Rýnisfrumvarpið minnir á mikilvægi þess að fyrir hendi sé virkur tengi- og samráðsvettvangur þar sem fulltrúar atvinnulífs og stjórnsýslu geta skipst á skoðunum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Miklar umræður eru um vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjamanna og Kínverja vegna stökkbreytinga í gagnkvæmum njósnum sem megi meðal annars rekja til gervigreindar og hátækni á öllum sviðum. Njósnir utan úr geimnum taki til dæmis á sig nýrri og alvarlegri svip. Kínverjar eiga aðild að háloftastöð á Kárhóli í Reykjadal, skammt frá Laugum. Hvað er rannsakað þar?

Neðansjávarrannsóknir eru ekki síður mikilvægar en athuganir í geimnum.

Á Akranesi starfar bandaríska fyrirtækið Running Tide í Breið rannsókna- og nýsköpunarsetri þar sem áður var fiskvinnsla Haraldar Böðvarssonar.

Nýlega var sagt frá því í fréttabréfi Running Tide að í sumar hefði fyrirtækið staðið að mikilvægum rannsóknaverkefnum í samstarfi við alþjóðlegar hafrannsóknastofnanir.

Fyrri rannsóknin er í samstarfi við kolefnisbindingarfyrirtækið Seafields og Alfred-Wegener stofnunina í haf- og heimskautafræðum í Bremerhaven, og miðar að því að skilja afdrif lífmassa, t.a.m. þörunga, á hafsbotni í djúpsjó og áhrifin á umhverfið.

Seinni rannsóknin er í samstarfi við Ocean Networks Canada sem er í eigu Viktoríuháskóla í Bresku-Kólumbíu í Kanada. Þar var lífmassa einnig sökkt og verður hann vaktaður með tilliti til afdrifa og áhrifa á umhverfið.

Rannsókna- og tilraunastarfið felst í að kanna leiðir til að binda kolefni með lífmassa í hafdjúpunum og stuðla jafnframt að sjálfbærni. Nú á tímum veita alþjóðlegir rannsókna- og nýsköpunarsjóðir fjármunum til verkefna af þessu tagi.

Til að stunda héðan rannsóknir í háloftunum eða undirdjúpunum þarf heimildir í samræmi við íslensk lög og reglur. Með vaxandi spennu vegna grunsemda um njósnir verður krafan um gagnsæi og eftirlit ríkari.

Í kalda stríðinu vöknuðu stundum spurningar vegna ferða rússneskra rannsóknaleiðangra á sjó og landi. Stóð utanríkisráðuneytið þá oft fast fyrir gagnvart þeim sem vildu fá rannsóknaleyfi. Réð þar þjóðaröryggi og samstaða með bandamönnum við gæslu þess. Hvers er krafist vegna Kárhóls?

Í október 2022 lagði forsætisráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp til laga um „rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu“. Nú er frumvarp um þetta efni á þingmálaskrá og ætlar forsætisráðherra að leggja það fram í nóvember 2023.

Hugtakið rýni (e. screening) vísar hér til greiningar og mats á því hvort viðskiptaráðstafanir, sem skapa erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum eða fasteignaréttindum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu, kom fram í kynningu á frumvarpinu á sínum tíma.

Í umsögnum um frumvarpið haustið 2022 sögðu margir að án meðalhófs og varúðar væri hætta á að rýni af þessu tagi fældi fjárfesta frá landinu.

Erlend fjárfesting er sáralítil hér á landi. Rýni stjórnvalda í þágu þjóðaröryggis og allsherjarreglu verður ekki kennt um það. Við núverandi aðstæður má ætla að öflugir og ráðvandir alþjóðlegir fjárfestar vilji halda sig frá ríkjum sem skorti rýni vegna þjóðaröryggis. Vel skipulagt og viðunandi opinbert eftirlit er hluti ábyrgrar utanríkis- og varnarmálastefnu.

Running Tide, sem áður er nefnt, á sér rætur í Maine-ríki í Bandaríkjunum. Stjórnvöld þar taka ekki áhættu vegna þjóðaröryggis. Af sjálfu leiðir að íslensk stjórnvöld verða að tryggja öruggt starfsumhverfi við rannsóknir og þróun á þessu viðkvæma sviði. Gagnkvæmt traust verður að ríkja milli ríkis og fyrirtækja.

Hér í blaðinu birtist mánudaginn 11. september frétt um að Viðskiptaráð Íslands (VÍ) og Félag atvinnurekenda (FA) hefðu áhyggjur af því að ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur hefði ekki starfað frá því í maí 2020. Nefndin var sett á laggirnar með lögum árið 1999 til „að skapa mótvægi við útþenslu stjórnkerfisins; að einhver bremsa væri til staðar til að meta með sjálfstæðum hætti þörfina fyrir nýjar reglur sem fælu í sér aukið eftirlit,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í fréttinni. Hann sagði Friðrik Sophusson fjármálaráðherra hafa beitt sér fyrir lagasetningunni, honum hefði þótt vöxtur opinbera kerfisins „býsna óheftur“.

Það er ekki oft sem VÍ og FA kvarta undan skorti á opinberum nefndum en þessi eftirlitsnefnd er auk aðhaldsins sem hún skapar að þeirra mati, talin „dýrmætur tengiliður á milli atvinnulífs og stjórnsýslu“.

Rýnisfrumvarpið minnir á mikilvægi þess að fyrir hendi sé virkur tengi- og samráðsvettvangur þar sem fulltrúar atvinnulífs og stjórnsýslu geta skipst á skoðunum og vakið máls á því sem miður fer, með sameiginlega lausn í huga.

Viðskipta- og menningarráðuneytinu ber að framfylgja lögunum frá 1999. Nú eru þrjú ár frá því að „dýrmæta“ sameiginlega nefndin hvarf úr sögunni. Svar ráðuneytisins hér í blaðinu bendir ekki til þess að þar sé áhugi á að framfylgja lögunum frá 1999. Gefið er til kynna að viðskipta- og menningarráðherrann hafi þá stefnu að fækka óþarfa nefndum og ráðum og því sé nú til skoðunar hvort skynsamlegra sé að samstarfsnefndin hverfi frekar en að virkja hana að nýju.

Þessi rök stangast alfarið á við tilgang laganna frá árinu 1999. Hvað breyttist?

Telji stjórnsýslan að hún skili betri árangri og stuðli að stöðugleika án gagnsæis og náinnar samvinnu við atvinnulífið, er það mikill misskilningur eins og mörg mál líðandi stundar sanna.