Kristján Loftsson
Kristján Loftsson
Hvalur þarf ekki að hafa áhyggjur af réttaröryggi sínu, því eins og MAST bendir á, þegar refsivendinum er beitt án afláts á Hval, þá má alltaf kæra ákvarðanirnar til Svandísar Svavarsdóttur til endurskoðunar.

Kristján Loftsson

Fjölmiðlaherferð forstjóra MAST gegn Hval hf. og sjómönnum fyrirtækisins, undir kjörorðinu „málefnaleg“ stjórnsýsla, öðlaðist óvænt framhaldslíf á fimmtudagskvöld þegar forstjórinn mætti í Kastljós Ríkisútvarpsins.

Ekki var úr háum söðli að falla. Forstjórinn hafði áður haldið því fram opinberlega, í tengslum við þá ákvörðun sína að stöðva hvalveiðar á hvalveiðiskipinu Hval 8 tímabundið, að ákvörðunin hefði verið tekin að höfðu samráði við Fiskistofu, líkt og lögskylt er. Fiskistofa hafði hins vegar staðfest við Hval skriflega að ekkert slíkt samráð hefði átt sér stað! Nú brá svo við að forstjórinn virtist ekki telja að neitt samráð hafi þurft, þar sem ákvörðun hennar hafi verið grundvölluð á sjónarmiðum um dýravelferð. Í sömu andrá varð henni hins vegar tíðrætt um að aðbúnaður um borð hefði verið ófullnægjandi og skipið raunar ekki tilbúið til veiða, en sá eftirlitsþáttur er einmitt á borði Fiskistofu. Hringavitleysan, undir kjörorðinu „málefnaleg“ stjórnsýsla, þannig algjör, eins og gjarnan vill verða þegar sannleikurinn er ekki með fólki í liði.

Ekki tók betra við þegar fréttamaður Kastljóssins benti á að MAST hefði oft verið legið á hálsi fyrir að vera svifasein í viðbrögðum við brotum gegn dýravelferð og hvað ylli því að meðferðin væri allt önnur gagnvart Hval og hvort þetta væri samkvæmt skipun að ofan. Við þessu átti forstjórinn ekkert svar og fór undan í flæmingi, enda heldur sérkennilegt að á meðan stofnunin bregst seint og illa við ásökunum um illa meðferð á dýrum skuli forstjórinn, rétt eins og ráðherra hans, í kastljósi fjölmiðla finna atvinnustarfsemi Hvals, sem hvílir á gildu starfsleyfi útgefnu með stoð í lögum, allt til foráttu. Forstjórinn, eins og ráðherrann, sættir sig nefnilega illa við og skeytir engu um að hvalveiðar eru heimilar að lögum og það er Alþingis Íslendinga, en ekki þeirra, að leggja bann við þeim, standi á annað borð pólitískur vilji til slíks.

Í lok þáttarins stóð hins vegar ekki á svari þegar forstjórinn var spurður hvort hann teldi hvalveiðar ekki samræmast lögum um dýravelferð, þótt afstaðan verði síðan klædd í búning „hlutlausrar skýrslu“ í lok hvalvertíðar.

Annars þarf Hvalur ekki að hafa áhyggjur af réttaröryggi sínu, því eins og MAST bendir á þegar refsivendinum er beitt án afláts á Hval, þá má alltaf kæra ákvarðanirnar til Svandísar Svavarsdóttur til endurskoðunar.

Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að komist umboðsmaður Alþingis að því að ráðherra hafi brotið lög gegn Hval, þá verði næsti þáttur í hinu sviðsetta leikriti sá að ráðherrann víki sæti í málefnum fyrirtækisins og tryggi þannig „málefnalega“ stjórnsýslu, á sama tíma og annar ráðherra úr flokki hennar mun stjórna næsta leikþætti.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hvals hf.

Höf.: Kristján Loftsson