Goslokahátíð Hér er Selma með kjól sem hún sérsaumaði fyrir goslokahátíð í Vestmannaeyjum eitt árið.
Goslokahátíð Hér er Selma með kjól sem hún sérsaumaði fyrir goslokahátíð í Vestmannaeyjum eitt árið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í byrjun september 1943 komu tólf konur saman í kjólaversluninni Fix í Reykjavík og stofnuðu Félag kjólameistara í Reykjavík sem er eitt af elstu fagfélögum landsins. Félagið hefur gengið í gegnum nokkrar nafnabreytingar á þessum árum en heitir nú…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Í byrjun september 1943 komu tólf konur saman í kjólaversluninni Fix í Reykjavík og stofnuðu Félag kjólameistara í Reykjavík sem er eitt af elstu fagfélögum landsins. Félagið hefur gengið í gegnum nokkrar nafnabreytingar á þessum árum en heitir nú Klæðskera- og kjólameistarafélagið og fagnar 80 ára afmælinu í dag með því að bjóða heiðursfélögum í svokallað „High Tea“ í fundarsal Samtaka iðnaðarins í Borgartúni og síðan verður sveinsbréfaafhending útskriftarnema.

„Við vildum fagna afmælinu með því að bjóða þessum heiðurskonum félagsins, sem sumar muna fyrri tímana vel, með því að hafa virkilega flott teboð og spjalla saman um sögu félagsins,“ segir Selma Ragnarsdóttir kjólameistari en hún er í 80 ára afmælisnefnd félagsins, sem auk viðburða leggur áherslu á að kynna og upphefja fagmennsku og gæðavinnu innan þess.

Klæðskurður og kjólasaumur eru lögvernduð starfsheiti, en árið 1983 voru sameinuð Félag kjólameistara, Félag kvennaklæðskera og Klæðskerameistarafélagið undir nafninu Félag meistara og sveina í fataiðn. Árið 2005 fékk félagið núverandi nafn og klæðskurður og kjólasaumur eru iðngreinar sem kenndar eru við nýja Tækniskólann – skóla atvinnulífsins, námið tekur fjögur ár og síðan er hægt að bæta við meistaranámi.

Skraddarar sauma á karla

Í lögum um iðnnám frá 1893 er hvergi minnst á kjólasaum eða saumakonur, einungis minnst á hvernig prófi skraddara skuli háttað. Það þurfti þannig nám til að sauma karlmannsfatnað og var sérstök iðngrein, en ekki til þess að sauma kvenfatnað sem flokkaðist frekar undir heimilisiðnað og veitti engin starfsréttindi.

„Aukinn áhugi kvenna á að láta sérsauma á sig fatnað hefur orðið til þess að kljúfa klæðskerastéttina,“ segir í inngangi bókarinnar Fagbog i dameskradderi sem gefin var út í Danmörku 1941 og segir heilmikið um tíðarandann. Það var því ekki vanþörf á að berjast fyrir löggildingu kjólameistaraiðnarinnar og var það baráttumálið framan af í félagi kjólameistara auk þess að tryggja að meistarar væru yfir öllum saumastofum. Einnig má sjá anda haftaþjóðfélagsins birtast í bókunum funda félagsins þar sem einangrun og lítið vöruúrval háir félagsmönnum og einnig er „gjaldeyrisstyrkur“ notaður til kaupa á amerískum og frönskum tískublöðum til að sýna íslenskum konum það heitasta í tískunni úti í heimi.

„Við viljum vinna með gæðin og góða þjónustu og í rauninni er tilgangur félagsins sjálfs að efla samvinnu félagsmanna og styðja félagsandann, því það er mikið af einyrkjum í greininni,“ segir Selma. Klæðskerar og kjólameistarar sérhanna fyrir hvern einstakling og vinna úr vönduðum efnum. „Ég hef mikið verið að sauma brúðarkjóla og síðan sviðsfatnað og búninga en svo er líka verið að gera við flíkur, og jafnvel breyta eldri flíkum og gefa þeim nýtt líf.“