Marie Krøyer
Marie Krøyer
„Þetta er hrikalega sterkt bréf,“ segir Gertrud Oelsner, safnstjóri hjá Den Hirschsprungske Samling í Kaupmannahöfn, um bréf sem hin 21 árs gamla Marie Triepcke skrifaði Robert Hirschsprung sumarið 1888 þar sem hún sleit trúlofun þeirra

„Þetta er hrikalega sterkt bréf,“ segir Gertrud Oelsner, safnstjóri hjá Den Hirschsprungske Samling í Kaupmannahöfn, um bréf sem hin 21 árs gamla Marie Triepcke skrifaði Robert Hirschsprung sumarið 1888 þar sem hún sleit trúlofun þeirra. Bréfið er meðal muna sem sjá má á nýrri sýningu safnsins um Marie, sem ári síðar giftist myndlistarmanninum P.S. Krøyer en skildi við hann 1905. Í fyrrnefndu bréfi skrifar Marie að takmarkalaus afbrýðisemi Roberts muni ganga að henni dauðri. Í frétt Politiken um málið kemur fram að Marie hafi látið sig dreyma um að þjóna listagyðjunni fremur en húsmóðurhlutverkinu og þar verið innblásin af m.a. Georg Brandes. „Af heimildum að dæma virðist hún hafa haft mikil áhrif á þá sem hún umgekkst og karlmenn féllu fyrir henni án þess að þekkja hana, sem henni mislíkaði,“ segir Oelsner, en meðal þeirra sem báðu Marie var listmálarinn Vilhelm Hammershøi.