Sviss, Svíþjóð, Bandaríkin, Bretland og Singapúr skipa sér í fremstu röð nýsköpunarlanda í heiminum samkvæmt nýbirtri nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), Global Innovation Index 2023, sem nær til 134 ríkja um allan heim

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Sviss, Svíþjóð, Bandaríkin, Bretland og Singapúr skipa sér í fremstu röð nýsköpunarlanda í heiminum samkvæmt nýbirtri nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), Global Innovation Index 2023, sem nær til 134 ríkja um allan heim. Sviss er leiðandi ríki í nýsköpun á heimsvísu samkvæmt þessum samanburði og trónir á toppnum. Kemur fram í umfjöllun WIPO að Sviss skipar efsta sætið þrettánda árið í röð.

Ísland heldur sjó milli ára á heildarmælikvarðanum. Er í 20. sæti, sama sæti og á árinu á undan en á því ári hafði Ísland raunar fallið um þrjú sæti á milli ára, farið úr 17. sæti árið 2021 niður í 20. sætið. Önnur norræn lönd koma betur út; Svíþjóð er komin í 2. sæti og hækkar um eitt, Finnland fer upp um þrjú sæti milli ára og er í sjötta sæti, Danmörk hækkar um eitt sæti og er núna í níunda og Norðmenn sem voru fyrir neðan Ísland á vísitölunni fyrir ári skjótast upp fyrir Ísland og fara úr 22. sæti í 19. sæti.

Í tólfta sæti í Evrópu

Árangur Íslands er mismunandi eftir því hvaða undirþættir eða stoðir nýsköpunarvísitölunnar eru skoðaðar. Kemur Ísland t.a.m. vel út í mælingum meðal allra þjóða á innviðum þar sem Ísland er í 10. sæti, samanburður á stofnunum skipar Íslandi í níunda sæti og í 15. sæti í mælingum á viðskiptaumhverfi. Ef eingöngu er litið á útkomu Evrópuþjóða kemur í ljós að Ísland heldur tólfta sætinu af 39 Evrópuþjóðum sem einnig er óbreytt frá árinu á undan.

Eiríkur Sigurðsson, samskiptastjóri Hugverkastofu, segir í ítarlegri umfjöllun um þessar niðurstöður á vef stofunnar að aðstæður til nýsköpunar séu taldar hafa batnað á milli ára hér á landi. Hins vegar mælist afrakstur nýsköpunar heldur minni en áður. Fram kemur að almennt er Ísland yfir meðaltali í þáttum sem tengjast stofnunum, innviðum og þroska viðskiptaumhverfis (e. business sophistication). Ísland er efst á lista fyrir rafmagnsframleiðslu á íbúa, innlenda kvikmyndaframleiðslu miðað við íbúafjölda, skráningar á biz.com, info.net og .org lénum og hvað varðar greiðslur fyrir hugverkaréttindi, fjölda birtra vísindagreina á íbúa og fjölda áhættufjárfestinga.

Þegar allt er talið er vísitalan byggð á mati á 80 mismunandi þáttum sem snúa bæði að aðstæðum í löndunum til nýsköpunar og hins vegar afrakstri nýsköpunar. Kemur fram að Ísland skorar lágt í flokkunum mannauður og rannsóknir, þekking og tækniframleiðsla og þroski markaðar (e. market sophistication).

Aukið fé til hugbúnaðar

„Meðal einstakra þátta sem Ísland skorar lágt í eru stærð innanlandsmarkaðar miðað við þjóðarframleiðslu (128. sæti), hlutfall erlendrar fjárfestingar af þjóðarframleiðslu (128. sæti), þjóðarframleiðsla miðað við orkunotkun (125. sæti), fjöldi hönnunarskráninga (97. sæti), fjölbreytni iðnaðarframleiðslu (97. sæti) og hlutfall háskólanema sem útskrifast úr verkfræði-, raunvísinda- og tæknigreinum (87. sæti),“ segir ennfremur í greininni á vef Hugverkastofu.

Sjá má í sérumfjöllun WIPO um hvert land og þróunina seinustu ár að heildarárangur Íslands er sagður skipa landinu í hóp meðal fremstu nýsköpunarþjóða þegar litið er til landsframleiðslu á hvern íbúa og að Ísland tilheyrir 25 efstu þjóðum á listanum.

Af einstökum fleiri þáttum sem bornir eru saman virðist m.a. hafa hallað undan fæti hér á landi í samanburði á hugvitsafurðum. Á árinu 2021 komst Ísland upp í 16. sæti á þennan mælikvarða meðal þjóðanna, en hefur lækkað svo um eitt sæti á árinu 2022 og er nú í 25. sæti. Fjárframlög til hugbúnaðar fara hins vegar vaxandi hér frá ári til árs sem hlutfall af landsframleiðslu.

Taka nýrri tækni vel

Fram kemur í umfjöllun Hugverkastofu um þróun nýsköpunar á heimsvísu í fyrra að aukin notkun gervigreindar endurspeglist í því að mestur vöxtur varð í rannsókna- og þróunarkostnaði í iðnaði tengdum örgjörvum og skjákortum. Áhættufjárfestingar drógust mikið saman í fyrra eða um nær 40% frá árinu á undan á heimsvísu. „Upptaka á nýrri tækni gengur almennt vel í heiminum þó enn gangi hægt að innleiða tækninýjungar á borð við rafmagnsbíla og nýjar krabbameinsmeðferðir,“ segir ennfremur.

Höf.: Ómar Friðriksson