Flótti Lincoln Burrows og Michael Scofield.
Flótti Lincoln Burrows og Michael Scofield. — Ljósmynd/Fox
Í ágúst árið 2005 var fyrsti þátturinn í sjónvarpsþáttaröðinni „Prison Break“ frumsýndur. Þættirnir slógu rækilega í gegn en þeir fjalla um bræðurna Lincoln Burrows, sem er ranglega sakfelldur fyrir morð, og Michael Scofield, yngri bróður hans sem reynir að frelsa hann úr fangelsi

Bjarni Helgason

Í ágúst árið 2005 var fyrsti þátturinn í sjónvarpsþáttaröðinni „Prison Break“ frumsýndur. Þættirnir slógu rækilega í gegn en þeir fjalla um bræðurna Lincoln Burrows, sem er ranglega sakfelldur fyrir morð, og Michael Scofield, yngri bróður hans sem reynir að frelsa hann úr fangelsi. Þættirnir eru aðgengilegir á streymisveitu Disney í dag og þó ég hafi horft á fyrstu tvær seríurnar á sínum tíma tókst mér að pikkfestast í þáttunum á dögunum. Ég man samt, þegar þættirnir voru í sýningu á sínum tíma, hvað það fór mikið í taugarnar á mér þegar tilkynnt var að gerðar yrðu að minnsta kosti þrjár seríur í þáttaröðinni. Þá vissi ég það fyrir víst að þeir myndu eflaust aldrei sleppa út úr fangelsinu, í það minnsta ekki strax, og það gerði áhorfið minna spennandi. Í heildina urðu seríurnar fimm talsins, þar af þrjár 22 þátta seríur. Ég gafst upp í þriðju seríu, nennti ekki meir. Hugmyndin geggjuð en því miður of langdregið fyrir minn smekk.

Svona langar seríur eru að ég held ekki framleiddar í dag, ekki þar sem þættirnir eru allt upp í klukkutíma langir í það minnsta. Ég horfði á Jack Ryan á Amazon Prime um daginn, átta þættir í hverri seríu og ekkert vesen. Það tók mig ekki langan tíma að horfa á allar fjórar seríurnar. Stutt og laggott. Mæli með.