum með því að smala saman fólki sem hefur lært hjá okkur. Allt syngjandi söngvarar. Þetta eru það margir að það er ekki hægt að vera með eintómar einsöngsaríur svo að það verður nokkuð um samsöng. Svo verður kynning á sögu skólans og sérstök styrkveiting til nemenda. Guðfreður Hjörvar Jóhannesson, sem var mikill vinur skólans, eftirlét eigur sínar í sjóð sem á að styrkja efnilega söngnemendur sem fara í gegnum skólann. Þannig að það verður miklu að fagna,“ segir Ólöf Kolbrún að lokum.

Allar nánari upplýsingar um tónleikana og listafólkið sem þar kemur fram má nálgast á vefnum songskolinn.is og á Facebook þar sem stofnaður hefur verið viðburður sem ber yfirskriftina „50 ára afmæli Söngskólans í Reykjavík“.